Hvenær vex hárið aftur?

Þetta sagði hún:

“Hárið á mér var alltaf slétt og þunnt en þegar það tók að vaxa aftur fékk ég þykkt og hrokkið hár. 'Hárið á þér er svo æðislegt!?' sagði kunningjakona mín, 'hvar léstu laga það?' ´Á Paoli Merorial sjúkrahúsinu,' svaraði ég hlæjandi."

— Gerry

Svarið veltur á meðferðinni: Krabbameinslyfjameðferð, geislun á heilasvæði, eða andhormónameðferð með tamoxifeni.

Hafir þú farið í krabbameinslyfjameðferð er líklegt að það gerist svona:

  • Tveim til þrem vikum eftir að meðferðinni lýkur kemur svolítil ló.

  • Mánuði síðar fer að vaxa venjulegt hár á eðlilegum hraða.

  • Eftir tvo mánuði má búast við að hárið sé orðið 2 cm langt.

Hve langan tíma það tekur höfuðhárin að vaxa aftur (skapahár, augabrúnir og augnhár hafir þú einnig misst þau) er mjög einstaklingsbundið.

Yfirleitt er það þannig að hárið sem dettur fyrst af er það hár sem tekur fyrst að vaxa. Hárið á höfðinu vex hraðar en augnhár og augabrúnir.

Nýja hárið kann að vera alveg eins og gamla hárið en það getur líka verið þykkara, liðaðra eða sléttara en hárið sem þú misstir. Hugsanlega er það einnig öðruvísi á litinn. Konur sem hafa lengi látið lita á sér hárið eða meðhöndlað það á annan hátt muna ef til vill ekki alveg hvernig hárið var upprunalega litt og verða oft undrandi þegar þær sjá nýja litinn og finna hvernig hárið er viðkomu. Að lokum gerist það yfirleitt að hárið verður eins og áður þegar áhrifa lyfjameðferðar á hársekkina hættir að gæta.

Hafir þú misst hárið eftir að hafa verið geisluð á höfði gegn meinvörpum í heila geta liðið allt frá fjórum mánuðum upp í hálft ár áður en nokkurt hár fer að vaxa. Líklegt er að hárið verði þynnra en áður og hugsanlega verður lítill skallablettur á hvirflinum. Kannski væri því rétt að geyma hárkolluna eða annað sem þú varðst þér úti um til að grípa til við sérstök tækifæri.

Hafi hárið á þér tekið að þynnast eftir að þú hófst tamoxifenmeðferð, jafnar það sig venjulega eftir fyrsta árið. Hugsanlegt er þó að hárið verði þunnt á meðan þú tekur lyfið, en það getur þú þurft að gera í allt að fimm ár.

Þú getur notað Rogaine (efnafræðiheiti: minoxidil) gegn hárþynningu af völdum tamoxifens. Lyfið er öruggt og áhrifaríkt en fyrirhafnarsöm dagleg aðgerð – og dýr.

Afar sjaldgæft er – en kemur þó fyrir – að hárið vaxi ekki aftur eftir margra ára stífa krabbameinslyfjameðferð: Hársekkirnir “gefast upp” og hætta að starfa svo það vex ekki nýtt hár. Mundu að þetta ástand er mjög sjaldgæft. Sértu ein þeirra  örfáu kvenna sem ekki fá hárið aftur, getur það tekið talsvert langan tíma að komast yfir missinn og hætta að syrgja hárið. Aftur á móti getur þú þess í stað orðið sérfræðingur í hvernig hægt að líta vel út og vera aðlaðandi engu að síður og hjálpað öðrum konum sem hafa nýverið misst hárið að sigrast á erfiðum tilfinningum sem fylgja því.

ÞB