Ættleiðing

Ættleiðing er flókið ferli og stundum ruglingslegt. Rétt er að leita til ráðgjafa í ættleiðingarmálum á vegum sveitarfélagsins þar sem þú býrð eða lögfræðings sem hefur sérhæft sig í þeim. Þú hefur áður þurft að leita sérfræðinga á ýmsum sviðum og skalt fara eins að núna

Félagið Íslensk ættleiðing sér um miðlun ættleiðinga erlendis frá og hefur löggildingu frá dómsmálaráðuneytinu hér á landi. Hægt er að snúa sér þangað og fá upplýsingar. 

Góður ráðgjafi getur vísað þér inn í réttan farveg og hjálpað þér að skilja sálræna þætti ættleiðingar. Til að ættleiðing takist sem best þarf að takast á við marga þætti, meðal annars eðlilega sorg sem fylgir því að gefa frá sér þá hugmynd að ganga með og fæða eigið barn.  

Á Íslandi eins og í flestum öðrum löndum gilda ákveðin lög um ættleiðingu og í þeim er skýrt kveðið á um hverjir mega ættleiða. Ættleiðing barns er fyrst og fremst hugsuð fyrir barnið og að hagur þess verði sem bestur. Í því sambandi er litið til þess að væntanlegir foreldrar geti búið barninu þroskavænlegar aðstæður tilfinningalega, félagslega og fjárhagslega. Hérlendis hafa enn ekki verið fullmótaðar skýrar reglur um langvinna sjúkdóma og heilsufar þeirra sem óska eftir að ættleiða barn. Litið er til þess að hvert mál er einstakt og sífelld endurskoðun fer fram á reglugerð um framkvæmd ættleiðingarlaga.

Kona sem fengið hefur krabbamein og óskar þess að fá að ættleiða barn þarf að fá gott meðmælabréf frá lækni sínum þar sem staðfest er að hún sé komin til fullrar heilsu. Sért þú í þessum sporum þarftu bréf þar sem tekið er fram að engin merki finnist hjá þér um krabbamein, sagt hve langt er síðan þú losnaðir við meinið og lýsa því yfir að allar líkur séu á að þú eigir langa framtíð fyrir höndum við góða heilsu.

Allir verðandi foreldrar ættleiddra barna þurfa að skila inn upplýsingum um heilsufar sitt. Bréf þitt frá lækninum er hluti þessa. Til viðbótar við vottorð um heilsufar eru hagir þínir kannaðir og ferill (t.d. hvort þú ert á sakaskrá), þú ferð í viðtal og komið er inn á heimili þitt til að ganga úr skugga um að það sé heppilegt umhverfi fyrir barn.

Mikilvægt er að þú sjálf lesir yfir greinargerðir og meðmæli frá þeim aðilum sem þú leitar til. Þannig getur þú fylgst betur með, gert athugasemdir og áttað þig betur á hvernig aðilar þér ótengdir meta stöðu þína.

Sumir fulltrúar félagsmála sem hafa það hlutverk að koma heim til fólks og kanna heimilishagi eru andsnúnir því að fyrrum krabbameinssjúklingar fái leyfi til að ættleiða. Mikilvægt er að finna skilningsríkan félagsráðgjafa sem þú getur rætt við. Einnig er gott að setja sig í samband við aðra í sömu sporum.  Á netinu má finna rás á Yahoo þar sem unnt er að leita ráða og stuðnings: "Adoption after Cancer,".

Sýslumaður veitir leyfi til ættleiðingar en barnaverndarnefnd í hverju sveitarfélagi kannar heimili og félagslegar aðstæður væntanlegra kjörforeldra. Greinargerð og umsögn barnaverndarnefndar er síðan lögð til grundvallar um hæfi væntanlegra foreldra og að umhverfi sé lögum samkvæmt. Allt ferlið og biðtími er langur. Forrannsókn getur tekið átta mánuði til eitt ár, bið eftir barni þrjú til tíu ár. Ættleiðing er ekki ferli sem rétt er að flýta, en biðin getur reynst mörgum konum erfið sem hafa farið í meðferð við brjóstakrabbameini og þrá að eignast barn sem fyrst. 

Ættleiðing innanlands annars vegar og hins vegar erlendis frá

Innlend börn til ættleiðingar eru mjög fá og af þeirri ástæðu velja margir að ættleiða barn utanlands frá. Þau eru einnig fá. Á árinu 2009 voru 13 bön ættleidd til Íslands erlendis frá. Margir sem hafa fengið krabbamein hafa áhyggjur af því hve biðlistarnir eru langir og hugsanlegri hættu á mismunun. 

Mikilvægt er að fá um það upplýsingar fyrirfram hvort í landinu sem verður fyrir valinu gildi einhverjar takmarkandi reglur í sambandi við krabbamein, hjúskaparstöðu eða aldur umsækjenda.

Kostnaður við ættleiðingu er mikill, getur hlaupið á milljónum, en er mismunandi og ólíkur eftir löndum. Nánari upplýsingar um þann þátt má fá hjá félaginu Íslensk ættleiðing.

Nauðsynlegt er að fara með fyllstu gát í ættleiðingar, einkum með tilliti til heilsufars barns og móður. 

Upplýsingar á ensku um ættleiðingar og önnur mál þeim tengdum er að finna á  Adoptive Families of America og American Academy of Adoption Attorneys.

ÞB