Hárkollur

Í stuttu máli

*Sjúkratryggingar Íslands greiða styrk til kaupa á hárkollu (og/eða höfuðfötum), fölskum augnahárum o.fl. gegn framvísun kvittana. Ekki er endurgreitt fyrir hvaðeina sem þér gæti hugkvæmst að nota sem höfuðfat eða höfuðskraut og því skaltu, áður en þú leggur í fjárútlát, kynna þér vel hvaða kostnað stofnunin er tilbúin að endurgreiða.

Fyrir margar konur er hárkolla lausnin. Kona sem gengið hefur í gegnum krabbameinsmeðferð kann að vera góður ráðgjafi í hárkollumálum. Þess eru dæmi að konur missi á innan við mánuði brjóst og allt hár, þar með talin augnahár og augabrúnir. Erfitt er að takast á við slíkt, en þannig kona veit hversu mikilvægt það er að eiga fallega hárkollu.

*Sjúkratryggingar Íslands greiða s.k. hárkollustyrk. Krabbameinsæknir þinn útbýr beiðni sem þú getur lagt fram á viðurkenndum útsölustað í stað greiðslu. 

Þegar skipt er við ofangreint fyrirtæki þarf ekki að leggja út fyrir kostnaði að því marki sem TR ákveður og nægilegt að leggja fram beiðni frá lækni.


Búðu þig undir hárkolluna

 • Sértu með sítt hár, láttu þá klippa hárið stutt áður en lyfjameðferðin hefst. Það fær minna á þig að horfa á eftir stuttum hárbrúskum en síðum – og verður auðveldara að máta hárkollu yfir minna hár.

 • Látir þú klippa þig stutt, þarftu ekki að bíða jafnlengi eftir því að finnast þú vera farin að líkjast sjálfri þér á ný. Stutt hár er ekki heldur jafn heitt og sítt hár – sem er mikilvægt því það getur orðið heitt undir hárkollunni að sumarlagi eða í heitum híbýlum.

 • Stutthærð kolla er auðveldari í meðförum og auðveldara að hirða hana og því verður ekki eins erfitt fyrir þig að venjast því að ganga um sinn með hárkollu af svipaðri sídd og hár þitt er, látir þú klippa þitt eigið hár stutt.

 • Skoðaðu tímarit á hárgreiðslustofum eða í tímaritahillum bókabúðanna til að velja klippingu sem myndi klæða þig.

 • Talaðu við hárgreiðslumeistara. Hugsanlega ættirðu að panta tíma einungis til að tala við meistara áður en til þess kemur að þú lætur klippa þig.

Að finna hárkollu

Hvernig finnurðu hárkollu? Ýmsar leiðir eru færar:

 • *Á göngudeild LSH má fá upplýsingar um hvar hægt er að fá hárkollur, upplýsingar er einnig að finna í handbók sem þú færð afhenta í upphafi meðferðar svo og hér að ofan.

 • Hugsanlegt er að hárgreiðslumeistarinn þinn geti bent þér á hvar hægt er að fá fallega hárkollu. Hárkollumeistarar eru nokkrir starfandi á landinu, en hugsanlega er of dýrt fyrir þig að láta handgera hárkollu fyrir þig, viljir þú það helst.

 • Hugsanlega áttu vinkonur eða vini sem geta gefið þér góð ráð.

 • Margar hárgreiðslustofur bjóða sérstaka hárkolluþjónustu þannig að þegar þú hefur valið þér hárkollu getir þú látið greiða hana á ýmsa vegu.

Getir þú komið því við, skaltu velja hárkollu ÁÐUR EN lyfjameðferð hefst. Þá hefur þú meiri orku, auk þess sem hárkollumeistarinn á auðveldara með að átta sig á náttúrlegum háralit þínum og greiðslu. Þú getur þá líka vanið þig við að nota hárkolluna stutta stund í einu á milli þess sem þú hvílir þig á henni.

Hárkollur eru framleiddir í öllum hugsanlegum gerðum og litum. Hárkolla úr ekta mannshári er dýr og hana þarf að hirða betur en eigið hár.

