Orsakir beinþynningar

Auk öldrunar hafa ýmsir aðrir þættir áhrif á styrk og þéttleika beina:


 • Hormónabreytingar auka beineyðingu, einkum þegar estrógenmagn í blóði minnkar mikið. Þegar konur eru komnar úr barneign hefur estrógenmagnið yfirleitt minnkað í einn þriðja af því sem það var á meðan þær voru enn í barneign. Það magn estrógens getur þó dugað til að beinin varðveiti styrk sinn um hríð. Þar sem meira bein tapast en endurnýjast eftir tíðahvörf, glata þó flestar konur að minnsta kosti einhverjum beinstyrk við að fara úr barneign.

 • Lendir þú í ótímabærum tíðahvörfum vegna meðferðar með krabbameinslyfjum (af náttúrlegum orsökum eða vegna þess að eggjastokkar voru fjarlægðir), getur estrógenmagn minnkað mjög mikið og hratt. Sértu komin yfir tíðahvörf, hefur tekið tíðahvarfahormóna en orðið að hætta því vegna þess að þú greindist með brjóstakrabbamein, getur það einnig valdið mjög snöggu estrógenfalli í líkamanum.

 • Ættgengi. Séu dæmi í fjölskyldunni um beinþynningu, eykur það líkurnar á að þú verðir fyrir því sama.

 • Að vera mjög grannur virðist auka líkur á beinþynningu. Líkamsfita eykur magn sumra tegunda estrógens þannig að holdugar konur hafa tilhneigingu til að hafa meira af estrógeni en þær sem grennri eru. Því mega grannar konur búast við meiri beineyðingu en þær sem eru í betri holdum, ýmist sem afleiðingu af öldrun eða minna estrógenmagni.

 • Sumir megrunarkúrar geta valdið beinþynningu. Sveiflukennd líkamsþyngd sem orsakast af því að missa mörg kíló, fá þau aftur á sig og missa þau á nýjan leik – jafnvel æ ofan í æ – getur framkallað næringarskort og breytingar á hormónaframleiðslu. Svona sveiflur geta valdið töluverðri beingisnun.

 • Sumir sjúkdómar geta valdið ójafnvægi í hormónabúskap og framkallað beingisnun. Þannig sjúkdómar eru til dæmis ofvirkur skjaldkirtill, sykursýki, lystarstol og þrálát nýrnaveiki.

 • Sum lyf valda beinþynningu. Meðal þeirra eru barksteralyf (corticosteroidar), skjaldkirtilslyf, krampalyf og sum þvagræsilyf. Það á einnig við um barbítúratlyf, séu þau notuð í miklum mæli. Sumir hormónar sem gefnir eru við tíðahvarfaeinkennum eru einnig taldir valda beinþynningu. Spyrðu lækninn þinn um þessi atriði í sambandi við lyfin þín.

 • Reykingar að staðaldri hafa í för með sér umtalsverða beingisnun (reykingar flýta tíðahvörfum, draga úr möguleikum líkamans á að vinna næringu úr fæðu og valda almennt meira heilsu- og hreyfingarleysi).

 • Mikil áfengisneysla hefur einnig í för með sér beingisnun (líklega ættu konur ekki að fá sér fleiri en tvo áfenga drykki á dag og að “detta í það” getur verið afar skaðlegt). Sameinuð áhrif reykinga og áfengisdrykkju eru mjög skaðleg og mikið álag á bein og beinvef.

 • Að fá ekki nægilegt kalk, D-vítamín eða magnesíum getur valdið beinþynningu. Konur sem komnar eru yfir sjötugt geta átt í meiri erfiðleikum en þær sem yngri eru með að vinna þessi næringarefni úr fæðu og nýta þau.

 • Langvinn rúmlega eða aðgerðaleysi getur stuðlað að beingisnun. Værir þú geimfari, ættirðu við sama vandamál að stríða. Þegar þyngdarafli er ekki fyrir að fara reynir ekkert á beinin og þau glata auðveldlega styrk sínum.

 • Kynþáttur hefur áhrif á líkur á beinþynningu. Hvítar konur og asískar verða fyrir meiri beinþynningu og hraðar en konur af indíánaættum, afrískum, indverskum eða suður-amerískum uppruna.

ÞB