Kalk, D-vítamín og önnur bætiefni

Til að byggja upp heilbrigð bein og halda þeim sterkum þurfa flestar konur sem komnar eru yfir 35 ára aldur á meira kalki að halda en áður. Meira af D-vítamíni er einnig nauðsynlegt því það hjálpar líkamanum að taka upp kalk og vinna úr því. Erfitt getur reynst að fá nauðsynlegt magn úr fæðu eingöngu og því þarf að taka inn viðbótarmagn af þessum efnum, gerist þess þörf. Þú getur beðið næringarfræðing eða fæðuráðgjafa að gera úttekt á kalkneyslu þinni. Þú getur líka reiknað hana út sjálf með því að fara inn á slóðina Calcium Calculator. Ræddu við lækni þinn hvort sé í lagi fyrir þig að taka inn viðbótarkalk. Þótt það sé óalgengt eru sumar konur frá náttúrunnar hendi með mikið kalk í blóði og þvagi og ættu ekki að taka inn viðbótarkalk fyrr en það hefur verið leiðrétt. Flestar konur komnar yfir tíðahvörf (hvernig sem þau komu til - á eðlilegan hátt, vegna skurðaðgerðar eða lyfjameðferðar) þurfa hins vegar að taka inn kalk og D-vítamín aukalega.

Að taka inn kalk sem bætiefni:

 • Yfirleitt þurfa konur milli 1.000 og 1.500 mg (milligrömm) af kalki á dag (þetta er heildarneyslan – fæða + bætiefni).

 • Rétt er að dreifa kalkneyslunni yfir daginn (taka inn kalk tvisvar til þrisvar á dag) af því að líkaminn getur aðeins unnið úr um það bil 500 millgrömmum kalks í einu.

 • Upptaka líkamans er góð bæði á kalsíum karbónati (basísku kalki) og kalsíum sítrati (súru kalki) sé það tekið inn með mat.

 • Drekktu mikið vatn á milli mála til að auðvelda upptökuna.

 • Kalk getur truflað upptöku fosamax (efnafræðiheiti: alendronate sodium) eða actonel (efnafræðiheiti: risedronate). Til þess að líkaminn geti nýtt sér kalkið til fulls skaltu láta líða að minnsta kosti tvær klukkustundir áður en þú tekur inn kalk, notir þú annað hvort þessara lyfja.

Að taka inn D-vítamín sem bætiefni.

 • Konur þurfa yfirliett á bilinu 400 til 800 IU (alþjóðlegar einingar) af D-vítamíni á dag.

 • Í sum kalkbætiefni er sett D-vítamín og margar tegundir fjölvítamína hafa einnig að geyma D-vítamín svo ef til vill þarftu ekki að taka inn D-vítamintöflur til viðbótar.

 • Dálítið sólskin (dagsbirta) er nauðsynleg til að líkaminn geti unnið ákjósanlega úr kalki og D-vítamíni. Tíu mínútur á dag undir beru lofti er nóg. Forðastu hádegissól að sumarlagi.

 • Að taka daglega inn kalk og D-vítamín hefur reynst auka beinþéttni (steinefnamagn) um 1% - 2% á tveggja ára tímabili.

 • Hjá konum sem komnar eru yfir tíðahvörf og með beinþynningu dregur neysla á kalki og D-vítamíni úr hættu á beinbrotum.

Önnur bætiefni sem þú kannt að þurfa á að halda:

 • Magnesíum hjálpar líkamanum að nýta kalk. Læknir þinn kann að mæla með að þú takir inn 300-350 mg af magnesíum aukalega á dag. Þú færð ágætis birgðir af magnesíum úr fæðu með því að borða kartöflur, hirsi, maís, heilhveiti, brún hrísgrjón, bygg og linsubaunir.

 • Til að byggja upp bein er fosfór einnig nauðsynlegt efni. Þetta steinefni er að finna í næstum öllum fæðutegundum, sérsaklega í unnum matvælum sem að öðru leyti eru ekki sérlega holl. Það er heillaráð að halda sig við heilsusamlega fosfórgjafa svo sem mjólkurvörur, kjúkling, kalkún, lax, lúðu, hnetur og möndlur. Minnihluti kvenna sem hugar ekki nógu vel að mataræðinu fær hugsanlega ekki nægilegan fosfór með fæðu.

Hafðu samráð við lækni áður en þú velur fæðubótaefni. Krabbameinslæknir þinn kann að vilja vita hvaða fæðubótarefni þú tekur inn.

ÞB