Nýtt brjóst með vefjaflutningi

Önnur leið til að búa til nýtt brjóst með skurðaðgerð er að taka vef annars staðar úr líkamanum, þar sem nóg er af honum, og færa upp á bringuna. Þetta kallast vefjaflutningur eða endursköpun með eigin vef. Húð, fitu- og vöðvavef má sækja í maga, bak eða sitjanda (innanverðar rasskinnar). Hægt er að losa vefinn alveg og flytja hann (frír flipi), en einnig er til í dæminu að vefurinn sé áfram tengdur við sinn upprunalega stað með flipa og honum smokrað undir húðina á nýja staðinn á bringunni (stilkaður flipi). Í báðum tilfellum er vefurinn saumaður á sinn stað sem nýtt brjóst.

Kosturinn við að hafa vefinn áfram tengdan með flipa við upprunalegan stað er að þannig fær hann örugglega nóg blóð (næringu). Það eykur líkur á að vefurinn dafni og þrífist á nýja staðnum.

ÞB