Hvernig virka frjósemismeðferðir?
Allar konur sem fara í krabbameinslyfjameðferð við brjóstakrabbameini eiga það á hættu að verða ófrjóar. Sá möguleiki er þó fyrir hendi að þú getir gert ráðstafanir sem gera þér kleift að ganga með og ala barn jafnvel eftir að eggjastokkarnir hætta að framleiða egg.
Eggheimta
Einn möguleikinn er sá að taka þroskuð egg úr eggjastokkunum áður en meðferð við brjóstakrabbameini hefst. Sé ekki gripið til þess ráðs að nota frjósemislyf mun aðeins nást að heimta eitt egg, í mesta lagi tvö, í hverjum tíðahring. Séu notuð frjósemislyf má ná allt að átta til tíu eggjum. Hins vegar eykur notkun frjósemislyfja mjög estrógenmagn líkamans og það kann að örva vöxt krabbameinsfrumna.
Af þessum sökum eru læknar og rannsakendur nú að skoða þann möguleika að nota tamoxifen og aromatase-hemla — eina sér eða ásamt hefðbundnum frjósemislyfjum — í því skyni að gera hvort tveggja í senn að örva eggjastokkana og verja líkamann gegn of miklu estrógeni.
Þegar tamoxifen eða aromatase-hemlar eru notaðir á þennan hátt eru lyfin gefin í stórum skömmtum í fáeina daga. Það er mjög ólíkt því sem gerist í krabbameinsmeðferð þar sem þau eru gefin í litlum skömmtum á löngum tíma. Þessi aðferð við frjósemismeðferð er enn á tilraunastigi. Til þessa hafa rannsóknir sýnt að eggjaframleiðslan eykst án þess að líkur á að brjóstakrabbamein taki sig upp aukist að sama skapi, að minnsta kosti fyrstu árin eftir meðferð.
Glasafrjóvgun
Eggin sem heimtast má frjóvga í tilraunaglasi með sæði maka þíns eða sæðisgjafa eftir atvikum. Það er gert á rannsóknarstofu. Frjóvguð egg vaxa á stuttum tíma og verða að örsmáum fósturvísum sem síðan eru frystir.
Þegar krabbameinsmeðferð er lokið og þú ert tilbúin til að ganga með þótt blæðingar hafi ekki byrjað á ný, er fósturvísunum komið fyrir í legi þínu. Oftast er reynt að koma ekki fleiri en tveimur eggjum fyrir í einu til að koma í veg fyrir fjölburafæðingu. Hvaða fjölda fósturvísa sem vera skal — eða engum — kann að vera komið fyrir með þeim árangi að þeir taki að vaxa.
Að frysta egg
Einhleypar konur — án sérstaks maka eða kynlífsfélaga — geta tekið þann kost að láta frysta ófrjóvguð, fullþroska egg. Hins vegar sýnir reynslan að erfitt getur reynst að frjóvga eggin þegar þau hafa verið þídd — og þunganir heppnast aðeins í um 2% tilfella á hvert egg. Hins vegar kann tækninni að fleygja fram á næstu fáu árum. *Hérlendis er ekki boðið upp á þessa þjónustu enn sem komið er.
Að frysta eggjastokkavef
Verið er að gera tilraunir með að taka eggjastokkavef og frysta hluta sem inniheldur óþroskuð egg. Þegar konan er reiðubúin að verða barnshafandi að lokinni krabbameinsmeðferð er eggjastokkavefnum komið fyrir á ný í líkama hennar.
Mjóar ræmur af eggjastokkavef eru þíddar (affrystar) og græddar ýmist við mjaðmagrind eða handlegg. Hugmynd og von manna er sú að nýjar æðar nái að myndast og vefurinn muni framleiða hormóna og eggin þroskast. Þegar eggin hafa náð því stigi að vera tilbúin undir egglos (þ.e. frjóvgun) er hugmyndin sú að fjarlægja þau og frjóvga með smásjárfrjóvgun og koma þeim síðan fyrir í leginu. Til þessa hafa mjög fáir fósturvísar orðið til á þennan hátt og ekkert barn hefur verið getið með þessu móti.
Gjafaegg
Ákveðir þú að láta ekki taka egg eða eggjastokka og geyma, má leita að eggjagjafa. Gjafaegg má frjóvga með sæði maka eða sæðisgjafa og koma fyrir í legi þínu.
Mun frjósemismeðferðin virka?
Árangur frjósemismeðferða er breytilegur frá einni miðstöð til annarrar. Hann er einnig háður aldri þínum. Yngri konur eiga auðveldara með að verða ófrískar en þær sem eldri eru. Árangurinn minnkar áberandi mikið hjá konum eftir fertugt.
Hver sem aldur konunnar er þá skiptir máli sá fjöldi eggja og fósturvísa sem unnt er að fá. Því fleiri sem heimtast þeim mun meiri líkur eru á að konan verði barnshafandi í framtíðinni.
Konum sem hafa aðgang að fleiri en einni stöð er ráðlagt að fá upplýsingar um hvert er hlutfall vel heppnaðra frjósemismeðferða á stöðinni áður en þær fara sjálfar í meðferð. Þar sem best tekst til þungast um helmingur allra kvenna undir fertugu (50%), en hjá þeim sem eldri eru getur hlutfallið farið niður fyrir 20%. *Hérlendis er aðeins um eina stöð að ræða eftir því sem best er vitað, ArtMedica.
Frjósemismeðferð þar sem notaðir eru frystir fósturvísar skilar um það bil 33% lakari árangri en þegar notaðir eru nýir fósturvísar. Flestar konur sem eru á leið í meðferð við brjóstakrabbameini þurfa að láta geyma egg eða fósturvísa til síðari tíma. Það þýðir að þau eða þá þarf að frysta.
Farir þú í frjósemismeðferð EFTIR að meðferð við brjóstakrabbameini er lokið og þú ert reiðubúin að verða barnshafandi, er unnt að sækja og frjóvga ófrosin egg með smásjárfrjóvgun og koma fyrir ferskum fósturvísum.
*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.
ÞB