Stofnar þungun þér í hættu?

Á meðgöngu berst til brjóstanna mikið magn estrógens og annarra hormóna sem geta örvað vöxt sumra tegunda brjóstakrabbameins. Hvernig eru horfurnar hjá þér ef þú færð brjóstakrabbamein á meðgöngunni eða skömmu eftir að þú hefur fætt? Hve miklar líkur eru á að þú yfirvinnir krabbamein samanborið við konur sem ekki eru barnshafandi en fá brjóstakrabbamein? Gera hormónar sem fylgja þungun það erfiðara að meðhöndla meinið með góðum árangri.

Og hafir áður þú einhvern tíma greinst með brjóstakrabbamein, kann sú spurning að vakna hvort þungun og meðganga auki líkur á að brjóstakrabbameinið taki sig upp aftur.

Þungun dregur ekki úr lífslíkum og eykur ekki hættu á að meinið taki sig upp.

Rannsóknir á konum sem höfðu einhvern tíma fengið brjóstakrabbamein leiddu í ljós að:

  • Til langs tíma var ekkert sem benti til þess að líkur á að krabbamein tæki sig upp aftur eða dánartíðni ykist hjá konum sem urðu barnshafandi eftir að hafa einhvern tíma greinst með brjóstakrabbamein.

  • Þungun virtist ekki vera orsök þess að nýtt krabbamein tók að þróast.

  • Konum sem greindust með brjóstakrabbamein á meðgöngunni farnaðist jafn vel þegar til lengri tíma var litið og þeim konum sem greinst höfðu með sömu tegund brjóstakrabbameins og á sama stigi en voru ekki barnshafandi við greiningu.

Ófrískar konur með brjóstakrabbamein bregðast vel við meðferð

Hversu vel og lengi þungaðar konu lifa frá því þær greinast með brjóstakrabbamein er háð eðli sjúkdómsins og á hvaða stigi hann er þegar hann finnst. (Hið sama á við um konur sem ekki eru barnshafandi en greinast með brjóstakrabbamein.) Meiri líkur eru á að árangur meðferðar reynist góður þegar sjúkdómurinn greinist áður en hann nær að dreifa sér út fyrir brjóstið eða ná miklu ummáli.  Séreinkenni krabbameinsfrumna, vegur einnig þungt þegar kemur að því að segja fyrir um hver árangurinn af meðferð kann að verða og hugsanleg ævilengd.

Tilhneigingin virðist vera sú að konur sem greinast með brjóstakrabbamein á meðgöngu séu með lengra gengið krabbamein en aðrar konur sem greinast. Af þessum sökum töldu margir læknar áður fyrr að ófrískar konur með brjóstakrabbamein tækju illa við meðferð. Flestar rannsóknir sýna hins vegar að þær bregðast jafn vel við og aðrar konur á sama aldri, með sömu tegund brjóstakrabbameins og á sama stigi.

Rannsóknir eru fáar

Hafa verður í huga að örugg meðganga kvenna með brjóstakrabbamein eða þeirra sem einhvern tíma hafa farið í meðferð við brjóstakrabbameini er erfitt rannsóknarefni. Næstum ómögulegt er að finna konur með sams konar krabbamein á sama stigi og með sömu þungunarniðurstöður sem unnt er að bera saman við handhófshóp í klínískri rannsókn. 

Þær upplýsingar sem til eru um öryggi á meðgöngu eru fengnar úr rannsóknum sem gerðar voru á fyrirliggjandi staðreyndum og ná aftur í tímann. Í þessum rannsóknum skoðuðu rannsakendur sjúkraskýrslur kvenna á barneignaaldri sem höfðu greinst með brjóstakrabbamein. Niðurstöðurnar voru annars vegar bornar saman við konur sem voru barnshafandi þegar þær greindust eða urðu þungaðar eftir að þær höfðu greinst og hins vegar konur sem ekki voru eða urðu barnshafandi.

Hafa þarf hugfast að fjöldi kvennanna sem rannsóknirnar náðu til var mjög lítill — aðeins nokkur hundruð talsins. Nýjar rannsóknir á þessum atriðum kynnu að breyta því sem nú er best vitað.

Sérkenni brjóstakrabbameinsfrumna á meðgöngu

Til eru margar mismunandi tegundir brjóstakrabbameina og hvert og eitt þeirra hefur sín eigin sérkenni. Hvaða tegundir brjóstakrabbameins virðast koma upp meðan á meðgöngu stendur eða fljótlega eftir meðgöngu? Eru þær ágengari eða síður ágengar en frumur í öðrum brjóstakrabbameinum? Eru þær líklegri eða síður líklegar til að bregðast við ákveðnum meðferðum?

Rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna að þær tegundir brjóstakrabbameins sem koma upp á meðgöngu eða fljótlega eftir hana eru mjög líkar þeim sem finnast hjá konum sem ekki eru barnshafandi. Almennt á það við að flest brjóstakrabbamein eiga upptök sín í mjólkurgangi fremur en í mjólkurkirtli. Rannsóknir gefa til kynna að þetta eigi einnig við um brjóstakrabbamein sem myndast á meðgöngu.

Sumar rannsóknir benda til þess að líklegra sé að brjóstakrabbamein sem greinist hjá barnshafandi konum hafi sáð sér út fyrir brjóstið þegar það greinist. Þetta kann að stafa af því að aukið blóð- og hormónaflæði hjá barnshafandi  konum auðveldi brjóstakrabbameinsfrumum að sá sér. Önnur skýring er sú töf sem kann að verða á því að brjóstakrabbamein sé greint hjá ófrískum konum. Þreifist hnútur í brjósti barnshafandi konu er hann hugsanlega, með röngu, talinn stafa af eðlilegum breytingum á brjóstinu vegna meðgöngunnar, en ekki krabbameinsæxli. Af þeirri ástæðu kunna konur eða læknar þeirra að draga það að láta taka sýni úr brjóstinu þar til æxlið hefur stækkað eða frumur úr því dreift sér.    

Staða hormónaviðtaka

Eitt sérkenni brjóstakrabbameina er staða hormónaviðtaka.  Brjóstakrabbameinsfrumur með hormónaviðtökum bregðast vel við andhormónalyfjum 

Þó nokkrar rannsóknir hafa leitt í ljós að meiri líkur eru á að brjóstakrabbamein barnshafandi kvenna séu hormónaviðtaka-neikvæð, (þ.e.a.s. að á frumunum sé ekki óeðlilegur fjöldi hormónaviðtaka) en mein kvenna sem ekki eru barnshafandi. Hins vegar er mögulegt að krabbamein barnshafandi  kvenna hafi í raun hormónaviðtaka, en þeir finnist ekki, ýmist vegna þess hve hormónastaðan er há á meðgöngu eða vegna aðferðarinnar sem stuðst er við til að ákvarða stöðu þeirra.

Til að mæla hormónaviðtaka nota meinafræðingar oft s.k. bindilmælingu. Í þess konar rannsókn er hormónunum estrógen eða prógesterón veitt að sýninu sem er til rannsóknar. Síðan er mælt hve mikið af hormónunum bindur sig við hormónaviðtakana á krabbameinsfrumunum. 

Hjá ófrískum konum eru hins vegar margir af þessum viðtökum þegar ásetnir vegna þess mikla hormónamagns sem berst með blóðrásinni vegna þungunarinnar.

Við það kann svo að bætast að þegar mjög mikið af hormónum finnst í líkamanum, verði hormónaviðtakarnir svo yfirþyrmdir af öllum hormónunum sem sækja að þeim að þeir „skelli við þeim skollaeyrum". Það gerist þannig að frumurnar loka fyrir hormónaviðtakana til að losna við „hávaðann". Þegar lokast fyrir hormónaviðtaka er ekki unnt að telja þá. *Í myndinni sem hér er dregin upp er litið svo á að hormónaviðtakar séu eins konar „eyru" á frumunum.

Af ofangreindum ástæðum kann það að gerast að rannsókn á hormónastöðu hjá barnshafandi konu sýni að meinið sé hormónaviðtaka-neikvætt, þótt í ljós komi að konan bregst vel við andhormónalyfjum að meðgöngu lokinni. Nýlega hafa meinafræðingar tekið að nota annars konar rannsókn til að komast að því hver hormónastaðan er. Þessi rannsókn kallast IHC-rannsókn og er IHC skammtöfun úr ImmunoHistoChemistry, þ.e. andefnalitun vefja (en hún felst í að greina vaka í vefjasneiðum með notkun ensímtengdra mótefna og litlausra hvarfefna sem falla út og mynda lit í návist ensímsins). Magn hormóna sem berst með blóðrás hefur ekki áhrif á þessa tegund rannsóknar.

Ein rannsókn sýndi að hormónaviðtaka-NEIKVÆÐAR niðurstöður úr meinarannsókn á æxli úr brjóstum barnshafandi kvenna snerust við og urðu hormónaviðtaka-JÁKVÆÐAR þegar stuðst var við IHC aðferðina.

Greinist þú með brjóstakrabbamein á meðgöngu og meinið er greint sem hormónaviðtaka-neikvætt, gætir þú viljað fá að vita hjá lækni þínum hvaða aðferð var beitt til að fá fram niðurstöðuna. Hafi verið stuðst við bindilmælingu, gæti verið ástæða til að rannsaka sýnið aftur með IHC-mælingu. Þetta er mikilvægt atriði því það getur haft áhrif á hvaða meðferð þú færð við krabbameininu þegar þú ert búin að fæða.

 

HER2 staða

Annað mikilvægt atriði í sambandi við greiningu er s.k. HER2-staða. Krabbameinsfrumur með of mörg eintök af HER2 arfberanum eða of marga HER2-viðtaka, hafa tilhneigingu til að skipta sér hratt. Einnig er talið að þessi tegund auki líkurnar á að krabbameinið dreifi sér. Hins vegar er til lyf sem virkar mjög vel á þessa tegund krabbameinsfrumna og heitir trastuzumab (Herceptin®).

Til eru tvær leiðir til að rannsaka HER2-stöðuna,  önnur er IHC-rannsókn (ImmunoHistoChemistry), andefnalitun vefja, og hin er s.k. FISH-rannsókn (Fluorescence In Situ Hybridization), staðbundin þáttapörun. Hjá barnshafandi konum kann að draga úr nákvæmni IHC-rannsóknar því að magn HER2 prótína í blóði vex yfirleitt eftir því sem lengra líður á meðgöngu. Það þýðir að IHC-mæling á HER2-stöðunni kann að sýna að krabbameinið sé HER2-jákvætt (og þá gæti Herceptin® reynst áhrifamikið lyf) þegar það er í rauninni HER-2 neikvætt.

FISH-rannsóknin er áreiðanlegri leið til að rannsaka HER2-stöðuna hjá öllum konum, þar með töldum þeim sem eru barnshafandi. Greinist þú með brjóstakrabbamein á meðgöngu, biddu þá um að HER2-staðan sé könnuð með FISH-rannsókn.   

ÞB