Þættir í heilbrigði beina

Að viðhalda heilbrigði beina er verðugt og mikilvægt langtímaverkefni fyrir hverja konu – einkum hafi hún fengið brjóstakrabbamein. Ástæðan er sú að ýmsar aðferðir við að meðhöndla brjóstakrabbameini geta haft langvarandi aukaverkanir sem kunna að veikja beinin.

Það kann að koma þér á óvart en er engu að síður staðreynd að bein eru ekki eitthvað hart og óumbreytanlegt. Bein eru þvert á móti afar lifandi og sístarfandi vefur. Í ungu hraustu fólki endurnýjast beinvefur stöðugt – sem þýðir að nýtt bein myndast alfarið í staðinn fyrir gamalt bein. Það er ekki fyrr en við 35 ára aldur sem þetta byrjar að breytast og meira bein að tapast en myndast.

Þeir þættir sem hafa áhrif á hvort bein styrkjast eða veikjast eru margvíslegir:

  • Aldur,

  • kyn (karlar og konur eru ólík),

  • hæð og þyngd,

  • hreyfing,

  • efðir,

  • mataræði,

  • lifnaðarhættir (svo sem reykingar eða áfengsnotkun),

  • magn estrógens í líkamanum,

  • sumar tegundir meðferða við brjóstakrabbameini.

Áhrif meðferðar við brjóstakrabbameini velta á þremur þáttum:

  • Hve sterk bein þú hefur fyrir,

  • hvers konar meðferð þú færð,

  • hve langt er í tíðahvörf.

Hvers vegna skiptir beinþéttni máli?

Flestir mynda beinagrind sem þolir álagið sem á hana er lagt á einni mannsævi. Þessum þroska er lokið snemma á fullorðinsárum og þaðan í frá minnkar beinmassinn með aldrinum. Venjulega er það ferli afar hæggengt. Það tekur langan tíma, mörg ár eftir því sem aldurinn færist yfir, fyrir bein að missa styrk svo einhverju nemi. Þegar styrkurinn er horfinn hættir beinum frekar til að brotna við lítð eða ekkert álag. Þegar þar er komið sögu ertu komin með beingisnun eða beinþynningu.

Áríðandi er fyrir þig að vita hvort þú ert með beingisnun eða beinþynningu. Sé svo, er meiri hætta á að þú brjótir þig. Vegna þess hve einkennin eru fá og jafnvel engin hefurðu ef til vill enga hugmynd um að eitthvað er að fyrr en þú beinbrotnar skyndilega. Hafir þú á hinn bóginn greinst með beingisnun eða -þynningu er afar líklegt að þú hafir áhuga á að vinna gegn henni.

Þetta er ekki ósvipað og með kólestról sem skiptir máli af því að það eykur hættu á hjartaáföllum. Rétt eins og á leitarstöð Hjartaverndar er haft uppi á fólki með hátt kólestrólmagn til þess að koma í veg fyrir hjartasjúkdóma er einnig leitað að fólk með beinþynningu til að koma í veg fyrir beinbrot og kanna ættgengi (Íslensk erfðagreining). Beinbrot hjá konum með beinþynningu geta leitt til örorku og alvarlegra, jafnvel lífshættulegra, fylgikvilla. Algengustu brotin er að finna í hrygg, mjöðm og úlnlið, en í rauninni getur nánast hvert einasta bein brotnað vegna þess að beinþynning hefur áhrif á nánast öll bein.

Flestar konur sem greinast með brjóstakrabbamein munu lifa langa ævi, en vegna þess að krabbameinsmeðferð getur haft áhrif á heilbrigði beina er mikilvægt að þú vitir sem allra mest um beinþynningu og spyrjir þá sem hafa eftirlit með heilsufari þínu um líkurnar og hvað þú getir gert til að draga úr þeim.

  • Beingisnun á sér stað þegar beinið glatar styrk og beinmassinn fer niður fyrir eðlileg mörk. Sé ekkert að gert, geta beinin veiklast enn frekar með tímanum og þá þróast beingisnun yfir í beinþynningu.

  • Beinþynning er ástand þar sem beinmassi og þéttleiki eru undir eðlilegum mörkum svo mjög að mikil hætta er á að bein brotni. Algengustu brotin koma fyrir í baki (þegar hryggjarliðir falla saman og valda bakverkjum, hæðarmissi og álútu baki og öxlum), í úlnliðum og mjöðmum; hins vegar er ljóst að nánast hvert einasta bein getur hugsanlega brotnað vegna þess að beinþynning hefur áhrif á flesta hluta beinagrindarinnar.

Krabbameinslyfjameðferð getur hrundið af stað snemmbúnum tíðahvörfum sem gerir það að verkum að estrógenmagn líkamans minnkar til muna. Sem afleiðing af því kunna beinin að missa eitthvað af styrkleika sínum.

Andhormónameðferð getur líka haft á hrif á beinheilsu þína. Sumar andhormónameðferðir geta gert beinin sterkari, aðrar geta gert þau veikari og enn aðrar hafa engin áhrif.

Í þessum hluta er eftirfarandi mikilvægum spurningum svarað og fleirum:

Beingisnun er möguleg aukaverkun nokkurra krabbameinslyfja, en venjulega er hægt að draga úr þeirri aukaverkun eða halda henni í skefjum. Með því að kynna þér málið núna og gera strax réttar ráðstafanir getur þú stuðlað að því að halda þeim beinastyrk sem þú hefur og leggja grunninn að heilbrigðari og sterkari beinum í framtíðinni.

Sérfræðingarnir að baki síðunum um Heilbrigði beina eru:

  • Dawn Herhman, M.D., M.S., aðstoðarprófessor í læknisfræði við Columbia University Department of Medicine í New York

  • Robert Lindsay, M.D., Ph.D., prófessor í klínískri læknisfræði við Columbia University College of Physicians and Surgeons; og yfirlæknir í lyflækningum við Helen Hayes Hospital, West Haverstraw, New York

Þessir læknar eiga sæti í Ráðgefandi læknaráði þar sem eru saman komnir rúmlega 60 sérfræðingar á sviðum sem tengjast brjóstakrabbameini.

  • Íslensku þýðinguna las Sigurður Böðvarsson, læknir með sérgrein í lyf- og krabbameinslækningum.

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB