Geislameðferð og frjósemi

Geislameðferð á brjóst hefur engin áhrif á frjósemi. Rétt er samt að þú látir geislalækni þinn vita, hafir þú í huga að verða þunguð að lokinni meðferð.

Ætlir þú þér að fresta öllum tilraunum til að verða barnshafandi þar til töluverður tími er liðinn frá því krabbameinsmeðferð lauk, ætti geislameðferðin ekki að hafa nokkur áhrif á frjósemi þína í framtíðinni. 

Sé þér hins vegar mikið í mun að verða ófrísk síðar meir og læknir þinn telur að krabbameinslyfjameðferðin kunni að setja af stað snemmbúin tíðahvörf, gæti verið ástæða til að þú farir í frjósemismeðferð  ÁÐUR EN þú ferð í krabbameinsmeðferð. Í því gæti falist að taka úr þér egg, frjóvga þau (*ef maki eða sæðisgjafi er fyrir hendi) og geyma þar til eftir meðferðina.  

Egg sem ætluð eru í þessa tegund frjósemismeðferðar ber að taka áður en geislameðferð hefst. Ástæðan er sú að egg sem eru að þroskast og búa sig undir egglos kunna að verða fyrir örsmáum skömmtum af geislum sem dreifast út frá meðferðarsvæðinu (brjóstinu).

Þótt þú frestir geislameðferð um fáeinar vikur til þess að unnt sé að ná eggjum sem hafa örugglega ekki orðið fyrir neinum geislum, er ólíklegt að það hafi áhrif á árangur geislameðferðar.

Reyndar er ólíklegt að sá örsmái geislaskammtur sem kann að dreifast frá brjóstinu hafi einhver áhrif á óþroskuð egg sem enn eru í eggjastokkum. Það eru þau egg sem munu losna þegar meðferðin er af staðin. 

 

*Málsgrein með stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB