Hvers vegna hárið dettur af og hvernig

Hárið dettur af vegna þessa að lyfin sem notuð eru í lyfjameðferðinni ráðast á allar frumur líkamans sem fjölga sér hratt – hvort sem þær eru heilbrigðar eða krabbameinsfrumur. Hársekkirnir - sá hluti hársins sem situr í húðinni fylltur örfínum æðum og býr til hárið - eru meðal þeirra frumna líkamans sem vaxa hvað hraðast. Við venjulegar aðstæður skipta frumur hársekkja sér á einum til þremur sólarhringum. Þegar lyfin taka að virka á krabbameinsfrumurnar, eyðileggja þau hársekkina í leiðinni. Eftir fáeinar vikur í lyfjameðferð máttu búast við að missa eitthvað af hárinu eða allt hárið.

Sértu í krabbameinslyfjameðferð dettur hárið ef til vill af þér smátt og smátt en það getur líka gerst skyndilega: Allt í einu sitja stórar hárflyksur eftir í hárbustanum, lófafylli af hári í sturtubotninum eða á koddanum. Hvernig sem það gerist er það mjög óþægilegt og niðurdrepandi og þú þarft á miklum stuðningi að halda á meðan.

Sum lyf hafa aðeins áhrif á hárið á höfðinu. Önnur valda því að augabrúnir og augnhár, skapahár, hár undir höndum og á hand- og fótleggjum dettur líka af.

Hversu mikill hármissirinn verður er háð lyfjunum og öðrum meðferðum og hversu lengi lyfjagjöfin varir. Mismunandi tegundir krabbameinslyfja hafa mismunandi áhrif á hárið.

Hvernig meðferð eru tímasett hefur líka áhrif á það hvort eða hvernig þú missir hárið. Sum lyf eru gefin vikulega í litlum skömmtum og það framkallar ekki eins mikinn hármissi. Önnur lyf eru gefin þriðju eða fjórðu hverja viku í stærri skömmtum og þá er líklegt að þau valdi meiri hármissi.

Mismunandi krabbameinslyf

  • Adriamycin ("A"-ið í CAF lyfjameðferð ) hefur þau áhrif að allt höfuðhár dettur af, venjuleg á fyrstu vikum meðferðar. Sumar konur missa einnig augnhár og augabrúnir.

  • Methotrexate (“M”-ið í CMF lyfjameðferð) þynnir hár á sumum en ekki öllum. Sjaldgæft er að fólk missi allt hárið af þessu lyfi.

  • Cytoxan og 5-fluorouracil framkalla mjög lítinn hármissi hjá flestum konum, en sumar missa þó mikið hár.

  • Taxol framkallar venjulega algjöran hármissi, höfuðhárið dettur af, augnhár og augabrúnir svo og skapahár og hár á hand- og fótleggjum.

Aðrar meðferðir við brjóstakrabbameini geta einnig framkallað hármissi eins og til dæmis:

Geislameðferð

  • Geislameðferð framkallar einungis hármissi á þeim hluta líkamans sem er geislaður. Séu notaðir geislar til að meðhöndla brjóstið, dettur hárið ekki af höfðinu. Hár umhverfis geirvörtu kunna hins vegar að detta af hjá þeim sem hafa þau. Geislun á höfði sem notuð er til að meðhöndla meinvörp í heila framkallar venjulega algjöran hármissi á höfðinu.

Andhormónameðferð

  • Tamoxifen getur valdið því að hárið þynnist, en ekki algjörum hármissi.

Engu virðist breyta hversu vel konur hafa undirbúið sig og hversu tilbúnar þær telja sig vera til að mæta hármissinum, það er alltaf jafn hrikalegt áfall þegar hárið byrjar að detta af.

ÞB