Beinþéttnimælingar

Í stuttu máli

DXA myndgreining

  • Með DXA myndgreiningu er mælt steinefnamagn í beinum, þ.e. beinþéttnin (BMD="Body Mineral Density").
  • Niðurstaðan getur sagt fyrir um líkur á beinbrotum.
  • Beinþéttni er yfirleitt mæld í hrygg eða mjöðm.
  • Með DXA myndgreiningu er beinþéttnin reiknuð útfrá því magni geisla sem beinið tekur til sín og borið saman við beinþéttni ungrar konu á barneignaraldri annars vegar og aðrar konur í þínum aldursflokki hins vegar. 
  • Greinist þú með beinþynningu táknar það að beinþéttnin hjá þér er komin niður fyrir það sem gert er ráð fyrir að sé eðlilegt hjá konum sem komnar eru úr barneign (minna en Tgildi   -2.5).
  • Beinþéttnimælingar fara fram á LSH í Fossvogi og niðurstöður (myndir og útreikningar) eru varðveittir þar.
  • Ein stök mæling segir lækni þínum einungis hversu sterk bein þín eru á þeim tíma sem mælingin er gerð, en getur ekki sagt neitt um það hvort beinin hafi verið að þynnast fram að því eða hvort þau muni gera það síðar meir.
  • Sértu með beinþynningu (Tgildi undir -2.5) er líklegt að læknir þinn reikni með að beinþéttnin hafi verið eðlileg á yngri árum þínum og beinin hafi gisnað. Ekki er hægt að segja fyrir af einni mælingu hvort beingisnun muni halda áfram eða ekki.
  • Sé beinmassinn við neðstu mörk þess sem telst eðlilegt hjá ungri konu (16%), sýnir það tilhneigingu til beingisnunar og gæti bent til þess að meiri líkur séu á að þú fáir beinþynningu með tímanum en ella. Sértu komin yfir tíðahvörf og með beingisnun eru einnig meiri líkur á að þú beinbrotnir en ella. Hins vegar væru líkur á beinbroti enn meiri, værir þú með beinþynningu.

Algengasta aðferðin við að kanna kalkmagn í beinum er með svokallaðri DXA-myndgreiningu.


DXA-myndgreining

DXA-myndgreining er ákveðin tegund röntgenrannsóknar og er notuð til að mæla beinþéttni. Stundum er þessi aðferð líka kölluð BMD-mæling (Bone Mineral Density). Með DXA-myndgreiningu er unnt að mæla beinþéttni allra beina líkamans. Yfirleitt er það svo, að því þéttari sem beinin eru þeim mun sterkari eru þau og því getur beinþéttnimæling sagt fyrir um líkur á beinbroti.

dexa_scan_tcm

 Stækka mynd

DXA mynd af mjaðmarlið  (Með leyfi Hologic, Inc.)


Við hverju þú mátt búast þegar þú ferð í DXA-myndgreiningu

Þú þarft ekki að afklæðast, aðeins fjarlægja allan málm áður en þú ert skönnuð. Þú leggst út af á sérstakan bekk eða borð á meðan myndgreiningartækið hreyfist hægt yfir líkamann. Þú ert ekki inni í lokuðu rými, mælingin er sársaukalaus og tekur um það bil 20 mínútur.

Magn geislunar við venjulega DXA-myndgreiningu er minna en það magn geisla sem þú færð við röntgenmyndatöku af brjósti (sem er stundum borið saman við það magn geislunar sem þú yrðir fyrir frá sól, dveldir þú skamma stund í þunnu lofti).

Þú þarft að fá ýmsum spurningum svarað þegar þú ræðir niðurstöður mælinganna við lækni þinn:

  • Hvernig eru niðurstöður mínar samanborið við ungar konur (á barneignaraldri)?

  • Hvernig eru niðurstöður mínar samanborið við konur á mínum aldri?

  • Gefa niðurstöðurnar til kynna að ég hafi glatað beinstyrk og ef svo er hve miklum?

  • Hverjar eru líkurnar á að það brotni í mér bein á næstu 5 eða 10 árum af niðurstöðunum að dæma?

  • Er ég með einhverja áhættuþætti til viðbótar sem ég gæti haft áhrif á til að draga úr hættu á beinbroti?

  • Þarf ég að fara í frekari rannsóknir áður en ákvörðun er tekin um hvort ég þurfi á lyfjum að halda til að koma í veg fyrir frekari beingisnun og draga þannig úr hættu á beinbrotum?

  • Er ástæða til að ætla að ég sé með beingisnun eða beinþynningu?


DXA-myndgreining í stuttu máli

DXA-myndgreining mælir steinefnamagn BMD – bone mineral density) og í beinum er það fyrst og fremst kalk.

  • Niðurstöðurnar segja fyrir um líkur á beinbrotum.

  • Kalkmagnið (BMD) er venjulega mælt í hryggjarliðum og mjöðmum.

  • DXA-myndgreinirinn reiknar beinþéttni út frá geislamagninu sem beinið tekur við og ber beinstyrkinn saman við beinstyrk ungra kvenna í barneign (fyrir tíðahvörf) svo og við beinstyrk kvenna á þínum aldri.

