Að skilja áhættuna
Umsögn einstaklinga
"Þetta er risastórst skref í því að ljúka krabbameinskaflanum í lífi mínu. Ég er tilbúin að treysta því að ég geti sætt mig við árangurinn.”
—Maureen
"Ég gat ekki beðið eftir því að láta búa til á mig nýtt brjóst. Ég fór til Grikklands í frí og farangurinn minn týndist á leiðinni og með honum sérsniðni sundbolurinn minn. Ég fann þá svo vel að ég yrði að fá aftur það frelsi sem fylgir því að láta búa til á sig nýtt brjóst. Mér þykir næstum jafn vænt um nýja brjóstið mitt og það gamla."
—Heidi
Öllum aðgerðum fylgir viss áhætta. Þrátt fyrir áhættuþættina sem lýst er hér að neðan er fjöldinn allur af konum sem lætur verða af því að fara í aðgerð og láta búa til á sig nýtt eða ný brjóst eins fljótt og þess er nokkur kostur. Það sem mestu máli skiptir er að þú skiljir áhættuna sem þú tekur og getir sætt þig við hana.
Áhættuþættir sem fylgja því að endurskapa brjóst
-
Endursköpun brjósta hefur í för með sér rúmlega 5% hættu á einhverju einu eða fleira af eftirfarandi: sýkingu, blæðingu, verkjum, kviðsliti, að ígræddur púði rifni eða ígræddur vefur skemmist (þá fær ígræddi vefurinn ekki nægilegt blóð til sín og þrífst ekki).
-
Skemmist ígræddur vefur vegna þess að það berst ekki nægilegt blóð til hans —sem er sjaldgæft —þarf að skera burtu dauða vefinn og loka brjóst(a)svæðinu. Það er gert á skurðstofu með tilheyrandi svæfingu.
-
TRAM flipa aðgerðin tekur lengri tíma og henni fylgir meiri áhætta en þegar bakfellsvöðvinn er notaður.
-
Skurðurinn á kviðnum sem fylgir TRAM-flipa aðgerðinni og það að tekin er sneið af kviðvöðva veikir kviðvegginn. Önnur vandamál kunna einnig að stinga upp kollinum: kviðslitseinkenni á maganum (þá stendur lítill hluti af þörmunum út í loftið þar sem kviðveggurinn hefur þynnst), þrálátur verkur eða óþægindi. Hætta á kviðsliti eða sýkingu er innan við 5%.
-
Í ígræddum vef geta myndast kekkir eða hnúðar sem stafa af s.k. "fitudauða". Hnúðarnir kunna að hverfa, en engin trygging er fyrir því. Hnúðar í brjóstum geta valdið miklum kvíða. Stundum reynist nauðsynlegt að fjarlægja þá til að ganga úr skugga um að þeir séu ekki krabbameinsæxli.
-
Allar skurðaðgerðir skilja eftir sig ör. Með tímanum dofna þau hjá flestum konum en þau hverfa aldrei alveg. Ör eftir brjóstnám eða endursköpun brjósts eða brjósta eru yfirleitt innanklæða, jafnvel þegar klæðst er baðfötum eða flegnum kjól eða toppi.
ÞB