Stafar ófæddu barni hætta af meðferð?

Þótt þú hafir verið fullvissuð um að þér sé óhætt að verða barnshafandi eftir að hafa greinst með brjóstakrabbamein, kanntu enn að hafa áhyggjur af því hvort krabbameinið og meðferð við því geti hugsanlega haft einhver áhrif á fóstrið.


Sé brjóstakrabbamein fyrir í líkamanum meðan á meðgöngu stendur, getur það þá dreift sér til fósturs?

Nei. Milli líkama móður og barns er hindrun sem kemur í veg fyrir að krabbameinsfrumur geti borist í ófætt barn eða blóðrás þess.


Getur andhormónameðferð valdið fósturskemmdum?

Ekki er talið óhætt að taka inn andhormónalyfið tamoxifen á meðgöngu. Sértu að reyna að verða þunguð eða telur að þú sért það nú þegar, ættirðu ekki að taka inn tamoxifen. Finndu út með lækni þínum hve lengi þú getur tekið inn tamoxifen með það í huga að hafa sem mest gagn af lyfinu án þess að stofna möguleikum þínum á að verða barnshafandi í tvísýnu. Lestu meira á síðunni Tamoxifen og frjósemi 


Getur krabbameinslyfjameðferð á meðgöngu valdið fósturskemmdum?

Sumar þungaðar konur með brjóstakrabbamein þurfa á meðferð með krabbameinslyfjum að halda, og fer það eftir því á hvaða stigi krabbameinið er. Læknar eru því yfirleitt mótfallnir að senda konur í meðferð með krabbameinslyfjum fyrstu þrjá mánuði meðgöngunnar þar sem það kann að skaða líffæri sem myndast á því fósturskeiði.

Kona sem greinist með brjóstakrabbamein á fyrstu þremur mánuðum meðgöngu gæti valið að fresta meðferð með krabbameinslyfjum þar til annað þriggja mánaða skeið meðgöngu hefst. Hins vegar hefur lítil rannsókn sýnt að frestun í 3 til 6 mánuði kann að auka líkur á að krabbameinið sái sér út fyrir brjóstið um 5% til 10%. Hvort þú ákveður að fresta meðferðinni eða ekki fer eftir því hvaða tegund krabbameins þú ert með, hvort læknir þinn telur brýnt að þú byrjir í meðferð sem allra fyrst og hve miklu máli það skiptir þig að halda fóstrinu.

Nokkur fjöldi rannsókna hefur sýnt að krabbameinslyfjameðferð með FAC-lyjum (fluorouracil, Adriamycin® og cyclophosphamide) sem gefin er á öðru og þriðja skeiði meðgöngu, er ótrúlega örugg. Afar sjaldgæft er að þessi lyf hafi neikvæð áhrif, framkalli fósturlát, fæðingu fyrir tímann, andvana fædd börn eða fæðingargalla. Þú þarft engu að síður að hafa í huga að þessi samsettu lyf kunna að hafa neikvæð áhrif á frjósemi þína í framtíðinni, þ.e. möguleika þína á að verða barnshafandi þegar meðferðin er að baki.  Þær tegundir krabbameinslyfja sem talið er óhætt að fá á meðgöngu (sjá að neðan) eru hugsanlega ekki þær sömu og kunna að hafa áhrif á frjósemi þína í framtíðinni.

Í fáeinum rannsóknum hefur börnum kvenna sem fóru í krabbameinslyfjameðferð á meðgöngu verið fylgt eftir í langan tíma. Ein þeirra leiddi ekki í ljós nein ótvíræð frávik hjá börnunum þegar þau höfðu náð 15 til 20 ára aldri.  

Sumar tegundir krabbameinslyfja fela í sér meiri áhættu fyrir fóstur en önnur:

  • Methotrexate er það lyf sem mest áhætta virðist fylgja. Það getur valdið fósturláti og hugsanlegum fæðingargöllum.

  • Niðurstöður eru ekki samhljóða þegar kemur að lyfjunum fluorouracil eða 5-FU og hvort þau eru sérlega skaðvæn fyrir fóstur. Í einni rannsókn kom fram að lyfin yllu engum vandamálum þegar þau voru gefin á öðru og þriðja skeiði meðgöngu (á fjórða til níunda mánuði), en önnur rannsókn sýndi að þau höfðu ekki síður skaðvæn áhrif en methotrexate.

  • Vinblastine (Vincristine®, Velban®) og doxorubicin (Adriamycin®) eru talin meðal þeirra krabbameinslyfja sem öruggast er að gefa á meðgöngu. Hætta á því að skaða fóstur á fyrstu þremur mánuðum meðgöngu kann jafnvel að vera lítil.

  • Cyclophosphamide (Cytoxan®) er talið hafa í för með sér meðaláhættu þegar það er gefið á fyrstu þremur mánuðum meðgöngu og er talið tiltölulega öruggt þegar það er gefið á síðustu sex mánuðunum.

  • Fáar rannsóknir eru til sem hafa kannað áhrif þess á fóstur að gefa taxan-lyf svo sem paclitaxel (Taxol®) eða docetaxel (Taxotere®). Því er óljóst hvort óhætt er að gefa þessi lyf eftir fyrstu þrjá mánuði meðgöngu. Dæmi er um einn rannsóknaraðila sem lét vita að hann hefði gefið konu taxan-lyf á síðasta þriðjungi meðgöngunnar. Konan fæddi eðlilegt barn. 


Krabbameinslyf geta fækkað hvítum blóðkornum 

Krabbameinlyf kunna að fækka hvítum blóðkornum líkamans, en það eru þau sem vinna á sýkingum og eru hluti af ónæmiskerfinu. Þú kannt að verða fyrir þessari aukaverkun lyfjanna og fóstrið sömuleiðis. Yfirleitt veldur það ekki neinum vandamálum hjá fóstrinu. Fjölgi hvítum blóðkornum hins vegar ekki eftir að barnið er komið í heiminn kann það að reynast hættulegt bæði móður og barni. 

Sé þess kostur er æskilegt að konur fái ekki krabbameinslyf í um það bil mánuð fyrir áætlaða fæðingu til að koma í veg fyrir að fjöldi hvítra blóðkorna sé lítill hjá þeim og börnunum við fæðingu. Frönsk rannsókn sýndi að af 17 konum sem fengu krabbameinslyf við brjóstakrabbameini innan fjögurra vikna áður en barnið var alið, fæddi ein barn sem var lágt í hvítum blóðkornum.  

ÞB