Krabbameinsmeðferð og beinþynning

Flestar konur sem greinast með brjóstakrabbamein eiga langt líf fyrir höndum eftir að meðferð lýkur. Meðferðin getur hins vegar orðið til þess að kalk eyðist hraðar úr beinum en ella og þar með eykst hætta á beinþynningu.

Stundum er beingisnun eða beinþynning til staðar áður en brjóstakrabbameinið greinist. Það gæti komið þér óþægilega á óvart – einkum hafi greining brjóstakrabbameins orðið til þess að þú fórst í fyrsta sinn í beinþéttnimælingu. Meðferð við brjóstakrabbameini getur ýmist gert ástandið verra, bætt það eða engin áhrif haft á ástand beinanna. Hafðu í huga að um 16% venjulegra, heilbrigðra kvenna hafa lítinn beinmassa af því að það er ættarfylgja þeirra. Þær konur eru yfirleitt lágar vexti og gætu þurft að láta fylgjast með sér vegna hættu á beinþynningu en þurfa ekki endilega að fá meðferð.

Mikilvægt er að minnast þess að hvert einstakt lyf við krabbameini felur í sér bæði vissa ókosti og ákveðna kosti umfram önnur. Æskilegt er að þú fáir að ræða við lækni þinn um kosti og galla þeirrar meðferðar eða þeirra lyfja sem í boði eru með hliðsjón af heilsufari þínu að öðru leyti.

Besta hugsanlega meðferð við þeirri tegund krabbameins sem þú greindist með gæti ógnað beinheilsu þinni. Beinstyrkjandi æfingar, vítamín og steinefni, breytingar á lifnaðarháttum og lyf geta hins vegar dregið úr óæskilegum afleiðingum eða komið alveg í veg fyrir þær.


Meðferð sem hefur áhrif á heilbrigði beina

Meðferð við brjóstakrabbameini getur haft áhrif á heilbrigði beina á ýmsa lund:

Krabbameinslyfjameðferð getur framkallað ótímabær tíðahvörf og þeim fylgir estrógentap sem getur leitt til beingisnunar. Beinin geta tekið að þynnast á meðan þú ert enn í meðferð og haldið því áfram að meðferð lokinni.

  • CMF lyfjameðferð (upphafsstafirnir úr orðunum cyclophosphamide, methotrexate og fluorouracil) er líklegri til að binda endi á starfsemi eggjastokka fyrir fullt og allt – og framkalla þannig tíðahvörf – en lyf sem innihalda doxorubicin (tegundarheiti: Adriamycin).

  • Rannsókn á konum sem voru enn í barneign þegar þær hófu lyfjameðferð við brjóstakrabbameini leiddi í ljós að um 8% þeirra að meðaltali urðu fyrir beingisnun í hryggjarliðum innan árs frá því að lyfjameðferðin hófst, hefði meðferðin framkallaði ótímabær tíðahvörf. Þær konur sem á hinn bóginn héldu áfram að hafa blæðingar urðu yfirleitt ekki fyrir beineyðingu.

  • Takir þú inn steralyf til að vinna gegn aukaverkunum af lyfjameðferð við krabbameini, getur það ýtt undir beingisnun.

  • Þegar dregur úr hreyfingu og athafnasemi meðan á lyfjameðferð stendur getur það orsakað beinþynningu.

Aromatasahemjarar eru lyf sem notuð er við andhormónameðferð gegn brjóstakrabbameini og geta þau framkallað beinþynningu. Til eru þrjár gerðir þessa lyfs:

  • Arimidex (efnafræðiheiti: anastrozole),

  • Femar (efnafræðiheiti: letrozole),

  • Aromasin (efnafræðiheiti: exemestane).

Lyfin fá aðeins þær konur sem komnar eru yfir tíðahvörf.

Í svokallaðri ATAC rannsókn voru könnuð beinþynningaráhrif lyfsins arimidex á konur samanborið við tamoxifen. Rannsóknin var gerð með þátttöku rúmlega 9.000 kvenna kominna úr barneign og stóð í tvö ár eftir að meðferð við brjóstakrabbameini lauk. Hjá konum sem tóku inn arimidex mældist beinþynning 3% - 4% meiri en hjá þeim sem fengu tamoxifen.

ATAC-rannsóknin dró nafn sitt af upphafsstöfum lyfjanna og samanburðinum á þeim, saman og sitt í hvoru lagi: Arimidex and Tamoxifen Alone or in Combination.

Aromatase-hemlar eru tiltölulega nýleg lyf og því er enn ekki vitað:

  • Hve lengi beinþynningaráhrifin vara,

  • hvort þau halda áfram á sama hraða, vaxa eða minnka með tímanum, vari þau á annað borð.

Aromasin hefur aðra efnafræðilega uppbyggingu en arimidex og femara. Óljóst er hvort sá munur hefur svipuð eða ólík áhrif á beinstyrk, en gera má ráð fyrir að áhrifin séu þau sömu eða svipuð þar sem öll hafa lyfin þau áhrif að koma í veg fyrir að estrógen safnist fyrir í vefjum, þar með talið í brjóstum og beinum.

