Krabbameinsleit og meðganga
Þegar kona verður þunguð taka brjóstin ótrúlegum breytingum. Um leið og mjólkurgangarnir þroskast og búa sig undir að flytja næringu til barnsins, stækka brjóstin yfirleitt mjög mikið, tvöfalda jafnvel stærð sína og verða þung af vökva. Brjóstvefurinn verður stinnari viðkomu en hann var og oft dálítið hnjúskóttur. Þessar breytingar geta valdið því að erfitt reynist að greina brjóstakrabbamein. Þegar tekið er tillit til þátta eins og hvernig sumar tegundir greiningartækni kunni að hafa áhrif á fóstur í móðurkviði, getur það gert að verkum að um færri leiðir er að velja fyrir konur sem grunur leikur á að séu með brjóstakrabbamein.
Nokkrar minni háttar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvernig brjóstakrabbamein greinist oft fyrst á meðgöngu og á öryggi og áreiðanleika brjóstamynda, ómskoðunar og annarrar myndgreiningartækni sem stuðst er við þegar brjóstakrabbamein greinist hjá barnshafandi konum.
Teikn um brjóstakrabbamein á meðgöngu
Flest tilfelli brjóstakrabbamein sem greinast fljótlega eftir að konan verður barnshafandi eða á meðan hún gengur með, birtast sem verkjalaus þétting eða hnútur í brjóstinu. Um 70 til 80% hnúta sem finnast á meðgöngu reynast góðkynja, þ.e.a.s. EKKI krabbamein.
Gott er til þess að vita að finnist hnútur í brjóstinu á meðgöngutímanum, er ólíklegt að um brjóstakrabbamein sé að ræða. Engu að síður er rétt að vekja athygli læknis á grunsamlegum hnút og fara í viðeigandi rannsókn til að ganga úr skugga um hvort á ferðinni er krabbamein eða ekki. EKKI BÍÐA MEÐ AÐ LÁTA RANNSAKA HNÚTINN ÞAR TIL ÞÚ ERT BÚIN AÐ FÆÐA EÐA HÆTTIR AÐ HAFA BARNIÐ Á BRJÓSTI.
Sértu ófrísk og finnur hnút í brjóstinu sem þarf að rannsaka betur, vaknar sú spurning hvaða rannsóknir er óhætt að gera með velferð þína og barnsins sem þú gengur með í huga.
Brjóstamyndataka
Brjóstamyndataka meðan á meðgöngu stendur er eitthvað sem talið er óhætt að íhuga fyrir konur með teikn eða einkenni brjóstameins af einhverju tagi.
Umfangslitlar rannsóknir (tiltölulega fáir þátttakendur) hafa sýnt að brjóstamyndataka hefur enga eða litla hættu í för með sér fyrir fóstrið ef blýsvunta er sett yfir kvið verðandi móður til að útiloka hugsanlega geislamengun.
Hins vegar er nákvæmni brjóstamynda af barnshafandi konum minni en ella. Þrjár mismunandi rannsóknir hafa sýnt að brjóstakrabbamein hjá barnshafandi konum fannst í 62% til 78% tilfella. Þetta eru töluvert lægri tölur en meðaltalið hjá konum sem ekki eru barnshafandi en þá finnst brjóstakrabbamein í 82% tilfella með brjóstamyndatöku.
Venjubundin krabbameinleit (skimun) með brjóstamyndatöku er ekki gerð á barnshafandi konum séu þær ekki með nein einkenni.
Ómskoðun
Ómskoðun er talið öruggt tæki til að „sjá" inn í brjóst barnshafandi kvenna. Yfirleitt er ómskoðað til að meta hnút sem finnst við þreifingu áður en farið er út í að taka brjóstamynd.
Hvort heldur er hjá barnshafandi konum eða þeim sem ekki eru ófrískar má með ómskoðun ganga úr skugga um hvort hnútur er hættulaus, vökvafyllt blaðra eða þéttur massi sem gæti reynst vera krabbamein. Hins vegar er erfiðara með þessari tækni að greina á milli þéttingar í brjóstinu sem er krabbamein og þéttingar sem er ekki krabbamein.
Segulómun (MRI)
Læknar höfðu áður fyrr efasemdir um hvort óhætt væri að senda óléttar konur í segulómun (MRI). Nú á dögum er segulómun stundum beitt til að kanna hnút í brjósti barnshafandi kvenna sem brjóstamynd gefur til kynna að geti reynst vera krabbamein. Ræddu við lækni þinn um hvort hann telji óhætt fyrir þig og barnið sem þú gengur með að fara í svona skoðun.
Frumu- og vefjarsýni
Í því skyni að fá fullvissu fyrir því hvort á ferðinni er brjóstakrabbamein eða ekki þarf að taka sýni úr hinum grunsamlega hnút og á það jafnt við um þær sem ekki eru barnshafandi og hinar sem eru það. Sýni má taka ýmist með fínni nál (fínnálarsýni) eða grófri (grófnálarsýni) eða með því að gera skurð og fjarlægja hnútinn (skurðsýni). Brottskurðarsýni eru yfirleitt áreiðanlegri en nálarsýni.
Hins vegar getur reynst erfitt að meta niðurstöður rannsóknar á vefjarsýni úr barnshafandi konu. Mikið er undir reynslu meinafræðings komið, þess sem skoðar sýnið í smásjá. Þar sem brjóstafrumur vanfærra kvenna skipta sér hratt er mögulegt að ruglast á þeim og krabbameinsfrumum sem einnig skipta sér hratt.
Að minnsta kosti tvær rannsóknir gefa til kynna að greina megi krabbamein af öryggi með nálarsýni úr barnshafandi konum. Í stærri rannsókninni sem gerð var með þátttöku 331 barnshafandi kvenna og kvenna sem höfðu barn á brjósti, reyndist greiningin vera rétt. Ekki má vanmeta þá staðreynd að nálarsýni gaf í engu tilfelli ranglega til kynna að til staðar væri brjóstakrabbamein hjá konum sem reyndust ekki vera með krabbamein.
Rannsóknir hafa einnig sýnt að óhætt er að taka nálarsýni úr konum með börn á brjósti. Hætta á sýkingu er meiri þegar tekið er skurðsýni heldur en nálarsýni, því um meira inngrip er að ræða og brjóstamjólk kann að leka inn á skurðsvæðið. Sértu mjólkandi þegar þú þarft að fara í skurðsýnistöku, benda rannsóknir til að það kunni að draga úr hættu á sýkingu að hætta að mjólka barninu áður en til hennar kemur.
ÞB