Líkur á ófrjósemi
Sérhver kona lítur á hættu á ófrjósemi í ljósi eigin bakgrunns, vona sinna og væntinga. Hugsanlega veistu ekki hvort þú getur eignast börn — alveg án tillits til brjóstakrabbameinsins. Hugsanlega hafðir þú í huga að eignast þitt fyrsta barn um miðjan fertugsaldur þegar frjósemin er minni en um tvítugt. Hugsanlega hefurðu farið í frjósemismeðferð í tengslum við fyrri meðgöngu og átt alveg eins von á því að erfitt geti reynst að verða þunguð á ný. Svo er líka til í dæminu að þér hafi hingað til þótt nóg að líta í áttina að maka þínum til að verða ólétt (eða þannig...) og þú veltir þá kannski fyrir þér hvort það muni eitthvað breytast við meðferðina.
Ræddu við lækni þinn um við hverju þú mátt búast. Segi læknir þinn þér að líkur á að þú verðir ófrjó eftir meðferð séu mjög litlar, geturðu sleppt taki á því áhyggjuefni og einbeitt þér að þeim málum sem snerta krabbameinsmeðferðina.
Séu miklar líkur á að þú verðir ófrjó eftir krabbameinslyfjameðferð eða bjartsýnisspár duga ekki til að róa þig, skaltu afla þér frekari upplýsinga áður en þú byrjar í meðferð við brjóstakrabbameini. Fáðu viðtal hjá frjósemissérfræðingi. Með viðtali við þannig lækni geturðu fengið meira að vita um áhættuna og hvernig bregðast má við líkum á ófrjósemi af völdum krabbameinsmeðferðar.
Konur á leið í krabbameinsmeðferð fá yfirleitt forgang og þurfa ekki að bíða eftir að komast í viðtal. Biddu krabbameinslækni þinn að fá tíma fyrir þig hjá frjósemissérfræðingi. Þú átt rétt á að tekið sé tillit til þess að þú ert á leið í krabbameinsmeðferð og getur ekki beðið, en til þess að það gerist þarf að biðja um slíkan forgang.
*Krabbameinslæknar á LSH (Landspítala-Háskólasjúkrahúsi) geta vísað þeim sem eru að fara í krabbameinsmeðferð (hvort sem það eru karlar eða konur) á sérfræðinga sem hafa reynslu af að taka við þeim sem greinast með krabbamein og hafa áhyggjur af frjósemi sinni. (*Hér gildir að láta vita af þessu áhyggjuefni svo að lækni þínum sé ljóst að þetta er eitthvað sem skiptir þig máli.) Á viðkomandi stofu eða læknastöð þarf jafnframt að vera fyrir hendi nauðsynleg tækni til að gera það sem gera þarf í hverju tilviki svo sem að heimta egg (eða sæði hjá körlum) og varðveita til síðari tíma.
Mörgum spurningum varðandi ófrjósemi má fá svarað með því að tala við kensjúkdóma- og fæðingarlækni. Það á einkum við þar sem ekki er greiður aðgangur að frjósemissérfræðingi. Skynsamlegt getur verið að lesa sér til eftir því sem kostur er á netinu og afla eins mikilla upplýsinga og tök eru á. *Þú þarft aðeins að hafa í huga að ýmislegt á netinu kann að vera misvísandi og jafnvel rangt, sé það ekki að finna inni á áreiðanlegum vefsvæðum.
Fyrirtaks vefsvæði á ensku er t.d. Fertile Hope, samtök sem starfrækt eru í því skyni að hjálpa krabbameinssjúklingum sem standa frammi fyrir vandamálum tengdum frjósemi.
Þú getur— og ættir — að fresta í stuttan tíma að fara í krabbameinslyfjameðferð eða geislameðferð þar til þú hefur afgreitt þessi mál. Að fresta meðferð í vikutíma í því skyni að ræða spurningarnar sem brenna á þér og afla nauðsynlegra upplýsinga er skynsamlegt og þeim tíma er vel varið. Í flestum tilfellum mun svo stutt frestun ekki stofna heilsu þinni í hættu.
Reyndu að fá tíma hjá sérfræðingnum fyrir næstu reglulegu blæðingar. Það er mikilvægt því að sumar frjósemisaðgerðir þarf að hefja um leið og blæðingar byrja. Hittir þú lækninn ekki fyrr en eftir að þú hefur haft á klæðum í þrjá sólarhringa, gætirðu þurft að bíða í heilan mánuð með að fara í frjósemismeðferð. Það gæti tafið krabbameinsmeðferðina enn frekar. Spyrðu krabbameinslækni þinn hvort slík töf sé í lagi eða áhættusöm. Síðan þarf að samþætta frjósemismeðferðina hverjum einstökum lið krabbameinsmeðferðarinnar.
*Yfirlesari þessarar greinar telur ekki skipta máli hvar konan er stödd í sínum tíðahring - aðalatriðið sé að koma sem fyrst í viðtal. Grein þessi var lesin yfir af Guðmundi Arasyni, lækni og frjósemissérfræðingi hjá Art Medica.
*Tilvera er hagsmunasamtök fólks sem á við ófrjósemi að stíða.
*Málsgreinar merktar stjörnu eru innskot þýðanda.
ÞB