Með barneign í huga

Flestir læknar ráðleggja að velja meðferð við krabbameini fram yfir það að eignast barn. En þú þarft ekki endilega að taka eitt fram yfir annað. Þótt þú setjir krabbameinsmeðferð í forgang eru engu að síður góðir möguleikar á að þú getir eignast barn.

Fáðu lækni þinni til að finna með þér og útskýra fyrir þér þau atriði sem skipta máli til að skilja heildarmyndina  í þínu tilfelli. Hugleiddu svo perónulegar óskir þínar og áhyggjuefni um leið og þú setur þér fyrir sjónir hvað kæmi barninu best sem þú vonast eftir að eignast.

Sértu í föstu sambandi þá skiptir afstaða makans einnig máli þegar kemur að því að taka ákvörðun. Þú þarft að skoða hug þinn afar vel til að komast að því hvað skiptir þig mestu og geta lagt línurnar fyrir framtíðina.

Spurningar sem þarf að svara eru meðal annars:

  • Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að eignast barn? Hverjar eru væntingar þínar?

  • Eru horfur þínar nógu góðar til að þú getir leyft þér að vonast eftir að verða móðir í framtíðinni?

  • Reynist lífslíkur þínar takmarkaðar, er þá öruggt að hitt foreldrið muni ávallt elska og annast barnið eða aðrir í fjölskyldu þinni, kannski báðir aðilar? Hefurðu rætt þetta mál við einstaklingana sem í hlut eiga? 

  • Er óhætt fyrir þig að verða barnshafandi?

  • Gætir þú hugsað þér ættleiðingu eða að fá gefin egg sem leið til að verða foreldri?

Svarið við þessum spurningum og ákvaðanir sem þessar eru afar persónulegar. Þær endurspegla samband þitt við maka þinn og ættingja, gildismat þitt, öryggisnetið í kringum þig, efnahag þinn og starfsframa svo og menningarlegan bakgrunn.

Læknir þinn getur hjálpað þér með að gefa í grófum dráttum mynd af horfum þínum (hve vel þér muni vegna eftir meðferð), hvort hættulaust sé fyrir þig að verða barnshafandi og fleira sem þú kannt að spyrja um. Þegar öllu er á botninn hvolft ert það þó aðeins þú ásamt maka þínum sem getur tekið þá ákvörðun að eignast barn.

Á ensku er til bók sem er talin ómissandi fyrir þá sem þurfa að glíma við þessar ótrúlega erfiðu spurningar. Hún heitir Sexuality and Fertility after Cancer og er eftir Dr. Leslie Schover (John B. Wiley & Sons, 1997). Þekking Dr. Schover, skilningur og samkennd í umfjöllun um þessi mál ber vott um mikið innsæi og getur á uppbyggilegan hátt gert þér auðveldara að átta þig á hvað skiptir þig mestu og taka ákvörðun.

Á ensku er einnig mjög góð heimasíða: Fertile Hope, sem er starfrækt af samtökum sem helga sig því að hjálpa krabbameinssjúklingum sem sjá fram á ófrjósemi. 

 ÞB