Hvað gerist í beinum með aldrinum?

Af því að öldrun er stigvaxandi og samfellt ferli hefur aldur meiri áhrif á beingisnun en hvort estrógen er til staðar eða ekki. Þó er ljóst að hvort tveggja skiptir máli, einkum hjá konum. Beinþynning er algengari hjá konum en körlum vegna þess að þeir fara ekki í gegnum sams konar tíðahvörf og þær.
bone_section

Efst er mynd af beini með sneið er sýnir beinþynningu.

Neðri myndin til vinstri sýnir heilbrigt bein, myndin til hægri sýnir bein sem tekið er að gisna.

Beinþéttnin er mest þegar konur eru á þrítugs- og fertugsaldri og er nokkuð stöðug við 35 ára aldur. Þegar fertugsaldri er náð og konur komast á fimmtugsaldurinn, minnkar beinþéttnin hægt og sígandi og þar með styrkur beinanna. Þessi þróun er einkennalaus sem þýðir að konan getur ekki vitað hvað er að gerast nema með því að fara í sérstaka rannsókn.

Fyrstu fimm til tíu árin eftir tíðahvörf tapast bein mjög hratt. Á þessu skeiði glata konur allt að 2%-3% beinmassans á hverju ári. Eftir það hægir aðeins á beingisnun og hún verður um það bil 1% á ári. Það getur þó verið mismunandi frá einni konu til annarrar, bæði hve hratt og hve lengi beingisnun stendur yfir og er það háð næringu, hreyfingu og heilsufari.

Þetta þýðir að kona sem nær níræðis- eða tíræðisaldri og hefur ýmsa áhættuþætti beinþynningar, kann að tapa meira en 30% til 50% af beinmassanum frá því að hún var ung. Breyti hún ekki lifnaðarháttum sínum í tæka tíð eða fær lyf til að vinna á móti þessi ferli, munu bein hennar veiklast mjög mikið.

Að eldast virðist hafa mun meiri áhrif á beinheilsu kvenna en karla af ýmsum ástæðum:

  • Bein karla halda áfram að vaxa hægt og bítandi með aldrinum. Bein kvenna hætta að vaxa eftir kynþroskaskeið.

  • Testósterón, aðal karlhormónið, heldur beinum sterkum. Estrógen skipti þó máli fyrir beinheilsu, karla ekkert síður en kvenna.

  • Skyndilegt estrógentap eins og verður hjá konum við tíðahvörf verður ekki hjá körlum (rosknir karlar hafa í líkamanum meira estrógen en rosknar konur).

  • Konur lifa yfirleitt lengur en karlar. Þess vegna er öldrunarferlið lengra hjá konum og bein þeirra þurfa að endast lengur en karla.

Miðaldra og rosknar konur greinast oftar með brjóstakrabbamein en ungar konur og því eru meiri líkur á að bein séu tekin að gisna um það leyti sem þær greinast með krabbamein.

Eftir því sem aldurinn færist yfir á líkaminn erfiðara með að taka upp kalk og nýta það. Kalkmagn í blóði þarf að vera mjög nákvæmt og því fer líkaminn að “stela” kalki úr beinum til að bæta sér kalkskortinn og yfirvinna örðugleikana við að vinna kalk úr fæðu eða fæðubótarefnum. Að fá nægilegt D-vítamín getur auðveldað líkamanum mjög mikið að vinna kalk úr fæðu.

ÞB