Hvað ef þú ert með beinþynningu?

Hafir þú ekki þegar misst hæð eða fengið slæmsku í bak og hrygg ertu væntanlega ekki með nein sýnileg merki um beinþynningu. Sé beinþynning aftur á móti fyrir hendi, þótt ósýnileg sé, getur það reynst afdrifaríkt fyrir þig. Því þarf að grípa til róttækra úrræða; Beinþynning getur haft mikil áhrif bæði á lífsgæði og almenna heilsu.

Hér eru nokkur mikilvæg skref sem þú getur tekið í þá átt að vernda beinheilsuna:

  • Með aðstoð læknis þíns þarftu að láta fylgjast vel með áhrifum beinstyrkjandi meðferðar til að vera viss um að hún skili tilætluðum árangri.

  • Þú þarft að fara reglulega í beinþéttnimælingu (DXA-myndgreiningu) og láta taka sýni til að fylgjast með að hve hratt bein eyðast eða hve vel þú bregst við beinstyrkjandi meðferð.

  • Líkamsstaða þín er besti vinur beinanna. Í hvert sinn sem þú stendur sjálfa þig að því að standa eða sitja hokin skaltu draga axlirnar aftur og rétta úr hryggnum. Getirðu ekki gert þér grein fyrir hvort þú ert hokin eða ekki, skaltu líta í spegil eða gluggarúðu sem þú átt leið hjá. Réttu úr þér ef þú sérð þú ert hokin! Kennsla í jóga, pilates eða tæ tsí getur vakið meðvitund þína um hrygginn og möguleika hans.

Beinþynning og meðferð við brjóstakrabbameini

Þið læknir þinn munuð ræða saman um hvaða meðferð við brjóstakrabbameini er best fyrir þig. Sértu með beinþynningu verður það snar þáttur í ákvörðuninni að reyna að vernda beinheilsu þína og styrkja beinin eftir mætti.

Konur sem komnar eru úr barneign með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum (hormone-receptor-positive) á byrjunarstigi geta byrjað að taka andhormónalyfin arimidex (efnafræðiheiti: anastrozole) eða tamoxifen eftir að fyrstu aðgerð/um er lokið (skurðaðgerð, geislameðferð, meðferð með krabbameinslyfjum).

Tamoxifen verndar bein að vissu marki. Arimidex getur veikt bein. Verði kostir Arimidex ofan á og þannig andhormónameðferð við krabbameini talin æskilegust fyrir þig, gætir þú tekið inn bífosfónata til að auka beinþéttni.

Hafir þú verið á lyfjum við beinþynningu áður en þú greindist með brjóstakrabbamein, tekurðu hugsanlega nú þegar bífosfónatalyf. Ræddu við lækni þinn um möguleika á að halda áfram beinstyrkjandi lyfjagjöf á meðan þú ferð í gegnum krabbameinsmeðferðina.

ÞB