Tamoxifen og frjósemi
Segjum að þú sért nýbúin í meðferð með krabbameinslyfjum og tilbúin að verða þunguð, en læknir þinn segir að þú eigir að byrja að taka inn lyfið tamoxifen. Tamoxifen er móthormónalyf sem minnkar líkur á að krabbamein tak sig upp hjá konum með hormónaviðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein.
Framkallar tamoxifen tíðahvörf?
Þótt lyfið valdi hitakófum, þá framkallar það ekki tíðahvörf. Um það bil 20% kvenna fá óreglulegar blæðingar af lyfinu, en hjá fæstum hætta mánaðarlegar blæðingar alveg.
Tamoxifen mun ekki framkalla snemmbúin tíðahvörf nema þú sért hvort eð er að komast á breytingaaldur. Yfirleitt fer líkaminn aftur í sama far og hann var þegar þú hættir að taka inn tamoxifen.
Tamoxifen er stundum notað sem frjósemislyf
Tamoxifen stöðvar ekki egglos – þvert á móti örvar það egglos. Það á trúlega við jafnvel þótt um sé að ræða þá litlu daglegu skammta sem gefnir eru gegn brjóstakrabbameini. Í stærri skömmtum er lyfið gefið sem frjósemislyf.
Frjósemissérfræðingar nota stundum tamoxifen til að örva eggjastokka til að framleiða fleiri egg hjá konum sem eru að reyna að verða ófrískar. Við þær aðstæður fylgist frjósemislæknirinn mjög náið með egglosi og frjósemi konunnar.
Er óhætt að taka inn tamoxifen fyrir þungun og á meðgöngu?
Almennt gildir sú regla að konur sem ekki eru undir eftirliti frjósemissérfræðings ættu ekki að taka inn tamoxifen séu þær barnshafandi eða að reyna að verða það. Hugsanlega lætur læknir þinn þig fara í þungunarpróf til að ganga úr skugga um að þú sért ekki barnshafandi þegar þú byrjar meðferð með tamoxifeni.
-
Reyndu ekki að verða barnshafandi á meðan þú tekur inn tamoxifen. Tamoxifen getur valdið fósturskaða. Notaðu áreiðanlega getnaðarvörn sem ekki er hormónatengd svo sem smokk eða hettu ásamt sæðisdrepandi kremi á meðan þú tekur inn tamoxifen og líttu á það sem hluta af krabbameinsmeðferð þinni. Haltu áfram að nota sams konar getnaðarvörn í 2 mánuði eftir að þú lýkur meðferð með tamoxifeni, jafnvel þótt þú fáir ekki blæðingar reglulega. Gerðu engar tilraunir til þungunar fyrr en að minnsta kosti tveimur mánuðum liðnum frá því að meðferð með tamoxifeni lauk.
-
Sértu þunguð nú þegar skaltu ekki byrja meðferð með tamoxifeni.
-
Takir þú inn tamoxifen og telur að þú sér hugsanlega barnshafandi, skaltu þegar í stað hætta að taka inn lyfið og hafa samband við lækni þinn.
Það kann að vera svolítið ruglandi að heyra ýmist talað um tamoxifen sem frjósemislyf eða lyf sem kunni að skaða fóstur í móðurkviði. Þegar tamoxifen er notað sem frjósemislyf er það gert í því skyni að örva eggjastokkana til að búa fleiri egg undir egglos. Á þeim tímapunkti hafa eggin enn ekki verið frjóvguð. Tamoxifen skaðar ekki ófrjóvguð egg. Eftir að egg hefur frjóvgast og verður að fósturvísi, getur tamoxifen haft skaðleg áhrif. Þegar þar er komið hefur frjósemin þegar sannað sig. Þess vegna er talið óhætt að taka inn tamoxifen áður en til þungunar kemur, en eftir að konan er orðin þunguð, er það ekki óhætt.
Kostir og gallar tamoxifens með tilliti til þungunar og meðgöngu
Lykilspurning sem þarf að leggja fyrir krabbameinslækninn er þessi: „Hve mikilvægt er að ég taki inn tamoxifen til að draga úr líkum á að krabbameinið taki sig upp?"
Sé það metið svo að það komi þér að gagni að taka inn tamoxifen, skaltu gera það að minnsta kosti þann tíma sem þú ert hvött til að bíða með að verða barnshafandi. Tvö ár á tamoxifeni er betra en ekkert og fimm ár eru betri en tvö.
Sértu komin á miðjan fertugsaldur, gætir þú hugsanlega tekið upplýsta áhættu: Ákveðið að taka inn tamoxifen í tvö ár, hætta á lyfinu og reyna að verða barnshafandi.
Að vandlega yfirveguðu ráði og eftir ítarlegt samráð við lækni þinn, gætir þú komist að þeirri niðurstöðu að það gagn sem þú hefðir af að taka inn tamoxifen væri takmarkað — og ákveðið að sleppa því.
Þú gætir einnig ákveðið að taka inn tamoxifen í þau fimm ár sem mælt er með að lyfið sé tekið. Með því að bíða í fimm ár með að verða barnshafandi ertu hugsanlega orðin fertug þegar þú hættir á lyfinu og það dregur úr möguleikum þínum á að ganga með og ala eigið barn. Þú gætir þá hugsanlega ákveðið að ættleiða barn. Síðar meir, fáir þú á ný reglulegar blæðingar, gætirðu reynt að verða ófrísk og ganga með og ala barn sem væri líffræðilegt afkvæmi þitt.
Hafi egg eða fósturvísar frá því fyrir krabbameinsmeðferð verið geymdir, er sá möguleiki fyrir hendi að taka inn tamoxifen í fimm ár, jafnvel þótt þú verðir komin yfir fertugt að þeim tíma liðnum. Ástæðan er sú að aldur þinn á þeim tíma þegar fósturvísunum væri komið fyrir skiptir ekki nándar nærri jafn miklu máli og aldur þinn þegar eggin voru tekin.
Til er önnur leið, sem ekki er talin lögleg hér á landi enn sem komið er, og það er að fá staðgöngumóður til að ganga með fósturvísa sem hafa verið frystir, vilji konan ekki bíða í fimm ár með að eignast barn.
ÞB