Eftirlit með beinheilsu meðan á meðferð stendur og að henni lokinni

Í samvinnu við lækni þinn getur þú gert mjög margt til að auka beinstyrk þinn meðan á krabbameinsmeðferð stendur og eftir að henni lýkur. Slíkar ráðstafanir draga ótvírætt úr hættu á beinþynningu og meðfylgjandi beinbrotum.

Sértu enn á barneignaaldri en hætt að hafa blæðingar vegna lyfjameðferðar:

  • Láttu mæla beinþéttni þína. Þá mælingu má síðan nota sem viðmiðun (DXA-myndgreining).

  • Gefi niðurstöður beinþéttnimælingar tilefni til, gæti læknir þinn talið ráðlegt að fylgjast ýmist árlega með beinþéttninni með DXA-myndgreiningu eða annað hvort ár til þess að fylgjast með breytingum. Þetta ákveðið þið í sameiningu.

Sértu á barneignaaldri og hafðir reglulegar blæðingar áður en lyfjameðferð hófst en ert ekki viss um hvort þú ert á leið inn í tíðahvörf:

  • Biddu lækni þinn um að láta taka blóðsýni og rannsaka núverandi ástand þitt með tilliti til tíðahvarfa (hormónabúskapinn). Niðurstöðurnar kunna að verða einhvers staðar mitt á milli þess sem er eðlilegt fyrir konur í barneign og það sem eðlilegt telst hjá konum sem komnar eru yfir tíðahvörf. Þetta er eins konar grátt svæði – breytingaskeið. Þótt niðurstöðurnar gefi ekki ákveðið svar um hvar þú ert stödd, veita þær engu að síður dýrmætar upplýsingar sem hægt er að bera mælingar saman við seinna meir. Sýni mælingin ekki ótvíræða niðurstöðu og þú ekki enn farin að fá blæðingar eftir hálft ár, er ráðlegt að láta endurtaka mælinguna til þess að fá skýr svör.

Sértu á breytingaskeiði eða komin yfir það:

  • Fáðu beinþéttnimælingu (DXA-myndgreiningu) áður en meðferð krabbameinslyfjum hefst.

  • Ræddu við krabbameinslækninn og fáðu skýr svör um hvaða áhrif fyrirhuguð meðferð getur haft á beinin.

Allsendis óháð því hvorum megin tíðahvarfa þú ert stödd:

  • Láttu athuga beinheilsu þína árlega eða eins oft og læknir kann að mæla með.

ÞB