Laus brjóst (gervibrjóst)
Ummæli konu:
„Ég var næstum flatbrjósta, en ég segi það satt, það er ótrúlegt hvað pínulítið brjóst getur virst stórt við hliðina á því sem ekkert er. Ég varð umsvifalaust að troða einhverju í brjóstahaldar-ann til þess að finnast ég eðlileg. Loksins fann ég not fyrir alla asnalegu axlapúðana sem ég fjarlægi ævinlega þegar ég kaupi mér flík. Ég setti þá í og tók þá úr, rétt eins og linsurnar. Svo byrjaði ég að vinna aftur og enginn tók eftir neinu. Það fannst mér frábært.”
Það besta við lausu brjóstin er hve fljótt og auðveldlega þau fylla upp í tómarúmið – í bókstaflegri merkingu. Eftir að hafa gengið í gegnum þá eldraun sem meðferð við brjóstakrabbameini er og allar þær mörgu erfiðu ákvarðanir sem henni fylgja er léttir að því að geta bara troðið einhverju inn í brjóstahaldara og litið út eins og áður. Sumar konur kjósa þessa fyrirhafnar- og sársaukalausu lausn á málinu. Sumum finnst þær ekki þurfa tvö brjóst til að vera heilar.
Nú á tímum eiga konur um fleiri kosti að velja en mæður þeirra eða ömmur. Árið 1970 var Ruth Handler, konan sem átti hugmyndina að Barbídúkkunni, að leita að gervibrjósti. Læknir hennar sagði henni að troða sokkum í brjóstahaldarann. Það fannst frú Handler ekki nógu góð lausn. Hún fann upp fyrsta gervibrjóstið sem gert var úr sílikoni og leit bæði eðlilega út og var eðlilegt viðkomu.
*Þróunin hefur haldið áfram og hérlendis má fá gervibrjóst af ýmsum gerðum og öllum stærðum. Rétt er að panta tíma hjá þeim aðilum sem selja gervibrjóst og þú getur treyst því að fá bestu hugsanlega aðstoð og þjónustu við val á gervibrjóstum og brjóstahöldum:
-
Eirberg, Stórhöfða 25, 110 Reykjavík. Sími 569 3100
-
Guðrún Kristjánsdóttir, Jöklafold 26, 112 Reykjavík. Símar 699 2355 eftir kl. 14. Heimasími: 587 7631.
-
Stoð hjálpartæki, Trönuhrauni 8-10, Hafnarfirði. Sími 565 2885.
Tryggingastofnun ríkisins greiðir niður kaup á gervibrjóstum, brjóstahöldum, toppum og sundfötum. Í fyrsta skipti eftir brjóstnám. Endurnýja má brjóst og annað árlega
Sérstök föt fyrir gervibrjóst
*Sundföt, nærföt, toppa o.fl. sem hönnuð eru handa konum sem hafa farið í brjóstnám er hægt að fá. Svona fatnaður er með vasa sem gervibrjóstinu er stungið í. Einnig er hægt að sauma eða láta sauma vasa innan á venjulega brjóstahaldara og sundföt.
*Málsgreinar merktar stjörnu er innskot þýðanda.
ÞB