Meðferðaleiðir á meðgöngu

Sértu barnshafandi er yfirþyrmandi að fá einnig þá fregn að þú sért með brjóstakrabbamein. Á sama tíma og þú vonast til að fæða nýtt líf í þennan heim þarftu að hefja erfiða glímu til að vernda þitt eigið líf. Þú kannt að hafa áhyggjur af að meðferðin sem þú þarft að fá kunni að skaða ófætt barn þitt eða hafa áhyggjur af því að meðferðin verði ekki jafn árangursrík og ella af því að þú ert ófrísk.

Vissulega geta þær breytingar sem verða yfirleitt á brjóstum við að kona verður barnshafandi  orðið til að leyna einkennum brjóstakrabbameins. Af þeim sökum kann það að dragast að meinið greinist og jafnvel orðið til þess að það finnst ekki. Hins vegar  sýna sumar rannsóknir  að konur sem greinast með brjóstakrabbamein á meðgöngu bregðast ekkert síður við meðferð en konur með krabbamein á sama stigi sem ekki eru barnshafandi.

Áður fyrr var ófrískum  konum stundum ráðlagt að láta binda endi á meðgöngu þegar uppgötvaðist að þær voru með brjóstakrabbamein. Þetta ráð er æ sjaldnar gefið nú á dögum.

Það breytir því ekki að þungun getur haft áhrif á þær ákvarðanir sem taka þarf í sambandi við hvers konar meðferðir þarf að fara í.

 

Skurðaðgerð og geislameðferð

Skurðaðgerð á meðgöngu er skaðlaus verðandi móður og fóstri. Hins vegar getur reynst erfiðara að ákveða hvers konar skurðaðgerð sé rétt að fara í. Almenna reglan er sú að mælt er með brjóstnámi í þeim tilfellum þegar:

  • Æxlið er stórt eða

  • mörg æxli finnast í sama brjósti eða

  • konan vill minnka líkur á að krabbamein taki sig aftur upp í sama brjósti. 

Sértu með sjúkdóm á byrjunarstigi og vilt fá að halda brjóstinu sé þess nokkur kostur, þá er fleygskurður  með hreinum skurðbrúnum  möguleiki með eftirfarandi krabbameinslyfjameðferð, bendi eitthvað til þess að hennar sé þörf. Geislameðferð  á því sem eftir er af brjóstinu er einnig nauðsynleg eftir fleygskurð.

Aftur á móti er ekki mælt með geislameðferð meðan á meðgöngu stendur. Því þyrfti að fresta geislameðferð þar til krabbameinslyfjameðferð er lokið (sé mælt með henni) og þú hefur fætt barnið. 

Minni líkur eru á að þú þurfir á geislameðferð að halda, sé allt brjóstið tekið.

Þyki þér sú tilhugsun óþægileg að fresta geislameðferð en vilt ljúka skurðmeðferðinni af eins fljótt og unnt er, væri brjóstnám hugsanlega betri kostur fyrir þig en aðgerð sem gerir þér unnt að halda brjóstinu að einhverju leyti, burtséð frá því á hvaða stigi krabbameinið er. Skipti það þig meira máli að halda brjóstinu og þú ert með lítið æxli og sjúkdóminn á byrjunarstigi, gæti fleygskurður verið sá kostur sem hentaði þér, svo fremi þú sért meðvituð um að þú þarft að fara í geislameðferð þegar þú hefur alið barnið.  

Þótt annað brjóstið hafi verið fjarlægt eru miklar líkur á því að þú getir haft barn þitt á brjósti, standi hugur þinn til þess. 


Krabbameinslyfjameðferð

Krabbameinslyfjameðferð getur framkallað fæðingargalla, sé farið í hana á fyrstu þremur mánuðum meðgöngunnar á meðan líffæri fóstursins eru að myndast.

Sértu aðeins gengin með nokkrar vikur og sjúkdómurinn á því stigi að hann krefst tafarlausrar meðferðar með krabbameinslyfjum, kann læknir þinn að mæla með að þú látir binda endi á meðgönguna.

Sértu gengin með lengur en þrjá mánuði og krabbameinið ekki á alvarlegu stigi, er líklegt að læknar mæli með því að fresta krabbameinslyfjameðferð þar til þú ert gengin með á fjórða mánuð.


Tamoxifen


Ekki er mælt með tamoxifeni á neinu stigi meðgöngu. Sé gert ráð fyrir því í meðferðaráætlun að þú fáir tamoxifen er rétt að fresta töku lyfsins þar til þú hefur alið barnið.  

ÞB