Að takast á við hármissi

Þegar hárið byrjar að detta af þér og þynnast gæti þér þótt gott að láta klippa það mjög snöggt og sjá hvernig þér líkar að hafa hárið þannig.

Skyldir þú missa allt hárið eru til ýmsar leiðir til að fela það. Eða þú lætur sem ekkert sé og sýnir skallann. Það getur verið töff. Hárlaust höfuð og áberandi augnmálning og stórir áberandi eyrnalokkar getur verið virkilega flott.

Flestar konur kjósa þó að hylja bert höfuðið á einhvern hátt – og halda á sér hita. Þá er spurning hvað þér líður best með: hárkollu, klút, hatt, derhúfu og/eða allt þetta.

Hármissir og börnin

Frá þeim degi að börn fara að rétta út hendurnar og grípa um hluti hafa þau yndi af að grípa í hár móður sinnar. Það er hluti af þeirri hlýju og næringu frá umhverfinu sem ungbörn þurfa á að halda, einkum og sér í lagi við brjóst- eða næringargjöf. Þegar börnin stækka finnst stúlkum oft gaman að vera í hárgreiðsluleik með mömmuna sem módel og strákarnir hafa gaman af að toga í hárið, sérstaklega ef hún er með tagl. Því er mjög eðlilegt að börnum geti þótt það erfitt þegar móðir þeirra missir hárið. Ung börn kunna að halda að mamma sé með einhvers konar “hárveiki” af því að þau sjá aðeins að hún hefur misst hárið.

Reyndu að undirbúa börnin þín áður en til þess kemur að hárið dettur af og fullvissaðu þau um að það eigi eftir að vaxa aftur. Leyfðu þeim að hjálpa þér við að velja hárkollu eða höfuðklúta.

Sum börn verða hrædd við hárlaust höfuð móður sinnar. Því jákvæðari sem þú og maki þinn eruð vegna skallans, þeim mun betra. Séu börnin nógu stór geturðu lagt áherslu á hvað þér finnst þetta lítið mál með því að vera berhöfðuð. Haldi þau áfram að vera hrædd, þrátt fyrir viðleitni þína, getur verið ráðlegt að hylja höfuðið þegar þau eru nærri.

Hármissir og makinn

Hár veitir kynþokka – það er engin leið að líta framhjá því. Að missa hárið getur gert það að verkum að þér finnst þú síður aðlaðandi eða eggjandi. Auðvitað má vera að náið samband þitt við makann eða nýjan félaga sem þú átt eftir að kynnast sé algjörlega óháð útliti. Útlit er í aukahlutverki þegar kemur að heildarmyndinni sem laðar fólk hvert að öðru.

Þú og maki þinn þurfið að sætta ykkur við þær breytingar sem verða á líkama þínum, þar með talið að þú missir brjóst, að hluta eða í heild. Hugsanlega geturðu nýtt sömu aðferðir til að takast á við lítið eða ekkert hár á líkamanum. Eigir þú karlkyns maka eða félaga getur hann að öllum líkindum einnig vanist því – þegar allt kemur til alls veit hann nákvæmlega hvað þú ert að ganga í gegnum ef hann er sjálfur orðinn miðaldra eða meira.

Alveg eins og margar konur velja blúndusamfellur eða annan undirfatnað til að hylja skurðinn er einnig hægt að vefja slæðum um höfuðið og fjarlægja þær hægt og rólega til að gefa til kynna að þú sért í skapi til að njóta ásta. Hugsaðu um það eins og hluta af þínum eigin sjöslæðudansi. Þú getur ímyndað þér að þú sért Ístar, hin forna súmeríska gyðja sem steig niður í undirheima og dansaði til að frelsa elskhuga sinn, Tammuz, og afhjúpaði fegurð sína smám saman með því að kasta slæðunum einni af annarri. Það er ævinlega áhrifaríkt að afhjúpa ekki allt í einni andrá!

 ÞB