Þegar og ef blæðingar byrja á ný

Sumar allra yngstu konurnar halda áfram að fá blæðingar reglulega, og þær stöðvast hvorki meðan á krabbameinslyfjameðferð stendur né að henni lokinni. Margar geta orðið barnshafandi og alið heilbrigt barn.

Flestar konur á fertugsaldri fá aftur reglulegar blæðingar eftir eitthvert hlé á blæðingum. Það hlé kann að vara í þrjá til sex mánuði —og jafnvel lengur. Hins vegar má vera, að þótt blæðingar hefjist á ný, séu færri egg í eggjastokkunum sem geta frjóvgast. 

Þetta felur í sér að konan heldur áfram að hafa reglulegar blæðingar í einhvern tíma, en fer líklega á breytingaskeiðið fyrr en gerst hefði, ef ekki hefði komið til krabbameinsmeðferðar. Sem dæmi má nefna, að hafi flestar konur í fjölskyldunni farið úr barneign um 50 ára aldur, er hugsanlegt að það gerist um 45 ára aldur eða fyrr hjá konu sem hefur farið í krabbameinsmeðferð.

Af þeirri ástæðu ættu allar konur sem komnar eru yfir þrítugt að tala við lækna sína um frjósemisþáttinn áður en þær byrja í krabbameinsmeðferð. Yngri konur gætu orðið ófrískar á venjulegan hátt að lokinni krabbameinsmeðferð, en líklegt er þó að þegar þær eldast muni þær eiga erfiðara með að verða barnshafandi en aðrar konur á þeirra aldri.

Til eru þær sem geta átt erfitt með að verða barnshafandi síðar meir af ástæðum sem tengjast frjósemi en hafa ekkert með krabbameinsmeðferðina að gera. Hugsanlega er kona ófrjó eftir meðferð með krabbameinslyfjum og fer í frjósemismeðferð, en ekki tekst að halda lífi í fósturvísum eftir að þeim er komið fyrir og þungun á sér ekki stað. Í því tilfelli gæti konan ef til vill hugsað sér að verða barnshafandi með því að fá gefin egg. 

Margar konur geta vel hugsað sér ættleiðingu sem mögulegan kost í stöðunni. 

*Ekki hefur verið safnað inn á þennan vef upplýsingum um ættleiðingarferli á Íslandi og þeim möguleikum sem eru fyrir hendi. Verður það gert við fyrsta tækifæri.

Hér er hins vegar bent á bandarísk samtök - RESOLVE - en hlutverk þeirra er að veita fræðslu og stuðning þeim einstaklingum sem eiga við frjósemisvanda að stríða. Aðalstöðvar samtakanna eru í Bethesda, Maryland, www.resolve.org.

 

Hve lengi þarf að bíða með að verða ófrísk?

Margir læknar mæla með því að bíða að minnsta kosti í einhver ár með að verða ófrísk til að komast yfir þann tíma þegar mest hætta er á að krabbamein taki sig upp og konur hafa náð fyrri kröftum að fullu. Ekki eru allir sammála um hvenær rétt sé að byrja að telja niður — hvort það megi gerast frá þeim tíma þegar krabbameinið greindist eða þegar krabbameinsmeðferð lauk. Hafðu í huga að hætta eða líkur á að krabbameinið taki sig upp hjá þér eru háðar sérstökum aðstæðum þínum og einskis annars. 

Til að koma í veg fyrir þungun skaltu nota áþreifanlegar getnaðarvarnir eins og smokk og/eða hettu. Notaðu EKKI pilluna eftir meðferð við brjóstakrabbameini. Í getnaðarvarnarpillum er estrógen. Ekki er öruggt að konum sem fengið hafa brjóstakrabbamein sé óhætt að taka pilluna og því mæla læknar á móti henni.  

Tvör ár eru langur tími á meðan beðið er, ekki síst ef konan er komin yfir miðjan fertugsaldur, er 35 ára eða eldri. Þótt blæðingar hafi byrjað á ný eru möguleikarnir á að verða barnshafandi hugsanlega ekki eins miklir og þeir hefðu verið, hefði ekki komið til krabbameinsmeðferðar.

Farir þú í meðferð með krabbameinslyfjum og langar til að ganga með barn, er ráðlegt að ræða við sérfræðing um frjósemi. Ástæðan er sú að reglulegar blæðingar munu ef til vill ekki halda áfram eins lengi og þær hefðu gert ella (án meðferðarinnar). Auk þess minnkar frjósemi allra kvenna með aldrinum. Meðferð getur auk þess stytt enn frekar þann tíma sem starfsemi eggjastokka er í gangi.

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB