Vefjaflutningur úr rasskinn
Sitjandinn er enn einn staður líkamans þangað sem má sækja “umfram” vef til þess að endurskapa brjóst. Þótt staðurinn kunni í fljótu bragði að virðast ákjósanlegur þegar leitað er að vef í fyllingu, er afar sjaldan gripið til þess að gera slíka aðgerð vegna þess hve flókin hún er og hve oft hún mistekst.
Sporöskjulaga sneið af húð, fitu og vöðva er losuð frá innanverðum rasskinnunum (gluteus) og flutt yfir á brjóstsvæðið. Vefurinn er mótaður þannig að hann líkist brjósti að lögun og saumaður fastur. Hugsanlegt er að setja þurfi púða á bak við vefinn til að fá þá stærð sem óskað er eftir. Örið er snyrtilega falið inni í rassskorunni.
Vefjaflutningur úr rasskinn er tæknilega erfiður vegna þess að taka þarf sundur æðar sem halda vefnum lifandi og tengja þær aftur með smásjáraðgerð við æðar í bringunni. Aðgerðin getur tekið allt að 12 klukkustundir. Skemmist æðar við flutninginn er ekki víst að vefurinn lifi. Þá þarf að fjarlægja hann með nýrri aðgerð og læknar verða að leita annarra lausna.
ÞB