Beinstyrkjandi lyf

Yfirlit

Leiðbeiningar um töku bífosfónatalyfja:

 1. Lyfin eru tekin inn ásamt fullu glasi af hreinu vatni (ekki kolsýrðu) á fastandi maga.
 2. Líða þarf hálftími eftir töku lyfsins áður en þú borðar eða tekur inn annað lyf.
 3. Í hálftíma eftir töku lyfsins skaltu forðast að leggjast út af til að koma í veg fyrir ertingu í vélinda, brjóstsviða og aukaverkanir í meltingarvegi. Aukaverkanir sem þessar eru óvenjulegar, en hafir þú fundið fyrir þeim eftir að þú byrjaðir töku lyfsins skaltu tala við lækni þinn um hvort hægt sé að gefa þér lyfið á annan hátt (í æð) eða skipta yfir í annars konar lyf.

Beinþynning getur komist á það stig að nauðsynlegt sé að fá lyf við henni. Ýmis lyf stöðva beinþynningu og stuðla að því að auka beinþéttni. Oft eru þau tekin samhliða kalkbætiefni.

Konur sem fengið hafa brjóstakrabbamein gætu þurft að taka inn beinstyrkjandi lyf meðan á krabbameinsmeðferð stendur eða að henni lokinni, nema hvort tveggja sé. Lyfin stuðla að því að koma í veg fyrir eða fresta beinþynningu sem annars gæti átt sér stað sem hliðarverkun af meðferðinni eða afleiðing af henni. Þrátt fyrir lyfin þarf eftir sem áður að huga vel að mataræði og hreyfingu. Tilgangur lyfjanna er að styrkja enn frekar áhrif þess að lifa heilsusamlegu lífi.

Bífosfónatar, SERM-lyf og önnur lyf vinna gegn beinþynningu.

Bífosfónatar

Ýmis algeng bífosfónatalyf eru notuð til að lækna beinþynningu. Þau hafa reynst mjög vel við meðferð á beinþynningu og með þeim má draga verulega úr beinbrotum. Lyfin hægja á niðurbroti gamals beins og stuðla þannig að meira jafnvægi beineyðingar og beinmyndunar sem sífellt á sér stað í líkamanum.

Þrjár tegundir lyfja hafa verið samþykktar af Lyfja- og matvælastofnun Bandaríkjanna. (*Oft er beðið eftir samþykki þeirrar stofnunar áður en íslensk yfirvöld samþykkja að eitthvert lyf sé notað hér á landi.)

 • Fosamax (efnafræðiheiti: alendronate sodium) er tekið um munn einu sinni í viku.

 • Actonel (efnafræðiheiti: risedronate) er tekið um munn einu sinni í viku.

 • Bonvia (efnafræðiheiti: ibandronate) hefur verið samþykkt af Lyfja- og matvælastofnun Bandaríkjanna, en var ekki enn komið á markað í mars 2005. Þegar lyfið verður fáanlegt mun það að líkindum verða í töfluformi, ein tafla tekin einu sinni í mánuði, eða gefið beint í æð með enn lengra millibili.

Aðrir bífosfónatar hafa verið samþykktir til að meðhöndla fleira en beinþynningu:

 • Aredia (efnafræðiheiti: pamidronate disodium) er gefið í æð á þriggja til fjögurra mánaða fresti.

 • Zometa (zoledronic adic) er gefið í æð einu sinni á ári.

 • Bonefos (efnafræðiheiti: clodronate) er í hylki sem er tekið inn einu sinni á dag en aðeins fáanlegt í Evrópu.

Þrjú síðastnefndu lyfin hafa verið notuð við margvíslegar aðstæður til að verja bein kvenna sem hafa greinst með brjóstakrabbamein og eru til dæmis gefin konum sem:

 • Hafa fengið meinvörp í bein útfrá brjóstakrabbameini (aredia, zometa, clodronate) til að draga úr hættu á frekari útbreiðslu krabbameinsins.

 • Hafa mikið kalk í blóði vegna þess að krabbamein hefur dreifst í beinin.

 • Miklar líkur eru á að þrói með sér meinvörp í beinum. Árangurinn af því hefur þó verið misjafn. Í fimm ára rannsókn sem gerð var á Bretlandi bæði á konum sem voru komnar með krabbamein í eitla í holhönd og þeim sem ekki höfðu fengið krabbamein í eitla, dró notkun bífosfónata úr hættu á beinameinvörpum og jók lífslíkur almennt. Finnsk rannsókn sem stóð yfir í tíu ár en náði til mun færri kvenna og aðeins þeirra sem voru komnar með krabbamein í eitla (með lengra genginn sjúkdóm) sýndi ekki jákvæða niðurstöðu.

 • Eiga á hættu að fá beinþynningu vegna lyfjameðferðar við brjóstakrabbameini (zometa, gefið einu sinni á hálfs árs fresti og clodronate).

Bífosfónatar geta aukið beinþéttni og dregið úr hættu á beinbrotum. Þau lyf sem hér hefur verið minnst á sýndu að beinþéttni jókst um 2,5% og drógu úr hættu á brotum í hryggjarliðum um allt að 62% á tveggja ára tímabili. Með tímanum dregur úr ávinningnum. Engu að síður stuðla lyfin að því að viðhalda þeirri beinþéttni sem fyrir er.

