Verður þú ófrjó af lyfjunum?

Svarið við þessari mikilvægu spurningu veltur á tvennu:

1. Það fer eftir aldri

Eftir því sem konur eldast þeim mun færri frjó egg verða til í eggjastokkunum. Þegar konur nálgast fimmtugt (meðaltal), taka eggjastokkarnir að framleiða sífellt færri fullþroska egg þar til framleiðslan stöðvast alveg. Þá er konan komin úr barneign.

Hvort starfsemi eggjastokka stöðvast og konan fer inn í snemmbúin tíðahvörf er einnig mjög háð aldri:

 • Því yngri sem konan er þeim mun meiri líkur eru á að eggjastokkarnir taki að framleiða egg á ný þegar meðferð með krabbameinslyfjum er að baki.

 • Því nær sem konur eru þeim aldri sem venjulegast er að þær fari inn í tíðahvörf (51), þeim mun líklegra er að þær fari alveg úr barneign og geti ekki orðið barnshafandi eftir meðferð með krabbameinslyfjum.

 • Þegar kona hefur náð 35 ára aldri verður hún viðkvæmari en áður fyrir því að eggjastokkar hætti alveg starfsemi eftir meðferð með krabbameinslyfjum. Það á enn frekar við eftir að hún verður fertug.

 

2. Það fer eftir því hvaða krabbameinslyf eru notuð

Vitað er að sum krabbameinslyf hafa áhrif á möguleika kvenna til að verða barnshafandi. Hins vegar eru rannsóknir á þessu sviði takmarkaðar og oft erfitt að gefa hverri einstakri konu hugmynd um líkur hennar á að verða ófrísk eftir meðferð.

Hér er það sem er vitað með vissu:

 • Snemmbúin tíðahvörf sem stafa af krabbameinslyfjum kunna að reynast tímabundin. Með öðrum orðum, þá hætta blæðingar kannski alveg, en byrja svo aftur þegar líður frá meðferð. Það geta liðið nokkrir mánuðir og allt upp í ár áður en blæðingar hefjast að nýju.

 • Líklegra er að konur sem fá tiltölulega stóra skammta af krabbameinslyfjum verði framvegis ófrjóar en konur sem fá smærri skammta.

 • Sum krabbameinslyf (frumudrepandi lyf), einkum s.k. alkýl-lyf, geta valdið tiltölulega meiri skaða á eggjastokkum en önnur. Því eru þau sett í samband við aukna hættu á ófrjósemi. Algengasta dæmið um þessa tegund krabbameinslyfja er cyclophosphamide (Cytoxan®). Önnur krabbameinslyf, þar á meðal methotrexate, hafa lítil áhrif á frjósemi að því er séð verður.

 • Hér fara á eftir nöfn nokkurra algengra brjóstakrabbameinslyfja sem raðað er eftir því hve mikil áhrif þau hafa á frjósemi:

Mikil hætta á ófrjósemi
Cyclophosphamide

Miðlungshætta á ófrjósemi:
Cisplatin (Platinol®), doxorubicin (Adriamycin®)

Lítil eða engin hætta á ófrjósemi:
Methotrexate, 5-fluorouracil, vincristine

 • Taxan-lyf er tiltölulega nýr flokkur krabbameinslyfja sem hafa reynst mjög árangursrík við meðferð brjóstakrabbameins. Í þessum flokki eru lyfin paclitaxel (Taxol®) og docetaxel (Taxotere®). Til þessa hefur lítið verið um rannsóknir á áhrifum þessara lyfja á frjósemi, en af því að dæma sem reynslan hefur sýnt til þessa virðist óhætt að setja þau í flokk með lyfjum sem lítil eða engin hætta er á að valdi ófrjósemi. Mikilvægt er að hafa í huga að krabbameinslyf eru yfirleitt ekki gefin stök heldur fleiri en eitt sem eiga að vinna saman. Þá gætu áhrif þeirra á frjósemi breyst. Einnig er til í dæminu að sama lyf sé gefið í mismunandi skömmtum ásamt mismunandi öðrum lyfjasamsetningum. Talaðu við krabbameinslækni þinn og/eða frjósemissérfræðing, og fáðu að vita hvaða hugsanleg hætta á ófrjósemi fylgi því að fá lyf sem sett hafa verið inn á meðferðaráætlun fyrir þig. 

 • Að meðaltali fær um helmingur kvenna undir 35 ára aldri blæðingar aftur þegar meðferð með krabbameinslyfjum er að baki. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að líkurnar eru mjög mismunandi frá einni konu til annarrar og fer eftir því hvers konar lyf eru gefin og í hve stórum skömmtum.  

 • Konur sem hafa reglulega á klæðum eftir meðferð með krabbameinslyfjum geta auðveldlega orðið barnshafandi. Sumar kunna aftur á móti að eiga í erfiðleikum með það. Það stafar af því að krabbameinslyf geta skaðað óþroskuð egg í eggjastokkum. Rannsóknir hafa jafnframt sýnt að því færri óþroskuð egg sem finnast í eggjastokkunum, þeim mun fyrr fer konan úr barneign.

 • Þegar þú færð blæðingar á ný, táknar það að einhver egg hafa þroskast. Fjöldi þeirra eggja sem ná þroska kann hins vegar að vera mun minni en verið hefði ef ekki hefði komið til meðferð með krabbameinslyfjum. 

 • Þar sem krabbameinslyf kunna að valda fæðingargöllum, mæla læknar með að þess sé vandlega gætt að nota getnaðarvarnir (þó ekki pilluna) á meðan á meðferð stendur, þannig að engin hætta sé á þungun á þeim tíma.  

 • Krabbameinslyf geta valdið genaskemmdum á eggjum sem eru að þroskast. Þótt þú finnir fyrir sterkri löngun til að verða ófrísk fljótlega eftir krabbameinslyfjameðferð, munu læknar ráðleggja þér að bíða. Mikilvægt er að gefa líkamanum að minnsta kosti hálft ár eða meira til að jafna sig á ýmsum hliðarverkunum lyfjanna. Egg sem hafa þurft að þola krabbameinslyf þurfa tíma til að koma sér í samt lag.

 • Rannsóknir standa yfir á möguleikum þess að bæla starfsemi eggjastokka í því skyni að vernda egg konunnar meðan á krabbameinslyfjameðferð stendur. Hins vegar eru um þetta mjög skiptar skoðanir og er eitthvað sem ekki er vert að treysta. (Sjá hér að neðan.)

 

Bæling eggjastokka meðan á krabbameinslyfjameðferð stendur

Unnt er að stöðva starfsemi eggjastokka tímabundið eða bæla hana meðan á krabbameinslyfjameðferð stendur. Sumir telja að sú ráðstöfun geti stuðlað að því að verja óþroskuð egg fyrir skemmdum af völdum krabbameinslyfja. Hins vegar greinir sérfræðinga mjög á um þetta atriði og til þessa hafa ekki verið birtar neinar áreiðanlegar læknisfræðilegar rannsóknir sem renna stoðum undir þessa hugmynd á einn eða annan veg. 

Til eru þeir læknar sem einnig hafa áhyggjur af því að lyfin sem notuð eru til að bæla starfsemi eggjastokka kunni að draga úr eða trufla það hlutverk krabbameinslyfja að tortíma krabbameinsfrumum. Ástæðan er sú að krabbameinslyf (frumudrepandi lyf) hafa mest áhrif á krabbameinsfrumur þegar þær eru að vaxa og skipta sér. Lyfin sem eru notuð til þess að bæla starfsemi eggjastokka gætu hugsanlega einnig stöðvað eða hægt á vexti brjóstakrabbameinsfrumna og gert þær þannig ónæmari fyrir krabbameinslyfjum en ella. 

Lyf sem notuð eru til að bæla starfsemi eggjastokka kallast GnRH-lyf (Gonadotropin-Releasing Hormone). Gónadótrópín er efni sem örvar kynkirtla, s.k. kynhormónakveikja. Meðal þeirra eru goserelin (Zoladex®), leuprolide (Lupron®) og lyfið triptorelin (Trelstar®).

Þessi lyf loka fyrir (blokkera) gónadótrópín, sem er hormón sem verður til í heilanum og segir eggjastokkum að búa sig undir egglos. Egglos verður þegar eggjastokkar senda frá sér fullþroskuð egg sem eru tilbúin til frjóvgunar. Þegar lokað er á gónadótrópín á ekkert egglos sér stað.  

ÞB