Að taka ákvörðun um að eignast barn

Yfirlit

Til að fá gleggri mynd af þeim möguleikum sem þú hefur á að verða barnshafandi að krabbameinsmeðferð lokinni getur verið gott að fara skipulega yfir eftirfarandi spurningar skref fyrir skref:

Fyrsta skref: Hverjar eru batahorfur þínar?

Ræddu við lækni þinn um hve alvarlegt krabbamein þitt er. Eru batahorfur þínar tiltölulega góðar? Eru þær svo góðar að þú sjáir fram á að vilja eignast barn/börn í framtíðinni eða eru horfurnar ef til vill þannig að þú vilt ekki eiga neitt á hættu af þeirri ástæðu?

Þegar þú biður lækni þinn um að gefa þér einhverja hugmynd um lífslíkur eftir brjóstakrabbameinsmeðferð, gætirðu hugsanlega fengið að sjá eða heyra tölur eins og þær sem lesa má hér að neðan:


Ífarandi brjóstakrabbamein - hlutfall kvenna sem eru lifandi að liðnum fimm árum frá meðferð


Brjóstakrabbamein á I. stigi: 80-95% (æxlið er 2 cm eða minna og krabbameinsfrumur hafa ekki borist í eitla).

Brjóstakrabbamein á II. stigi: 60-80% (æxlið er á bilinu 2 til 5 cm að stærð, og krabbameinsfrumur hafa ýmist sáð sér í eitla eða ekki).

Brjóstakrabbamein á III. stigi: 40-60% (æxlið er stærra en 5 sentímetrar, teikn á húð og krabbamein hefur ýmist sáð sér í eitla eða ekki).

Brjóstakrabbamein á IV. stigi: 0-20% (meinvörp, þ.e. krabbamein hefur sáð sér í aðra hluta líkamans).

 

Annað skref: Hve mikil áhætta fylgir því fyrir þig að verða ófrísk?

Ræddu við lækni þinn um hvort þungun hafi áhættu í för með sér og þá hve mikla með tilliti til þess krabbameins sem þú greindist með. Engar ákveðnar sannanir eru til fyrir því að þungun hafi áhrif á batahorfur kvenna eftir brjóstakrabbameinsmeðferð. Hins vegar kann að vera eitthvað sérstakt að hjá þér sem gæti flækt málið.

 

Þriðja skref: Hvernig er mögulegt að varðveita frjósemina?

Segi læknir þinn að batahorfur þínar séu tiltölulega góðar og þungun yrði nokkuð áhættulaus, fáðu þá frjósemissérfræðing til að fara með þér yfir möguleikana sem eru fyrir hendi þannig að þú getir gengið með og alið barn síðar meir. Gerðu þetta áður en þú byrjar meðferð við brjóstakrabbameini.

Hér koma nokkrar spurningar sem leggja má fyrir frjósemissérfræðinginn:

  • Er mögulegt að taka egg úr þér núna, frjóvga þau og geyma til öryggis, ef svo færi að eggjastokkarnir hættu að framleiða egg?

  • Er örvun eggjastokka (ásamt glasafrjóvgun) eina raunhæfa leiðin til að heimta nógu mörg egg?

  • Er til annars konar frjósemismeðferð sem hugsanlega er ekki jafn áhættusöm fyrir þig?

  • Væri rétt að frysta eitthvað af eggjastokkavef í stað þess eða í viðbót við að taka hjá þér egg? 

  • Ættirðu að hugleiða að taka inn lyf til að bæla starfsemi eggjastokkanna á meðan þú ert í krabbameinslyfjameðferð?

  • Hvað kosta slíkar ráðstafanir hver um sig í tíma og fjármunum, og hvaða kröfur þarf að uppfylla læknisfræðilega?  

Þegar þú hefur rætt alla þá möguleika sem eru fyrir hendi við lækni þinn eða sérfræðing, skaltu spyrja sjálfa þig hve mikið þú ert tilbúin að leggja á þig einmitt núna til að halda þeim möguleika opnum að ganga með og ala þitt eigið barn.

 

Fjórða skref: Geturðu frestað meðferð?

Talaðu við lækna þína eða lækni um hvort óhætt sé fyrir þig að fresta meðferð með krabbameinslyfjum og geislameðferð í að minnsta kosti sex vikur til að fá tíma til að fara í frjósemismeðferð fyrir glasafrjóvgun. Krabbameinslæknir þinn mun skera úr um hvort óhætt sé fyrir þig að fresta meðferð með hliðsjón af því hve alvarlegt krabbameinið er sem þú greindist með.

