Er sílikon hættulaust?

Mikið hefur verið rætt og deilt um hvort óhætt sé að græða sílikonfyllta brjóstapúða í konur. Kosturinn við sílikon er sá að þannig púðar líkjast eðlilegum brjóstum mest, bæði hvað varðar þyngd og áferð. Þegar kona hefur farið í brjóstnám er brjóstapúðanum komið fyrir beint undir húðinni og sá eða sú sem snertir brjóstið finnur fyrir honum. (Þegar kona lætur setja sílikonpúða í brjóstin í þeim tilgangi einum að stækka brjóstið sem fyrir er, er púðanum komið fyrir á bak við brjóstið. Hann er því langt frá yfirborðinu og finnst ekki þegar komið er við það.) Púði með saltvatni er líkari bolta sem hefur verið fylltur af vatni, púði með sílikonfyllingur er viðkomu líkari vernjulegum brjóstavef.

Fyrir kemur að konur telja að þær hafi orðið fyrir heilsubresti af sílikoni sem hafi lekið úr púða – einkum ef þær hafa fengið einhvern sjálfsofnæmissjúkdóm eins og gigt eða lúpus. Í Bandaríkjunum hafa verið höfðuð mörg dómsmál gegn framleiðendum slíkra púða. Af þeirri ástæðu hefur alríkisstjórnin ákveðið að konur sem vilja láta setja sílikonpúða í brjóstin þurfi að taka þátt í eftirliti og rannsókn sem stendur yfir að staðaldri.

Á grundvelli fjölmargra rannsókna sem gerðar hafa verið bæði vestan hafs og austan bendir allt til þess að – á heildina litið – séu konur með ígrædda sílikonpúða engu líklegri til að þróa með sér gigt eða lúpus en konur sem ekki eru með slíka púða. Flestir skurðlæknar og krabbameinslæknir eru á því að þeir sílikonpúðar sem nú eru fáanlegar séu hættulausir. Hafi hins vegar kona farið illa út úr því að fá græddan í sig sílikonpúða, getur reynslan verið martröð líkust. Leki sílikonpúði, ber að fjarlægja hann. Líkaminn kann að bregðast við sílikoni sem hefur lekið úr púða með því að mynda örvef. Það getur valdið konunni óþægindum og lögun brjóstsins farið úr skorðum. Þótt það sé afar sjaldgæft getur það einnig gerst að lítið magn sílikonvökva berist í aðra hluta líkamans.

Sem stendur er verið að gera tilraunir með hvort í stað sílikons sé mögulegt að nota jarðhnetu- og sojaolíu sem fyllingu í púða. Þeir verða þéttari og líkari eðlilegu brjósti en púðar með saltvatnsfyllingu og taki þeir að leka, getur líkaminn auðveldlega unnið úr fitunni sér að skaðlausu.

ÞB