Flestar konur velja hárkollur úr gervihári. Þær líta vel út og eru þægilegar viðkomu auk þess sem ekki þarf að hugsa jafn vel um þær og kollur úr mannshári. Þær eru einnig mun ódýrari. Hægt er að kaupa hárkollur á netinu, en því fylgir auðvitað sá ókostur að ekki er hægt að máta áður en gengið er frá kaupunum.

Veldu eins góða hárkollu og þú telur þig hafa ráð á (*mundu að þú færð hárkollustyrk frá TR). Þú vilt örugglega kollu sem ekki sjást augljósar skiptingar í, verður ekki flókin eða er erfitt að hirða. Hún má heldur ekki líta út eins illa gerður hártoppur. Hún þarf að passa vel á höfuðið sem er enn ein ástæðan fyrir því að fara með kolluna á hárgreiðslustofu þótt þú þurfir ekki á henni að halda enn sem komið er.

Þú þarft líka að vera viss um að hún sé þægileg og ekki fóðruð að innan með efni sem þig fer að klæja undan. (Flestar hárkollur eru nefnilega gerðar fyrir konur (og karlmenn) með hár á höfðinu.) Hafðu í huga að þótt þig klæi ekki undan henni þegar í stað, getur það breyst, sérstaklega við hækkandi hitastig. Þú skalt því gera meira en bara bregða henni á þig.

Þótt þú notir hárkollu nánast daglega, sýnir reynslan að fæstar konur þurfa á henni að halda lengur en í mesta lagi ár, svo ekki er þörf á að kaupa eitthvað sem endist lengi. Til að halda hárkollunni fallegri eins lengi og hægt er skaltu hvíla hana endrum og sinnum og nota þá vefjarhött, klút, hatt eða buff. Svo skaltu fara með hárkolluna á stofu endrum og sinnum til að láta einhvern sem hefur lært handbragðið þvo hana og greiða.

Heilræði:

Komist þú yfir sívalan brúsa með sléttum botni, er tilvalið að skera ofan af honum og setja ofan á hann uppblásna blöðru eða bolta af hæfilegri stærð til að nota sem hárkollustand. Einnig er hægt að fá keypta tiltölulega ódýra kollustanda úr frauðplasti.

Svona er hirt um hárkollur

Hárkollur eru mótaðar með lausum lykkjum sem hleypa lofti að botninum. Þær eru mótaðar með stillanlegu teygjubandi að aftan og fóðruðum vír við eyrun. Auðvelt er að þvo þær (mælt er með að þvo þær hálfsmánaðarlega) og hægt er að forma þær með því að nota gel eða hárlakk. Þú skalt samt ekki reyna að þurrka hárkollu með hárblásara eða krullujárni. Hiti mýkir límið og veldur því að kollan missir lögun sína við hita. Farðu líka varlega yfir pottum og pönnum. Ekki er alveg óheyrt að konur hafi sviðið lokkana þegar þær voru að taka steik úr ofninum!

Að velja sér hárkollu

Trúlega er liturinn það sem mestu máli skiptir við val á hárkollu. Veldu þér ívið ljósari lit en er á þínu eigin hári af tveimur ástæðum:

 • Ekki er ólíklegt að húðlitur þinn daprist við lyfjameðferðina – hann getur orðið grár, grænleitur eða gulleitur. Minni andstæður milli húðlitar og háralitar eru venjulega klæðilegri og draga ekki fram hörundslitinn.

 • Yfirleitt er hár í hárkollu grófara en þitt eigið hár. Þannig að þótt litblærinn kunni að vera sá sami og á þínu eigin hári, kemur kollan til með að virka dekkri.

Íhugaðu hvort þú eigir ekki að fá þér hárkollu sem kemur þér í gott skap þegar þú lítur í spegil og segir þeim sem sér þig að allt sé í fínu lagi með þig. Prófaðu nýjan lit, nýja sídd, nýja greiðslu. 

*Málsgreinar merktar stjörnu eru innskot þýðanda.

ÞB