Aðrar mælingaraðferðir
Læknir þinn kann að ákveða í framhaldi af beinþéttnimælingunni að nauðsynlegt sé að taka bæði blóð- og þvagsýni og gera á þeim ýmsar rannsóknir. Sumar þeirra miða að því að ganga úr skugga um að ekki séu fleiri ástæður fyrir beineyðingunni (eins og til dæmis ofvirkur skjaldkirtill eða léleg upptaka sérstakra næringarefna svo sem D-vítamíns). Hann kann einnig að mæla með ákveðnum strimlaprófum.
Strimlapróf eru framkvæmd þannig að strimlar eru látnir liggja skamma stund í þvagi eða blóði og sýna þá hversu mikið nýtt bein líkaminn framleiðir og hve mikið eyðist. Þessar prófanir eru auðveldar í framkvæmd og má endurtaka eftir þörfum. Læknir þinn kann að vilja láta skoða þetta til að sjá hvort beinefni (kalk) eyðist óeðlilega eða til að sjá hvort lyfin sem þú tekur við beinþynningu hafi tilætluð áhrif.
Upplýsingar sem lesa má af strimplaprófum eru notaðar til að:
-
Gefa vísbendingar um hvort hætta er á beinþynningu eða beinbrotum.
-
Stýra meðferð sem þú átt hugsanlega að fá til að styrkja beinin.
Eftirfarandi upplýsingar eru flestu venjulegu fólki torskildar, en hugsanlega hefði læknir þinn áhuga á að vita meira og því fær þetta að fylgja með:
Strimlapróf sem ætluð eru til að lesa ástand beina úr blóð- eða þvagsýni sýna:
-
Magn BSAP, sérstaks beinmyndandi ensíms (efnaskiptahvata) og osteokalsíns (prótíns sem bara finnst í beinum) en af því má merkja hversu hröð (eða hæg) beinmyndunin er;
-
NTx (krosstengd N-telopeptíð af gerð I kollageni), sem gefur til kynna hve mikið ísogið er úr beinunum (hve mikið kalk fer úr beinum út í blóðið). Það er venjulega mælt í þvagi að morgni (annarri þvagbunu eftir að komið er á fætur og á fastandi maga).
ÞB