 

Fimmta skref: Er þér óhætt að taka inn frjósemislyf?

Segi læknirinn að það sé í lagi að fresta meðferðinni þarftu að ræða við hann hvort þér sé óhætt að fá frjósemislyf. Er óhætt að gefa þér hormónana sem notaðir eru til að örva egglos eða kann mikið magn estrógens að reynast þér hættulegt?

Yfirleitt er ekki mælt með því að konur sem hafa fengið brjóstakrabbamein noti frjósemislyf sem innihalda hormóna þar sem þeir kunna að hafa örvandi áhrif á krabbameinsfrumur. Sé ætlunin að þú fáir frjósemislyf í aðeins einn tíðahring, þurfið þið læknir þinn að meta áhættuna. Biddu um að fá að nota tamoxifen eða aromatase-hemil með eða í staðinn fyrir venjuleg frjósemislyf. 

 

Sjötta skref: Sæði hvers verður notað?

Til að frjóvga egg þarf sæði. Hvaðan kemur það? Sértu þegar í föstu sambandi við karlmann, þarftu að ganga úr skugga að bæði þú og maki þinn séuð bæði jafn áköf í að eignast börn.

Sértu einhleyp eða í sambandi við aðra konu, þarft þú — eða þú og konan þín — að hugleiða hvort þið eruð reiðubúnar að leita að sæðisgjafa. 

Sé maki þinn karlkyns, látið þá ganga úr skugga um að sæði hans sé heilbrigt áður en þú tekst á hendur ágenga frjósemismeðferð. Jafnvel þótt sæðistala makans sé lág, kann sæðið að spjara sig við glasafrjóvgun.

Sé lífvænlegt sæði ekki fyrir hendi — eða enginn maki af karlkyni — gæti komið til greina að nota sæði úr sæðisbanka.

Vegna þeirra lagalegu og siðferðilegu þátta sem glasafrjóvgun felur í sér eru fæstar frjósemisstöðvar tilbúnar að taka við merktu sæði frá vini eða kærasta sem ekki er í föstu sambandi með þér og deilir framtíðaráformum þínum. 

Sömu spurningar geta reynst jafn erfiðar þótt þú sért í föstu sambandi við karlmann. Á frjósemisstöðvum vill fólk í lengstu lög forðast að lenda í forræðisdeilu vegna fósturvísa. Lagahliðin á þessum viðkvæmu málum er flóknari en ella þegar fólk er ekki gift. 

 

Sjöunda skref: Hugleiddu hvort þú getir eignast barn án þess að egg frá þér séu notuð. 

Ertu tilbúin að hugleiða þann möguleika að ganga með barn sem ekki skapað af þínu eigin eggi heldur annarrar konu? Ertu tilbúin að fá aðra konu (staðgöngumóður) til að ganga með barn fyrir þig? (*Þetta síðasta er ólöglegt hér á landi.) 

Geturðu hugsað þér að ættleiða barn? Þó nokkur fjöldi kvenna velur að ættleiða barna fyrstu árin eftir að hafa greinst með brjóstakrabbamein á meðan þær telja of snemmt fyrir sig að leggja á líkamann frjósemismeðferð og meðgöngu.

Síðar meir, þegar mesta hættan á að meinið taki sig upp aftur er að baki og þú hefur endurheimt kraftana, kanntu að ákveða að reyna að verða barnshafandi.

 

Áttunda skref: Hefurðu ráð á frjósemismeðferð?

*Hefurðu efni á að greiða fyrir meðferðir sem þessar ef í ljós kemur að tryggingarnar greiða ekki kostnaðinn að hluta eða í heild? Þú þarft að kanna hvaða reglur gilda um konur sem hafa greinst með krabbamein, hvort um þær gildi sérstakar reglur eða hvort einhver aldurstakmörk eru sett. 

*Meðferðir eins og þær sem lýst er að ofan eru ekki gefnar og því mikilvægt að átta sig á hvaða kostnaður kann að hljótast af þeim. Einnig kann að skipta máli hvort um fyrstu tilraun er að ræða eða ítrekaða tilraun.

*Við fyrsta tækifæri verður upplýsingum komið fyrir inni á þessari síðu sem geta svarað spurningum um kostnað.

 

*Málsgreinar merktar stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB