Ígræddir brjóstapúðar
Í stuttu máli
Málmur og geislameðferð fara ekki saman! Hafi verið settur í þig vefþenjari og einhverjar líkur eru á að þú eigir eftir að fara í geislameðferð, gakktu þá úr skugga um að skurðlæknirinn hafi sett í þig vefþenjara með gátt úr plasti, ekki málmi. Gátt úr málmi truflar geislunina umhverfis málminn og framkallar óþarfa skemmdir á húðinni. Hafi verið settur í þig vefþenjari með málmgátt, ræddu þá við skurðlækninn eftirfarandi möguleika:
-
Að koma fyrir púða í stað þenjarans eins fljótt og auðið er og áður en geislameðferð hefst.
-
Að teygja hraðar á húðinni svo hægt sé að koma púðanum fyrir og fjarlægja þenjarann áður en geislameðferð hefst.
-
Að koma fyrir þenjara til frambúðar (með plastgátt) sem hægt er að nota sem fyllingu eftir að geislameðferð lýkur.
Af þeim möguleikum sem eru fyrir hendi á að endurskapa brjóst fylgja minnst inngrip ígræddum brjóstapúðum. Grönnum konum með lítil brjóst farnast yfirleitt best með púða vegna þess að þær eru yfirleitt ekki með nógu mikinn magavef (fitu og vöðva) til að móta úr honum gott brjóstaefni. Brjóstapúðar eru aðeins til í þremur stærðum (litlir, miðlungs og stórir). Sá stóri er í stærð 38-40. Í draumaheimi kvikmynda og tísku þykja brjóst í stærð 38-40 “stór”, en í rauninni eru þau smælki.
Að búa til rými með vefþenjara
Hjá flestum konum þarf að taka húðina sem verður eftir við brjóstnám og teygja hana eða víkka til að búa til rými fyrir púða. Til þess að teygja á húðinni kemur skurðlæknir fyrir hlut undir bringuvöðvanum sem minnir á lítinn bolta og kallast vefþenjari. Á þenjaranum er gátt eða op (ýmist úr málmi eða plasti). Gáttin gerir skurðlækninum kleift að bæta jafnt og þétt við vökva (á um það bil hálfu ári) án þess að þurfi að koma til frekari skurðaðgerðar.
Smám saman teygist á húðinni og mjúka vefnum þar til æskilegri stærð er náð. Reyndar er vefurinn teygður örlítið umfram þá stærð sem óskað er eftir til að brjóstið slapi eðlilega. Sé teygt of mikið á vefnum getur það valdið óþæginum og í stöku tilfellum flatt út brjóstkassann. Spurðu lækni þinn hvernig hann eða hún ætlar að tryggja að það gerist ekki.
Hliðarmynd af brjóstsvæði með fylltum vefþenjara á sínum stað
|
Lokaskrefin
Þegar teygt hefur verið á húð og mjúkum vef og önnur meðferð er af staðin (með krabbameinslyfjum, geislum eða hvoru tveggja), er venjulega komið fyrir púða til frambúðar í staðinn fyrir vefþenjarann. Yfirleitt er saltvatn eða silikonhlaup í fyllingunni.
Stundum koma skurðlæknar vefþenjara fyrir til frambúðar. Svona hlutur þjónar þá bæði því hlutverki að vera þenjari og fylling í brjóstið. Þegar teygt hefur verið á húð og mjúkum vef og “vefþenjarinn” hefur verið fylltur með réttu magni af saltvatni er gáttin fjarlægð, skurðinum lokað og hókus, pókus – þú ert komin með nýtt brjóst án þess að fara í viðbótaraðgerð.
Örvefur
Þegar púðanum hefur verið komið fyrir myndast örvefur umhverfis og til verður það sem kallast vefjarhylki. Yfirleitt er svona vefjarhylki allt frá því að vera gisið yfir í þétt, þó þannig að ekki finnst fyrir því. Engu að síður gerist það öðru hverju (í einu af hverjum tíu tilfellum) að vefjarhylkið verður mjög hart. Þá getur það framkallað verki og aflagað brjóstið. Gerist það, getur skurðlæknir molað örvefinn og reynist það nauðsynlegt, komið fyrir annarri fyllingu.
Fáir þú geislameðferð á brjóstasvæðið eykur það líkur á hörðum örvef umhverfis fyllinguna um 40-50%.
Nudd og hreyfing getur dregið úr hættu á að hart örvefjarhylki myndist(hvort sem geislun á þar hlut að máli eða ekki). Þú getur beðið skurðlækninn að sýna þér hvernig þú getur nuddað nýja brjóstið og svæðið umhverfis það, þéttingsfast en varlega.
Tilfærsla, leki
Örlítil hætta er á að púðinn geti færst upp á við í brjóstinu þannig að þú þurfir að nudda hann niður á við.
Stöku sinnum leka einnig fyllingar. Líkur á að brjóstapúði taki að leka aukast með tímanum. Flestir púðar sem hafa verið á sínum stað í 10 til 15 ár leka lítillega, en venjulega er það svo lítið að það skiptir engu máli.
Hugsanlega verður þú vör við að púðinn lekur vegna þess að brjóstið fer minnkandi. Ekki er hægt að merkja minni háttar saltvatnsleka úr púða. Saltvatnsleki er algjörlega skaðlaus.
Minnsti leki úr sílikonfyllingu sést hins vegar við ómskoðun og stundum á venjulegri röntgenmynd. Þannig leki er ekki beinlínis hættulegur en hann getur valdið aukakvillum sem best er að komast hjá. Gruni þig að sílikonfyllingin leki, skaltu láta skoða þig og skipta henni út ef þess gerist þörf.
ÞB