Að mæla beinheilsu

Brotni í þér bein þarf það ekki endilega að þýða að beinin séu veikbyggð. Dettir þú til dæmis illa á hörðu svelli getur handleggur brotnað auðveldlega jafnvel þótt beinið sé sterkt. Við ákveðnar aðstæður ættirðu engu að síður að íhuga hvort rétt sé fyrir þig að fara í beinþéttnimælingu.

  • Sértu komin yfir fimmtugt eða úr barneign og brýtur bein við fall eða slys.

  • Brotni bein við minni háttar högg eða án þess að þú hafir lent í slysi.

  • Sértu með brjóstakrabbamein sem hefur sáð sér í bein. (Þessi tegund meinvarps eða dreifing krabbameins getur veikt beinin jafnvel þótt þú hafir ekki greinst með beinþynningu.)

Fyrr á árum hefði fólk ekki fengið meðferð við beinþynningu fyrr en það brotnaði án sýnilegrar ástæðu. Læknir hefði þá reiknað með að beinin væru veik og kveðið upp úr með að ástæðan væri beinþynning. Greiningin hefði líka getað komið til þannig að læknir mældi hæð og komst að því að viðkomandi hefði lækkað í lofti um einhverja sentímetra. Einnig það getur verið síðbúið merki um beinþynningu.

Nú til dags er hægt að mæla styrkleika beina og segja fyrir um hættu á að brotna áður en til þess kemur. Mæling gerir það mögulegt að byrja meðferð fyrr, þannig að hægt sé að draga úr beingisnun eins mikið og kostur er áður en til vandræða horfir. Ýmsar leiðir eru þekktar til að kanna hvort bein séu heilbrigð:

  • Að mæla hæð: Einfaldasta leiðin er að mæla hve þú ert há og athuga hvort þú er jafn há og þú varst um tvítugt. (Gamalt vegabréf, gamalt ökuskírteini eða læknisskýrslu mætti nota til viðmiðunar.) Flestir missa 3-5 sentímetra af hæðinni með aldrinum. Minnki hæðin meira en svo, gæti það bent til beinþynningar í hryggjarliðum. Þú ættir að láta lækni mæla þig á hverju ári til að fylgjast með því hvort þú heldur hæð eða lækkar í lofti milli ára.

  • Líkamsstaða: Verðir þú sífellt hoknari í herðum, gætirðu verið með beinþynningu. Hins vegar eru margar aðrar ástæður fyrir því að fólk verður hokið – og ein þeirra er sú að það stendur ekki eða situr beint í baki. Og þó – getir þú ekki staðið bein, þanið út brjóstið og dregið saman herðablöðin, gæti það bent til beinþynningar.

  • Beinþéttnimæling: Með þessari aðferð er hægt að mæla hversu mikið bein þú hefur. Beinþéttni er yfirleitt mæld í hrygg eða mjöðm sem eru þeir staðir líkamans þar sem brot eru algengust ef manneskja er með beinþynningu. Beinmassinn, beinþéttnin, er mældur og borinn saman við eðlileg gildi konu á barneignaraldri (til að athuga hversu mikið þín mæling víkur frá meðaltalinu). Einnig er borið saman við aðrar konur á sama aldri. Úrskurðurinn verður beinþynning ef beinþéttnin er minni en það sem telst eðlilegt hjá konu á barnaeignaraldri (líkt og þegar blóðþrýstingur og kólestról er mælt). Sértu undir meðaltali fyrir þinn eigin aldur, kann læknir þinn að vilja láta taka sýni til að kanna hvers vegna beinþéttnin er ekki á sama róli og hjá jafnöldrum þínum. DXA myndgreining sýnir ekki hvort bein eru að eyðast á þeirri stundu sem mælt er eða hvort beinþynning fer versnandi.

  • Blóð- og þvagprufur: Sé beinþéttni þín lítil, gæti læknir þinn viljað láta taka einföld blóð- og þvagsýni til að ganga úr skugga um að ástæðan sé ekki veikindi.

  • Strimlasýni: Mikilvægt að kanna hvort kalk síast út í blóð eða þvag í stað þess að halda sig í beinvefnum þar sem það á heima. Þessa sérstöku tegund af blóð- og þvagsýnum er líka hægt að nota til að kanna hvort lyf sem gefin eru við beinþynningu skila tilætluðum árangri.

Hér á eftir verður sagt meira frá beinþéttnimælingum og strimlamælingum, hvernig þær fara fram, hvenær rétt er fyrir þig að fara í mælingu og fleira.

ÞB