SERM-lyf draga heiti sitt af upphafsstöfum ensku orðanna Selective Estrogen Receptor Modulators sem þýðir nokkurn veginn að þau hafa áhrif á viðtaka estrógens en gera upp á milli þeirra (selective). Í þessum flokki lyfja eru tamoxifen og raloxifene (tengundarheiti: evista). Þessi lyf geta í rauninni haft verndandi áhrif á beinin.

Af þessum tveimur lyfjum er tamoxifen það SERM-lyf sem hefur verið lengst í notkun og mest rannsakað. Ein rannsókn sýndi að tamoxifen hafði aukið beinþéttni um 2% hjá konum komnum úr barneign sem tóku lyfið í fimm ár til að draga úr hættu á að krabbamein tæki sig upp. Í annarri rannsókn með þátttöku tæplega eitt þúsund kvenna minnkaði tamoxifen líkur á beinbrotum um 19% á fimm ára tímabili, bæði hjá konum í barneign og þeim sem komnar voru úr barneign. Báðar þessar rannsóknir voru gerðar í Bandaríkjunum.

Hitt SERM-lyfið er raloxifen og hefur verið viðurkennt af lyfjastofnun Bandaríkjanna (U.S. Food and Drug Administration) sem lyf til að koma í veg fyrir og lækna beinþynningu. Í evrópskri rannsókn kom í ljós að beinþéttni 600 kvenna sem höfðu tekið raloxifene í tvö ár hafði aukist um 1% til 2%. Eftir að hafa tekið lyfið í þrjú ár hafði raloxifene einnig dregið um 55% úr hættu á samfalli hryggjarliða hjá konum sem aldrei höfðu orðið fyrir því að hryggbolur brotnaði og um 30% hjá konum sem höfðu orðið fyrir því að hryggbolur brotnaði. Lyfið virðist hins vegar ekki hafa nein áhrif á önnur bein en hryggjarliði, þar með talin bein í mjöðm.

Enn ein rannsóknin, svokölluð MORE rannsókn (Multiples Outcomes Related to Evista) leiddi í ljós að raloxifene getur dregið um 60% úr líkum á brjóstakrabbameini  hjá konum komnum úr barneign með beinþynningu. Í rannsókninni tóku aðeins konur þátt sem aldrei höfðu greinst með krabbamein. (Talið er að konur með beinþynningu eigi síður á hættu að fá brjóstakrabbamein en hinar.) Í rannsókninni var raloxifenið borið saman við lyfleysu (sykurtöflu).

Í klínískri rannsókn sem enn stendur yfir og gengur undir nafninu STAR (Study of Tamoxifen and Raloxifene) eru fræðimenn að bera saman möguleika raloxifens og tamoxifens á að minnka líkur á brjóstakrabbameini. Í rannsókninni taka þátt konur sem af einhverjum orsökum eru í áhættuhópi með miklum líkum á brjóstakrabbameini án þess að krabbameinið virðist ættgengt.

Til eru fleiri andhormónameðferðir og geta þær stöðvað starfsemi eggjastokka og framkallað ótímabær tíðahvörf (fyrr en gerst hefði ef náttúran hefði haft sinn eðlilega gang). Það hefur í för með sér að meiri hætta er á að beinþéttnin minnki og afleiðingin verði beinþynning. Lupron (efnafræðiheiti: leuprolide) og zoladex (efnafræðiheiti: goserelin) eru tvenns konar lyf sem stöðva starfsemi eggjastokka hjá konum sem enn eru á barneignaraldri þannig að þeir hætta að framleiða hormóna.

Sérstakur rannsóknarhópur (ZEBRA) sem einbeitir sér að því að kanna brjóstakrabbamein á frumstigi, leiddi rannsókn sem var þannig upp byggð að konum með frumkrabbamein í eitlum var skipt í tvo hópa – konur í öðrum hópnum fengu lyfið zoladex í tvö ár en konur í hinum hópnum fengum CMF lyf (cyclophosphamide, methotrexate og 5-fluorouracil) í hálft ár. Konur í báðum hópum sýndu merki beinþynningar eftir tvö ár. Ári síðar höfðu flestar konurnar sem fengið höfðu zoladex hins vegar endurheimt að minnsta kosti eitthvað af fyrri beinstyrk án þess að hafa fengið beinstyrkjandi lyf. Þegar eggjastokkar þeirra tókur aftur til starfa hóf líkami þeirra einnig að framleiða estrógen.

Konur í barneign með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum, svo og þær sem eru með genafrávik, svo sem BRCA1 eða BRCA2, geta látið fjarlægja eggjastokka sína. Það dregur bæði úr líkum á brjóstakrabbameini með því að minnka hormónamagn líkamans og líkum á krabbameini í eggjastokkum með því að eggjastokkavefurinn er fjarlægður áður en krabbamein fær tækifæri til að búa þar um sig.

Áður en andhormónameðferðir voru þróaðar var farin sú leið að fjarlægja eggjastokka í sama tilgangi. Aðferðin er enn víða notuð þar sem konum gefst ekki kostur á andhormónameðferð, ýmist vegna þess að hún þekkist ekki eða er talin of kostnaðarsöm.

Að fjarlægja eggjastokka veldur því að estrógen minnkar mjög hratt. Afleiðingin getur orðið hröð beinþynning eins og sú sem á sér stað við eðlileg tíðahvörf.


ÞB