Eins brjóst báðum megin

Ummæli ánægðrar konu:

"Mér fannst ég vera endurborin," segir Lily. "Það þurfti að taka af mér annað brjóstið svo ég ákvað að fara í TRAM-flipa aðgerð. Læknirinn lagði til að hitt brjóstið yrði minnkað. Mér hafði áður dottið í hug að láta minnka á mér brjóstin og fara úr DD-skál, en hafði aldrei kjark til að láta verða af því. Við aðgerðina losnaði ég við vömbina og fékk tvö ungleg brjóst. Ég get farið í hvaða sundfatnað sem er og litið vel út! Brjóstin á mér voru hvort eð var aldrei alveg eins – eru einhverjar konur með þannig brjóst? Ég fór bara í brjóstahaldara og þá sást enginn munur.”

Í hverri aðgerð eða tilraun til að endurskapa brjóst er markmiðið að bæði brjóstin verði eins. Það er einkum mikilvægt þegar annað brjóstið er upprunalegt, náttúrulegt brjóst en hitt brjóstið búið til eða endurskapað. Helst viltu að brjóstin séu jafnþung og sem líkust hvort öðru í útliti. Ýmislegt getur samt orðið til þess að árangurinn verður ekki sá sem þú óskaðir þér:

  • Stærð: Yfirleitt er nýja brjóstið svolítið stærra en náttúrlega brjóstið. Þegar skurðir gróa og líkaminn jafnar sig minnkar bólga og brjóstin verða líkari hvort öðru. Gerist það ekki, getur skurðlæknir fjarlægt fitu (með fitusogi) og minnkað þannig endurskapaða brjóstið.

  • Þyngdaraukning: Náttúrlega brjóstið þyngist ef þú bætir á þig kílóum en endurskapaða brjóstið þyngist aðeins óverulega. Bætir þú á þig mörgum kílóum meðan á meðferð stendur eða eftir að henni lýkur, getur það orðið vandamál.

  • Slaki: Erfitt er að líkja eftir eðlilega slapandi brjósti. Mun auðveldara er fyrir lýtalækni að minnka eða lyfta eðlilega slapandi brjósti til að gera það líkara hinu sem var byggt upp aftur. Með tímanum mun náttúrlega brjóstið taka að slapa á ný. Nýja brjóstið heldur hins vegar lögun sinni. Það kemur ekki að sök þegar þú ert í brjóstahaldara en gæti truflað þig þegar þú ert allsnakin.

Læknir þinn gæti lagt til að gerð verði aðgerð á náttúrlega brjóstinu til að það líkist betur lögun, staðsetningu og útliti nýja brjóstins. Það má annað hvort gera meðan á svæfingu stendur og verið er að búa til nýja brjóstið eða einhvern tíma síðar. Þú þarft bara að kynna þér hvað slík aðgerð eftir á kostar og hver greiðir fyrir hana.

ÞB