Skammtar:

Lyfja- og matvælastofnun Bandaríkjanna (FDA) hefur samþykkt tvær tegundir bífosfónata sem er ætlað að meðhöndla og fyrirbyggja beinþynningu hjá konum komnum yfir tíðahvörf:

 • Foasamax (efnafræðiheiti: alendronate): Til að meðhöndla beinþynningu er tekin ein 70 mg (milligramma) tafla einu sinni á viku eða ein 10 mg tafla á dag. Skammtur til að koma í veg fyrir beinþynningu er 35 mg einu sinni í viku eða ein 5 mg tafla á dag. Til að meðhöndla beinþynningu af völdum steralyfja er skammturinn ein 5 mg tafla einu sinni á dag og ein 10 mg tafla á dag fyrir konur sem ekki taka inn estrógen.

 • Actonel (efnafræðiheiti: risedronate): Til að fyrirbyggja eða meðhöndla beinþynningu er tekin ein 35 mg tafla einu sinni í viku eða ein 5 mg tafla einu sinni á dag. Til að fyrirbyggja eða meðhöndla beinþynningu af völdum steralyfja er notaður sami skammtur.

Stofnunin hefur einnig samþykkt tvö bífosfónatalyf sem gefin eru í æð þegar um krabbamein er að ræða. Vegna þess hvernig lyfin eru gefin eru þau miklu dýrari en töflur. Sumir læknar kunna að mæla með öðru hvoru þessara lyfja gegn beinþynningu, getir þú af einhverjum ástæðum ekki tekið inn önnur lyf.

 • Zometa (efnafræðiheiti: zoledronic acid) er gefið við of miklu kalki í blóði vegna krabbameins og við meðhöndlun á meinvörpum í beinum samhliða venjubundinni lyfjameðferð við krabbameini. Kanna þarf starfsemi nýrna í hvert sinn áður en zometa er gefið í æð til að ganga úr skugga um að þau starfi eðlilega.

 • Aredia (efnafræðiheiti: pamidronate) er gefið við meðhöndlun á of miklu kalki í blóði af völdum krabbameins. Sömuleiðis hafi bein veiklast vegna meinvarpa í beinum.

Taka þarf bífosfónata samkvæmt ávísun læknis (venjulega einu sinni í viku) til að koma í veg fyrir beinþynningu. Um leið og þú hættir að taka lyfin mun beinþynning hefjast á ný. Flestar konur þola þessi lyf þokkalega vel og án aukaverkana, þannig að flestum konum er óhætt að nota þau í langan tíma.

Ein rannsókn sýndi að konur gátu tekið fosamax í allt að tíu ár og nýtt sér beinstyrkjandi eiginleika lyfsins án vandræða. Hjá hópnum sem var rannsakður (ekki er tekið fram hversu margar konur var um að ræða) jókst beinþéttnin um 13,7% að meðaltali í hryggnum, en áhrifin voru minni í mjaðarbeinum þótt áhrifin reyndust engu að síður marktæk. Hjá þeim sem hættu að taka lyfið á þessu árabili jókst beinþynning jafnt og þétt.

Bífosfónatar minnka upptöku líkamans á kalki. Þú þarft því að taka inn kalk aukalega þegar þú ert á bífosfónatalyfjum. Vegna þess að kalk getur truflað upptöku bífosfónata er best að taka inn kalkskammtinn (einn af tveimur til þremur skömmtum á dag) að minnsta kosti tveimur klukkustundum eftir að bífosfónatalyfið er tekið.

Aukaverkanir

Ein af aukaverkunum bífosfónata getur verið erting í vélindanu (rörinu sem liggur frá munni niður í maga), ólga í maga og óþægindi í vöðvum og beinum.

Nýlega hafa birst skýrslur um sérkennilegan og sjaldgæfan fylgikvilla sem kallast beinfúi og kemur fram í kjálkabeini eða kjálkabeinum hjá fólki sem fær stóra skammta af bífosfónötum í æð sem hluta af meðferð við beinameinvörpum krabbameins. Beinfúinn kemur fram í því að beinfrumur sem ekki eru krabbameinsfrumur, deyja í óeðlilegum mæli. Þennan fylgikvilla er oftast að finna hjá fólki sem hefur farið í tannaðgerðir eða látið taka úr sér tennur á meðan það var á  lyfjunum. Holrými eftir tennur sem hafa verið teknar lokast ekki og grær ekki og getur það haft alvarleg vandamál í för með sér.

Ekki er vitað hvers vegna þessi fylgikvilli kemur upp hjá sumu fólki eða hve stórt vandamálið er í raun. Því er það svo að í bili láta flestir læknar hættu á beinfúa ekki koma í veg fyrir meðferð með bífosfónötum. Samt gæti verið ráðlegt að ræða þetta við lækni þinn sértu að fá lyfið zometa.

Hugsanlegt er að bífosfónatameðferð kunni að nýtast á fleiri vegu. Í nýlegri rannsókn þar sem konum með brjóstakrabbamein á byrjunarstigi var gefið zometa í æð tvisvar á ári, sýndu niðurstöðurnar að lyfið kom að mestu í veg fyrir eða dró til muna úr beinþynningu af völdum móthormónameðferðar. Ekki er ljóst hvort hætta á beinfúa fylgir þess háttar notkun lyfsins.

 

 

Skilmálalaus rannsóknarstyrkur frá AstraZeneca gerði það mögulegt að semja þennan kafla.

 

ÞB