TRAM-flipa aðgerð

TRAM er skammstöfun sem notuð er um þessa aðferð við að endurskapa brjóst, mynduð úr upphafsstöfunum í orðunum Transverse Rectus Abdominis Muscle. Á íslensku heitir rectus abdominis magálsvöðvi. Þessi vöðvi er í neðri hluta kviðarins, miðja vegu milli mittis og lífbeins. Orðið transverse merkir að farið er þvert á vöðvann en ekki eftir honum endilöngum (neðanfrá og upp).

TRAM-flipa aðgerð
Stækka mynd

Kona eftir brjóstnám. Sýndur er magálsvöðvi þvert yfir og aðliggjandi vefir sem á að flytja.

A brjóstnámssvæðið
B hægri magálsvöðvi
C vinstri magálsvöðvi
D sneið af kviðvef: húð og fita sem á að flytja ásamt vöðva til að búa til nýtt brjóst.

Þegar kemur að því að búa til nýtt brjóst er TRAM-flipi (ýmist frír eða stilkaður) vinsælasta aðferðin, einkum hjá konum sem eru með umfram fitu á kvið eða teygðan maga eftir meðgöngu. Þær fá þá magaminnkun í leiðinni sem mörgum finnst kostur. Við það má bæta að kviðvefur er nánast eins og venjulegt brjóst viðkomu. Hins vegar munt þú hafa litla sem enga tilfinningu í brjóstinu sjálfu.

TRAM-flipi hentar ekki öllum konum og er ekki góður kostur fyrir:

  • Grannar konur sem ekki hafa nægilega mikið af kviðvef.

  • Konur sem reykja og eru því með þrengri og harðari æðar en þær sem ekki reykja.

  • Konur með mörg ör eftir aðgerðir á kviði (ör eftir venjulegan keisaraskurð eru yfirleitt ekki vandamál).

Hvernig fer TRAM-flipa aðgerð fram?

TRAM-flipa aðgerð
Stækka mynd

Kona á leið í TRAM-flipa aðgerð.

A dregið fyrir skurðmörkum nýs brjósts
B hægri magálsvöðvi
C vinstri magálsvöðvinn fluttur til að skapa nýtt brjóst
D skurðhringur fyrir nýja staðsetningu á nafla
E lína sem sýnir skurðsvæði á kviði.


TRAM-flipa aðgerð
Stækka mynd

Kona með skurði eftir TRAM-flipa aðgerð

A skurður á brjósti
B skurður eftir flutning á nafla
C skurður á kviði eftir vefjarflutning


Sporöskulaga sneið af húð, fitu- og vöðvavef er tekin úr neðri hluta magans (húðeyja) og smokrað undir húðinni upp á brjóststæðið. Æðar eru látnar halda sér eftir því sem kostur er (stilkaður flipi). Vefurinn er formaður þannig að hann líkist eðlilegu brjósti og saumaður fastur. Hafi verið skorið á æðar og vefurinn losaður alveg (frír flipi), tengir skurðlæknirinn fíngerðar æðarnar við æðar í bringunni með aðstoð smásjár. Aðgerðin tekur um það bil þrjár klukkustundir. Hægt er að stækka nýja brjóstið í sömu aðgerð með því að koma fyrir púðafyllingu undir sjálfum vefnum.

TRAM-flipa aðgerð eftir brjóstnám beggja brjósta

Þegar endurskapa þarf bæði brjóstin eftir brjóstnám, er aðeins tekin ein húðeyja (húð, vöðvi og fita) úr kviðnum. Læknir þinn verður að segja til um hvort nóg sé af vef til að búa til úr honum tvö brjóst. Flipanum er skipt í tvennt og hvorum helmingi um sig komið fyrir á réttum stað við tvö skurðarop á bringunni. Svona aðgerð tekur tvisvar sinnum lengri tíma en þegar búið er til eitt brjóst (um það bil sex klukkustundir) og mörgum konum finnst tíminn sem þær eru að jafna sig eftir aðgerðina mjög erfiður. Þær segja að þetta sé eins og að lenda í alvarlegu bílslysi með miklum áverkum á kviði – með öðrum orðum: Búðu þig undir að líða ömurlega í nokkrar vikur á eftir.

Þetta þarf að hafa hugfast í sambandi við TRAM-flipa aðgerð


Flestar konur gleðjast yfir því að vera komnar með flatan maga eftir aðgerðina. Hér eru nokkur atriði sem vert er fyrir þig að íhuga, sértu að hugsa um að fara í TRAM-flipa aðgerð:

  • Langt ör: Skurðurinn á maganum liggur þvert yfir kviðinn, mjaðmarbeina á milli, miðja vegu milli nafla og hárlínunnar ofan við lífbeinið.

  • Afmyndaður nafli: Hugsanlegt er að skurðlæknirinn þurfi að búa til á þig nýjan nafla vegna þess að kviðsvæðið hefur aflagast; það kann að hafa teygst á meðfæddum nafla, hann afmyndast eða hann situr á röngum stað.

  • Missir tilfinningar: Fyrir þann sem snertir brjóstið er það mjög líkt viðkomu og venjulegt brjóst. Þar sem skorið hefur verið á taugar við vefjarflutninginn er hins vegar afar ólíklegt að þú hafir mikla tilfinningu eða næmi í nýja brjóstinu eða nýju brjóstunum.

  • Aðgerðina er aðeins hægt að framkvæma einu sinni: Skurðlæknir getur ekki tekið oftar en einu sinni vef úr kviðnum. Hafi kviðvefur verið notaður til að búa til brjóst eftir að annað brjóstið var tekið af þér og þú þarft seinna að fara í brjóstnám með hitt brjóstið, verður að taka vef úr bakinu til að búa til nýtt brjóst eða þú þarft að láta græða í þig púða.

 ÞB