Fæða sem stuðlar að sterkum beinum

Góð næring er beinum nauðsynleg og hollur matur getur bragðast mjög vel og framkallað aukna vellíðan. Gættu þess að fá hæfilega mikið af öllum næringarefnum, prótínum, kolvetnum og ein- og fjölómettaðri fitu. Þótt átökin við aukakíló geti harðnað eftir meðferð við brjóstakrabbameini er mikilvægt að forðast matarkúra sem gera út á mikla kolvetnaneyslu svo og aðra matarkúra sem eiga að hjálpa þér að léttast. Þegar fæðuval beinist að því að varðveita beinstyrk og beinheilsu er besta ráðið að gæta hófs í öllu.

Bein þurfa ýmislegt fleira en prótín. Neytir þú mjög prótínríkrar fæðu, missir líkaminn mikilvæg næringarefni og steinefni við að brjóta niður prótínin. Að missa kalk að óþörfu er slæmt fyrir beinin. Sum eggjahvítuefni (prótín) eru einnig heilsusamlegri en önnur. Ferskur fiskur, lífrænt ræktaður kjúklingur og prótín úr jurtaríkinu (baunir, belgbaunir og grænmeti) er besta prótín sem þú getur fengið.

Líkami þinn ÞARFNAST þess að fá flókin kolvetni til að koma í veg fyrir beinþynningu, einkum úr heilu korni. Ástæðan er þessi: Kolvetni eru líkamanum auðveld uppspretta orku. Skammtir þú honum kolvetnin naumt, leitar líkaminn að öðrum orkulindum, þar á meðal fitu. Við að brenna fitu framleiðir líkaminn súr efnasambönd. Sé of mikil sýra í blóði kemur það í veg fyrir að frumur sem taka þátt í að mynda bein (beinkímfrumur) geti starfað eðlilega og hátt sýrustig örvar auk þess frumur sem eyða beinum (beinætur eða beinátfrumur). Eyðist bein hraðar en það myndast, minnkar beinstyrkurinn. Til að viðhalda styrkleika beina, þarf þessi starfsemi að vera í jafnvægi. 

Samsett kolvetni sjá líkamanum fyrir eldsneyti. Þar sem það tekur líkamann lengri tíma að melta samsett kolvetni en einföld, eru þau stöðugri orkuuppspretta en einföldu kolvetnin sem brenna hratt. Stöðuga orkan er nauðsynleg til þess að þú hafir úthald í styrkjandi æfingar.

Öllum skyndikúrum – sem gera það að verkum að þú léttist og þyngist á víxl – fylgir mjög mikið álag á beinin. Sértu í meðferð sem veldur því að þú þyngist, skaltu fá tilvísun á næringarfræðing sem getur hjálpað þér að fylgjast með og hafa stjórn á þyngdinni.

Kalkrík fæða er afar mikilvæg fyrir beinin. Borðaðu meira af:

  • Fitusnauðum mjólkurafurðum, helst ósykruðum (hreinni jógúrt, léttmjólk, kotasælu),

  • kálmeti (hvítkáli, grænkáli o.fl.) og

  • fiski með beinum eins og t.d. sardínum.

Sé þess nokkur kostur, skaltu reyna að nota lífrænt hráefni og forðast allt sem hefur verið hormónabætt eða úðað með eiturefnum. Það á sérstaklega við um mjólkurvörurnar. *Aðhyllist þú "kínverskt" mataræði felur það m.a. í sér að forðast mjólkurafurðir. Í staðinn má nýta annars konar afurðir, unnar úr (lífrænt ræktuðum) sojabaunum, hrísgrjónum og höfrum. Sé mikilvægt fyrir þig að halda estrógenmagni niðri, geturðu einnig þurft að stilla neyslu soja-afurða í hóf.

Nú á tímum eru flestir á þönum og gefa sér stundum lítinn tíma til að matbúa eða matast. Því er líklegt að maturinn sem þú neytir hafi ekki nægilegt kalkinnihald til að varðveita heilbrigði beinanna. Að öllum líkindum þarftu að taka inn bæði kalk og D-vítamín.

*Málsgrein merkt með stjörnu er innskot þýðanda og ábyrgðarmanns.

ÞB