Frjósemi og þungun

Sértu að hugsa um að eignast barn en ert jafnframt að glíma við brjóstakrabbamein, stendurðu frammi fyrir alls kyns erfiðum spurningum. Hvaða möguleika áttu á því að fara í meðferð og vera frjó eftir sem áður og fær um að ala barn? Hvernig kemstu að niðurstöðu um hvað er mikilvægast fyrir þig? Er eitthvað sem þú þarft að gera tafarlaust? Hvað má bíða þar til síðar?

Kannski er nýbúið að greina hjá þér brjóstakrabbamein og þú ert á leið í meðferð með krabbameinslyfjum. Læknirinn segir þér að þú getir farið inn í ótímabær tíðahvörf og orðið ófrjó af lyfjunum.

Þær fréttir gætu orðið til þess að þér líður enn verr en áður. Greiningin hefur hugsanlega slegið þig alveg út af laginu og þér finnst þú yfirbuguð. Þú getur ef til vill ekki áttað þig á hvaða áhrif krabbameinið muni hafa á framtíð þína. Nú þarftu þar á ofan að hafa áhyggjur af því hvort krabbameinið og meðferðin við því geti gert möguleika þína á að eignast barn að engu.

Ef til vill ertu komin yfir fyrsta áfallið og hefur lokið meðferð við krabbameini. Efst í huga þér er aðeins eitt: Að komast að því hvort þú ert enn frjó — hvort þú getur orðið barnshafandi áður en það verður um seinan.

Margar konur deila áhyggjum sem þessum. Þig gæti langað til að verða þunguð eftir meðferð en ert enn ekki í föstu sambandi. Þú kannt að vera gift eða í sambandi, en ekki tilbúin að eignast börn. Eða þú átt þegar barn (eða börn) en langar mjög mikið til að eignast fleiri. 

Frjósemi hefur svo margvísleg áhrif á margar hliðar lífsins á svo afgerandi hátt. Ræddu þessi mál við krabbameinslækni þinn, sem getur vísað þér í rétta átt og  hjálpað þér að skilja og átta þig á því sem er mikilvægt fyrir þig að vita í þeirri stöðu sem ÞÚ ert.

Sérfræðingarnir á síðunni brestcancer.org sem fjalla um frjósemi, þungun og ættleiðingar eru:

  • Kutluk Oktay, M.D., aðstoðarprófessor við Weill Medical College, Cornell University, New York, NY

  • Leslie Schover, Ph.D., aðstoðarprófessor í atferlisvísinum við University of Texas M. D. Anderson Cancer Center, Houston, TX

  • Marisa C. Weiss, M.D., krabbameinslæknir með geislalækningar sem sérgrein við Thomas Jefferson University Health System, Philadelphia, PA

Gert var mögulegt að setja saman þennan hluta með óskilyrtum styrk frá Stulman stofnuninni (The Stulman Foundation).

ÞB