  • Greinist þú með beinþynningu þýðir það að beinþéttni þín er komin niður fyrir þau mörk sem gert er ráð fyrir að séu eðlileg fyrir konur á barneignaaldri (ef frávikið er undir –2,5 á T-skala).

  • Ein, stök mæling segir lækni þínum einungis hve sterk bein þín eru þegar mælingin er gerð en getur ekki sagt til um hvort þú hafir orðið fyrir beineyðingu eða hvort þú verðir fyrir henni í framtíðinni.

  • Sértu með beingisnun (beinþéttni er minni en –2,5) er lækni þínum óhætt að gera ráð fyrir að þú hafir verið á eðlilegu róli á þínum yngri árum en hafir nú glatað beinmassa. Engin leið er að segja til um af einni mælingu hvort beineyðing muni ágerast.

  • Sé beinmassi þinn í neðri kantinum á eðlilegu meðaltalsbili ungra kvenna (16%), segir læknir þinn trúlega að þú sért með beingisnun. Það merkir einungis að síðar meir er hætta á beinþynningu. Sértu komin yfir tíðahvörf og með beingisnun, er meiri hætta á beinbroti en áður, en hættan væri samt ennþá meiri ef þú værir með beinþynningu.

Hve oft ættirðu að fara í beinþéttnimælingu?

Ekki er óeðlilegt að gera ráð fyrir að konur sem komnar eru á miðjan sjötugsaldur fari einu sinni á ári og láti athuga kalkbúskap beinanna. Hið sama á við um konur með beinþynningu í ættinni (beinbrot án áfalla eða slysa), konur á leið í ótímabær tíðahvörf vegna meðferðar við brjóstakrabbameini svo og konur komnar úr barneign er taka inn aromatase hormónahemla á hvaða aldri sem er. 

Með fyrstu mælingu er hægt að fastsetja byrjunarreit fyrir beinheilsu þína. Mælinguna má framkvæma á undan krabbameinsmeðferðinni, á meðan á henni stendur eða eftir að henni lýkur. Endurteknar mælingur munu sýna hvort beinstyrkurinn er stöðugur eða hvort mælanlegar breytingar hafa orðið á annan hvorn veginn – til hins verra eða betra.

Á næstu árum, þegar beinþéttni hefur verið mæld oftar, þarftu að leggja eftirfarandi spurningar fyrir lækni þinn:

  • Er hægt að segja ákveðið hvort ég er með beingisnun eða beinþynningu?

  • Hvernig hafa beinin í mér breyst?

  • Hafi beinin breyst eitthvað, er breytingin þá meiri en búast hefði mátt við (meiri en hægt er að skýra með hugsanlegri skekkju í mælingu)?

  • Þýðir breytingin að beinheilsa mín fer batnandi eða fer hún versnandi?

  • Gefur niðurstaðan ástæðu til að breyta á einhvern hátt beinverndaráætluninni sem var gerð á sínum tíma?


Hverjir ættu að fara í beinþéttnimælingu?

Almennt séð ættu allar konur sem orðnar eru 65 ára eða eldri að láta mæla beinþéttnina. Yngri konur, komnar yfir tíðahvörf og í áhættuhópi beinþynningar, ættu að gera slíkt hið sama. Þar á meðal eru konur sem hafa greinst með brjóstakrabbamein.

Hér á landi hafa ekki verið gefin út nein sérstök meðmæli hvað varðar beinþéttnimælingar á konum, en í Bandaríkjunum hafa samtök krabbameinslækna (The American Society for Clinical Oncology – ASCO) mælt með beinþéttnimælingu fyrir:

  • Konur sem af einhverjum ástæðum fara inn í ótímabær tíðahvörf (hætta að hafa egglos og blæðingar fyrr en náttúran ætlaði þeim), þar á meðal vegna meðferðar við brjóstakrabbameini.

  • Allar konur sem komnar eru úr barneign (tíðahvörf að baki).

  • Konur sem hafa tekið inn hormóna við tíðahvarfaeinkennum og orðið að hætta að taka þá vegna þess að þær greindust með brjóstakrabbamein

  • Konur sem hættu að hafa blæðingur á meðan þær voru í meðferð við brjóstakrabbameini.

Mælingar sem stundum er ruglað saman við DXA-myndgreiningu

Bestu mælingarnar eru þær sem meta ástand mikilvægustu beinanna, þeirra sem hættir helst til að brotna vegna beinþynningar (hryggjarliða, mjaðmabeina) og því er DXA-myndgreining áreiðanlegasta aðferðin við að mæla styrkleika beina.

Tölvusneiðmynd er stundum notuð til að mæla beinþéttni ef ekki er hægt að framkvæma DXA-mælingu. Tölvusneiðmynd getur þurft að taka af miðaldra og rosknum konum (eldri en 65 ára) með slæma gigt í hryggjarliðum. Eftir sem áður er rétt að nota DXA-myndgreiningu á mjaðmir.

Hvers kyns ábendingum um beinþynningu er rétt að fylgja eftir með DXA-myndgreiningu.

Konur sem hafa greinst með brjóstakrabbamein eru stundum sendar í tölvusneiðmyndun, en það er annað en DXA-myndgreining. Tölvusneiðmyndir eru teknar til að ganga úr skugga um hvort krabbamein hefur dreift sér í beinin (leit að meinvörpum).

ÞB