Beinstyrkjandi meðferð sem hentar ÞÉR
Sýni beinþéttnimæling að bein eru að þynnast, mun læknir þinn að líkindum mæla með nákvæmu mati á ástandi þínu og fylgja því eftir með góðri meðferð.
Áttaðu þig á stöðunni
Byrjaðu á að afla þér allra upplýsinga sem unnt er að fá um hvernig beinheilsu þinni er varið á þessari stundu. Þú arft að fá svar við eftirfarandi spurningum til þess að geta vegið og metið hvaða þýðingu beinþynning hefur fyrir þig í þeim sporum sem þú ert nú:
-
Er beinstyrkur (beinþéttni) enn innan eðlilegra marka?
-
Ertu að hefja meðferð sem gæti dregið úr beinstyrk?
-
Sýnir fyrsta mæling beinheilsu áberandi beinrýrð (lítinn beinmassa eða beinþynningu)?
-
Hefur beinþynning þegar greinst hjá þér án þess að gripið hafi verið til meðferðar við henni?
-
Hefur beinþynning þegar greinst hjá þér og þú fengið meðferð við henni – er rannsóknin liður í eftirliti?
-
Var beinþéttni þín eðlileg í byrjun en fer nú minnkandi?
Þegar þið læknir þinn hafið farið yfir ástandið má halda áfram og setja upp áætlun um hvernig bregðast skuli við.
Sé beinstyrkur að minnka töluvert – einkum ef beinmissir er meiri en búast hefði mátt við – er ástæða til að láta kanna aðrar hugsanlegar skýringar á vandanum, til dæmis hvort um er að ræða truflun í skjaldkirtilsstarfsemi eða langvarandi steranotkun vegna annars heilsufarsvanda (t.d. gigtar).
Gríptu til þinna ráða
Talaðu við lækni þinn um hvernig bregðast má við hvers kyns heilsufarsvanda sem gæti átt þátt í að beinheilsu þinni hrakar.
-
Sérhver sjúkdómur sem reynt er að ráða bót á með sterum svo sem gigt, asmi, langvarandi lifrarveiki, helluroði (lúpus), svæðisgarnakvef (Crohn-veiki), MS (multiple sclerosis) og gláka, getur valdið beinþynningu.
-
Cushingsheilkenni er ástand sem stafar af of miklu magni barksterans kortísóls og getur leitt til beinþynningar og beinbrota.
-
Ofvirkur skjaldkirtill, sykursýki, anorexía og nýrnabilun geta einnig valdið beinþynningu.
Næsta skref felst í að breyta lifnaðarháttum. Það þýðir að þú hættir að reykja, drekkur áfengi í miklu hófi, gerir styrkjandi æfingar (burðarþolsæfingar), borðar vel samsetta og holla fæðu og tekur inn kalk og fæðubótarefni. Einnig er áríðandi að þú hugir að líkamsstöðu og standir og sitjir bein.
Komi til þess að þú þarft að taka inn lyf eru bífosfónatalyf trúlega fyrstu lyfin sem þú átt kost á að reyna.
Atriði í sambandi við andhormónameðferð
Sýnir þú engin merki beinþynningar en ert um það bil að hefja meðferð með aromatase hormónatálmum – Arimidex, Femara eða Aromasin – áttu þess kost að láta fylgjast vel með þér, breyta lifnaðarháttum og taka inn aukalega kalk og D-vítamín. Læknir þinn kann hugsanlega að stinga upp á að þú takir inn beinstyrkjandi lyf á sama tíma til að viðhalda beinstyrk. Flestir læknar munu mæla með að SERM-lyf séu EKKI gefin samtímis aromatase hormónatálmum.
Rannsókn hefur sýnt að það að taka bífosfónatið Zometa ásamt Arimidex kom í veg fyrir beinþynninguna sem venjulega telst stafa af Arimidex.
Erfitt getur reynst að meta kosti og galla lyfja, hvers kyns sem þau eru. Þegar til þess kemur að ákveða andhormónameðferð er best að velja þá sem virkar best gegn krabbameini – án tillits til þess hver áhrifin verða á beinþéttni. Þú þarft hins vegar að vera við því búin að takast á við hugsanlega fylgikvilla lyfjanna.
Sértu nú þegar komin með beinrýrð eða beinþynningu og læknirinn mælir með aromatase hormónatálmum, þarftu að bregðast við með því að gera allt í senn: Breyta lifnaðarháttum þínum, taka inn fæðubótarefni og fá beinstyrkjandi lyf.
Atriði í sambandi við lyfjameðferð
Læknir þinn kann að vilja að þú takir inn beinstyrkjandi lyf, hafi meðferð með krabbameinslyfjum framkallað ótímabær tíðahvörf og þú ert komin með beinrýrð eða beinþynningu.
Gerð var rannsókn þar sem 53 konum var ýmist gefið bífosfónatalyfið Actonel (efnafræðiheiti: risedronate) eða lyfleysa (sykurpilla). Allar höfðu konurnar hætt að hafa blæðingar af völdum lyfjameðferðar við brjóstakrabbameini. Af þessum hópi kvenna höfðu 36 konur verið á tamoxifeni og héldu áfram að taka það á meðan á meðferðinni stóð. Eftir tvö ár höfðu konur sem tóku Actonel misst 2,5% minna af beinstyrk sínum en konur sem fengu lyfleysu. Konur sem fengu bæði Actonel og tamoxifen sýndu jafnvel enn betri árangur því hjá þeim jókst beinþéttnin lítillega.
Þótt engin merki sé að sjá um rýrnun beina ættu allar konur sem greinast með brjóstakrabbamein taka inn bæði kalk og D-vítamín til þess að vernda beinheilsu sína. Talaðu við lækni áður en þú byrjar að taka inn fæðubótarefni og láttu ekki undir höfuð leggjast að láta mæla kalkmagnið.
Hvernig geturðu vitað hvort beinstyrkjandi meðferð virkar?
Rétt er að fá DXA-mynd (beinþéttnimælingu) árlega eða annað hvort ár. Venjulega þvagprufu sem mælir hlutfallið kalks og kreatíníns er hægt að taka oftar. Niðurstöður eru bornar saman við niðurstöður mælingar fyrra árs til að kanna hvort beinin eru að rýrna eða styrkjast.
Til eru svokallaðar NTx þvagprufur sem tekur skemmri tíma að gera og sýna þær breytingar á magni gamals beins og myndun nýs beinvefjar. Sé svona próf gert á hálfs árs fresti getur það gefið til kynna hvort beinstyrkjandi lyf virka eður ei.
Að skipta um lyf
Áhrif hvers lyf geta verið afar mismunandi frá einni konu til annarrar. Hjá sumum koma þau í veg fyrir beinmissi, hjá öðrum geta þau stuðlað að nýrri beinmyndun. Engin kona er nákvæmlega eins og ÞÚ. Ræddu við lækni þinn um leiðir til að sníða allt sem gert verður að þínum þörfum og með tilliti til ástands þíns og aðstæðna.
Þú gætir byrjað á að nota eitthvert ákveðið lyf – eða einhverja samsetningu af lyfjum – og breytt þeim síðar meir, annað hvort til að reyna að fá betri niðurstöður eða vegna þess að forsendur og þarfir beinanna hafa breyst. Þú gætir einnig þurft að skipta um lyf af völdum aukaverkana.
Mikilvægt er að þú hittir lækna þína reglulega og sömuleiðis þarftu að láta mæla beinþéttni reglulega – og jafnvel fá fleiri mælingar – til að ganga úr skugga um að meðferðin sem þú færð sé sú besta sem hægt er að veita ÞÉR.
ÞB