Búin til ný geirvarta

Ummæli einstaklings

„Ég hugleiddi að láta flytja vef af lærunum innanverðum, en ég er loðin á lærunum og vildi ekki fá loðnar geirvörtur. Mér fannst fínt að láta tattóvera hana á mig, sérstaklega af því að hún var hækkuð upp með húðinni á brjóstinu.”
—Betty

Getur þú orðið ánægð með nýtt brjóst sem ekki er með neinni geirvörtu? Þú hefur tíma til að komast að niðurstöðu vegna þess að það er ekkert gert í málinu fyrr en þú hefur jafnað þig á aðgerðinni sem þú ferð í til að láta byggja upp brjóstið.

Um hvað áttu að velja? Þú getur tekið þann kost að láta ekki gera neitt meira. Þú getur líka valið á milli þess að fá þér gervigeirvörtu eða láta endurskapa geirvörtuna. Ekkert af þessu er fullkomið og ekkert af þessu gefur þér aftur þá tilfinningu sem þú kannt að hafa haft áður en brjóstið var tekið.

  • Hægt er að fá keyptar lausar geirvörtur úr polyúreþani sem standa örlítið út. Svona gervivörtur eru ótrúlega eðlilegar að áferð og lit. Þegar þig langar til að vera með geirvörtuna bleytir þú bakhliðina og festir hana á brjóstið - ekki ósvipað og maður festir litla sogskál. *Samhjálp kvenna getur veitt nánari upplýsingar.

  • Þú getur látið húðflúra (tattóvera) nýja geirvörtu á brjóstið. (Það er ekkert til að kvíða fyrir vegna þess að það er mjög lítil tilfinning í endurgerðum brjóstum.) *Tæki til að útbúa húðflúr sem að lit og lögun líkist geirvörtu og vörtubaug er væntanlegt á LSH, þökk sé samtökunum Bætum brjóst og Samhjálp kvenna sem söfnuðu og gáfu LSH eina milljón króna til kaupa á því.

  • Þú getur látið búa til nýja geirvörtu með vef annars staðar úr líkamanum.

Að endurskapa geirvörtuna

Þegar búin er til ný geirvarta og vörtubaugur umhverfis er hægt að nota vef sem tekinn er af innri skapabörmum – húðfellingunum við sköpin, rétt utan við leggöngin. Þú þarft ekki að leggjast inn til að fara í svona aðgerð því hægt er að gera hana með staðdeyfingu og hún tekur innan við tvær klukkustundir. Yfirleitt geta konur ekið bíl daginn eftir aðgerðina en finna samt fyrir óþægindum í klofinu í um það bil vikutíma.

Einnig er hægt að taka vef af lærunum innanverðum. Í rauninni geta frumlegir skurðlæknar fundið húð á mörgum stöðum, einkum ef farið er út í að endurskapa brjóstvörtuna um leið og brjóstið sjálft. Húðin dökknar eðlilega með tímanum, en einnig getur skurðlæknarinn litað hana með húðflúri í sama lit og geirvartan á hinu brjóstinu hefur. Svona aðgerð tekur ekki nema tæpan hálftíma á stofu hjá lýtalækni eða skurðlækni.


ÁBENDING: Í endursköpuðum geirvörtum er mjög lítil tilfinning eða næmi. Því getur það verið góð hugmynd að nota hluta af náttúrulegri geirvörtunni á hinu brjóstinu (sértu enn með það) til að búa til nýja. Svo getur þó farið að báðar geirvörturnar verði þá dofnar og tilfinningalausar. Fyrir sumar konur hefði það verulega truflandi áhrif á kynlíf þeirra og kynlífsnautn.

Hvenær er hægt að endurskapa geirvörtuna?

Yfirleitt er aðgerðin ekki gerð fyrr en að minnsta kosti tveir mánuðir eru liðnir frá því að búið var til nýtt brjóst. Að þeim tíma liðnum má reikna með að bólgan sé horfin og brjóstið hafi sigið “eðlilega”. Þá er hægt að koma geirvörtunni fyrir á réttum stað um leið og hún er búin til.

* Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB