Byrja blæðingar aftur eftir lyfjameðferð?

Haldi mánaðarlegar blæðingar áfram mestallan tímann sem meðferð með krabbameinslyfjum stendur yfir, eru líkur á áframhaldandi frjósemi meiri en ella.

Hafi mánaðarlegar blæðingar hætt, fara líkurnar á því að þær hefjist á ný  eftir aldri þínum, tegundum krabbameinslyfja og þeim skömmtum sem þú færð.

Sértu yngri en 35 ára eru töluverðar líkur á að blæðingar hefjist á ný eftir hálft ár, en þó gæti liðið allt að eitt ár þar til það gerist. Hjá sumum konum getur það jafnvel tekið upp undir tvö ár. Því lengri tími sem líður þar til blæðingar byrja á ný, þeim mun meira má búast við að hafi dregið úr frjósemi.

Annað atriði sem gæti haft áhrif á hve fljótt blæðingar byrja á ný er spurningin um hvort þú tekur inn tamoxifen.  Það lyf kann að lengja þann tíma sem líður áður en blæðingar hefjast aftur og þær kunna að verða óreglulegar þegar þar að kemur. Þegar staðan er þannig er ekki alveg að marka hve langur tími líður áður en blæðingar hefjast og erfitt að spá fyrir um frjósemi í framtíðinni.  

Blóðrannsókn sem sýnir hvort þú ert komin úr barneign

Þegar liðið er hálft ár frá lokum meðferðar geturðu látið kanna hormónastöðuna. Svona rannsókn er töluvert nákvæm og getur skorið úr um hvort þú ert komin úr barneign.  

Sýni niðurstöðurnar að þú ert ekki komin yfir tíðahvörf gæti það þýtt að þú sért enn frjó. Það þýðir hins vegar ekki að það verði jafn auðvelt fyrir þig að verða barnshafandi og fyrir meðferð. Jafnvel þótt blæðingar byrji á ný er frjósemi þín að líkindum minni. Það kann að hafa dregið úr frjóseminni ýmist við krabbameinslyfjameðferðina, af völdum yfirstandandi móthormónameðferðar eða einfaldlega vegna þess að þú ert svolítið eldri en þú varst. 

Með ýmis konar blóðrannsóknum má mæla magn mismunandi hormóna í líkamanum og kanna með því hvort þú ert komin úr barneign:

  • eggbúsörvandi hormón (follicle-stimulating hormone - FSH),

  • gulbúsörvandi hormón (leuteinizing hormone - LH) og 

  • östradíól 

Hjá konum í barneign vex og dvínar magn þessara hormóna í takt við tíðahringinn. Þeir örva eggjastokkana til að framleiða egg mánaðarlega. Framleiðsla þessara hormóna hættir þegar eggjastokkarnir hafa brugðist við með því að búa egg undir egglos. Síðan hefst framleiðsla þeirra á ný með nýjum tíðahring.

Séu eggjastokkarnir hins vegar komnir yfir tíðahvörf, bregðast þeir ekki við hormónunum og heilinn heldur eftir sem áður áfram að senda út boð um að framleiða meira. Það þýðir að magn þessara hormóna er alltaf mikið og hættir að aukast og minnka á víxl. 

Hefjist blæðingar ekki aftur að lokinni krabbameinslyfjameðferð — og magn eggbúsörvandi hormóns (FSH), gulbúsörvandi hormóns (LH) og östradíóls er hátt að sex mánuðum liðnum — er viðbúið að eggjastokkarnir séu hættir störfum. Líklegt er að þú verðir ófrjó áfram. Þó er ekki ómögulegt að mánaðarlegar blæðingar kunni að hefjast á ný.

Stundum er magn FSH og LH enn hátt að hálfu ári liðnu frá krabbameinslyfjameðferð, en kann að minnka síðar í það magn sem eðlilegt er hjá konum í barneign og þar með byrja blæðingar á ný. Það er erfitt að lifa í svona óvissu, en staðreyndin er sú að ekki liggja fyrir nægar rannsóknir til að segja neitt með vissu.

Notaðu tímann á meðan þú bíður þess að reglulegar blæðingar hefjist á ný til að ná fullri heilsu. Jafnvel þótt þær hefjist innan hálfs árs, myndu flestir læknar eftir sem áður mæla með að þú biðir með að reyna að verða barnshafandi í að minnsta kosti hálft ár frá því að krabbameinslyfjameðferðinni lauk. 

Ef og þegar reglulegar blæðingar hefjast á ný

Þótt þú sért aftur farin að hafa reglulega á klæðum og hafir beðið þess að læknarnir gæfu grænt ljós á að þú reynir að verða barnshafandi, kanntu eftir sem áður að hafa gagn af því að fara í frjósemismeðferð vegna þess að þú kannt að fara inn í tíðahvörf fyrr en gerst hefði, ef ekki hefði komið til meðferðar með krabbameinslyfjum. 

Ástæðan er sú að krabbameinslyf kunna að skadda óþroskuð egg í eggjastokkum. Rannsóknir hafa einmitt sýnt að því færri óþroskuð egg sem finnast í eggjastokkum, þeim mun fyrr fara konur úr barneign.

Þess vegna er mælt með því að allar konur sem eru frjósamar áður en þær fara í meðferð við brjóstakrabbameini — og langar til að eignast einhvern tímann barn eða börn — ræði við frjósemissérfræðing ÁÐUR EN þær hefja meðferð. Með því að ræða við sérfræðing færðu allar þær upplýsingar sem þú þarft á að halda til að ákveða hvað þú átt að gera til auka líkur þínar á að verða barnshafandi einu sinni eða oftar eftir að hafa farið í krabbameinsmeðferð. 

ÞB