DIEP-flipi

DIEP er skammstöfun úr upphafsstöfum orðanna Deep Inferior Epigastric Perforator sem er enska heitið á aðalæðinni sem liggur um vefinn sem notaður er til að búa til nýtt brjóst með þessari aðferð. Á íslensku kallast hún uppmagálsæð.

Þegar brjóst er byggt upp með DIEP-flipa eru einungis húð, fita og blóðæðar teknar úr neðri hluta kviðar (af svæði milli mittis og mjaðma). Vöðvavefur er ekki notaður. Í því felst aðalmunurinn á DIEP- og TRAM-flipa aðgerðum. Við TRAM-flipa aðgerð er vöðvavefur fjarlægður (ásamt fitu, húð og æðum) en ekki við DIEP-flipa aðgerð.  

Þar sem kviðvöðvi er ekki notaður, jafna flestar konur sig fyrr á DIEP-flipa aðgerð en á TRAM-flipa aðgerð og minni hætta er á að þær missi vöðvastyrk í kviðnum. Yfirleitt virðast óþægindi í kviðvegg verða minni þegar vöðvavefur er látinn óáreittur.  

Annar munur á þessum tveimur aðferðum felst í hvernig blóði er veitt í kviðvefinn þegar hann er orðinn að nýju brjósti. DIEP-flipi er laus flipi vegna þess að vefurinn er alveg losaður frá kviðnum og síðan festur á bringuna. Að tengja æðar í kviðvefnum við æðar í bringunni er nákvæmnisverk. Skurðlæknirinn notar smásjá við aðgerðina. Í TRAM-flipa aðgerð eru bláæðar ekki losaðar frá æðum í kviðnum. Kviðvefurinn er áfram tengdur við æðarnar og fluttur upp á bringuna. Því þarf ekki að tengja æðar. DIEP-flipa aðgerðin tekur mun lengri tíma en TRAM-flipaaðgerðin vegna nákvæmnisvinnu við smásjáraðgerðina (allt að 5 klukkustundir þegar annað brjóstið er byggt upp en 8 stundir þegar bæði brjóstin eru endurgerð).   

Eins og við TRAM-flipa aðgerð minnkar maginn þar sem fita er tekin úr kviðnum til að búa til nýtt brjóst og strekkt á lausri húð.  

Mjög vinsælt er að láta búa til nýtt brjóst með því að nota eigin vef því að þetta er varanleg lausn (ígrædd brjóst þarf að endurnýja eftir 10 til 15 ár). Kviðvefurinn er einnig mjög líkur eðlilegum brjóstvef viðkomu. Í nýja brjóstinu verður aftur á móti lítil eða engin tilfinning.   

DIEP-flipa aðgerðir hafa verið framkvæmdar síðan snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Þar sem aðgerðin er flókin er ekki alls staðar boðið upp á hana. Yfirleitt er hún gerð af lýtalæknum sem sérhæfa sig í smásjáraðgerðum á brjóstum. Hafir þú áhuga á svona aðgerð skaltu ræða málið við skurðlækni þinn eða krabbameinslækni og fá meðmæli hans. 

*Á LSH starfa læknar sem hafa sérhæft sig í að búa til ný brjóst.  

DIEP-flipa aðgerð hentar ekki öllum. Hún er góður kostur fyrir konur sem hafa af nægum vef að taka til að byggja upp annað eða bæði brjóstin. Almennt má fullyrða að hægt sé að fara í DIEP-flipa aðgerð þótt konan hafi einhvern tíma farið í skurðaðgerð á kviði (legnám, keisaraskurð, botnlangaskurð, þarmastyttingu, fitusog, magastrekkingu).   

DIEP er EKKI góður kostur fyrir:

  • konur með mjög litla fitu á kviðnum,

  • konur sem reykja og eru með þröngar æðar og ósveigjanlegar.

 

Hvernig fer DIEP-flipa aðgerð fram?

 

Lítill skurður er gerður neðarlega á kviðnum (bikini-lína) og nauðsynleg húð, fita og æðar losaðar. Úr fituvef og húð er mótað brjóst og það saumað á sinn stað. Litlu bláæðarnar sem eiga flytja næringu í nýja brjóstið eru tengdar við æðar af svipaðri stærð í bringunni undir smásjá. Aðgerðin tekur um 5 klukkustundir. Konur sem hafa farið í DIEP-flipa aðgerð finna fyrir minni verkjum og hafa meiri kviðstyrk að lokinn aðgerð en þær sem fara í TRAM-flipa aðgerð. DIEP er engu að síður mikil aðgerð og óhætt að reikna með að það taki mánuð að jafna sig á henni.

 

DIEP eftir tvöfalt brjóstnám

Hafi bæði brjóstin verið tekin er hægt að búa til ný brjóst með DIEP-flipa svo framarlega sem næg kviðfita er fyrir hendi. Skurðlæknir þinn ákveður hvort vefurinn nægi í aðgerð á báðum brjóstum. Þannig aðgerð tekur lengri tíma en að búa til eitt brjóst (um 8 klukkustundir).  

ÞB