Svona vaxa bein

Þegar við vöxum úr grasi vaxa beinin með. Eigi bein að þroskast eðlilega, þurfa þau eggjahvítuefni (prótín), kalk og önnur steinefni. Auk þess þurfa beinin hormóna sem fjölga sér á kynþroskaskeiði, þar á meðal estrógen og testósterón. Til að verða heilbrigð og sterk þurfa beinin einnig að fá D-vítamín sem gerir þeim mögulegt að vinna kalk úr fæðunni. Reglubundin hreyfing og áreynsla er einnig nauðsynleg til þess að þau nái styrk og þroska.

Hreyfing setur álag á beinin við það að vöðvar, sinar og liðbönd færa þau fram og til baka. Þyngdaraflið fær beinin til að halda uppi líkamanum og bera þungann. Álagið verður til þess að þau vaxa og styrkjast nægilega til að standast álagið.

Beinin eru svipuð hjá piltum og stúlkum fram að kynþroskaaldri. Flest heilbrigð börn sem hreyfa sig nóg og borða holla fæðu með miklu af prótíni og kalki fá beinagrind sem hæfir þeim. Endanlegur beinmassi beinagrindar ræðst aðalega af erfðaþáttum, arfberunum frá foreldrunum. Hávaxið og þrekið fólk fær stærri beinagrind en lágvaxið, grannt fólk.

Á kynþroskaskeiði þroskast beinagrindin þar til endanlegum beinmassa er náð snemma á fullorðinsaldri. Í karlmönnum heldur beinagrindin áfram að stækka en hjá konum má segja að vöxturinn stöðvist. Þegar konur er orðnar hálffertugar hafa þær því svolítið minni beinmassa og smærri bein en karlar. Beinasmæðin er ein ástæða þess að konur eiga fremur á hættu að brjóta í sér bein en karlmenn.

Þegar beinin taka að þroskast á fullorðinsárum hefst fyrirbyggjandi viðhaldsmeðferð líkamans. Gamall beinvefur er fjarlægður og í staðinn kemur sama magn af nýjum beinvef. Þessi endurnýjun á sér sífellt stað í líkamanum. Hjá ungu fólki er hún í fullkomnu jafnvægi þannig að stærð og gerð beinagrindar helst óbreytt.

Líkja má þessu ferli við þá vinnu sem felst í að halda við húsbyggingu. Til að verja hús þarf sífellt að skrapa og fjarlægja skemmdir af völdum veðurs og vinda. Eitthvað þarf líka að koma í staðinn eigi húsið ekki að hrynja einhvern daginn. Beinþynningu má líkja við múrsteinshús þar sem farist hefur fyrir að fjarlægja ónýtt efni og setja nýtt í staðinn. Húsið er því að hruni komið.

Fyrir tíðahvörf – einkum áður en 35 ára aldri er náð – er endurnýjun beina í góðu jafnvægi. Eftir 35 ára aldur má búast við að meira bein eyðist en það sem kemur í staðinn. Það hefur áhrif á beinmassann, beinþéttnina og beinabygginguna. Á yngri árum stuðlar hormónið estrógen að því að jafn mikið myndast af beini og það sem eyðist. Þannig verður styrkur beinanna stöðugt sá sami. Þegar konur fara í gegnum breytingaskeið minnkar framleiðsla estrógens sem leiðir til þess að beinframleiðsla minnkar einnig. Það getur valdið beinþynningu.

Ójafnvægi í beinbúskapnum - þar sem minna er framleitt en það sem eyðist -verður viðvarandi það sem eftir er ævinnar.

ÞB