Krabbameinslyf og umhirða naglanna

Á sama hátt og krabbameinslyf hafa áhrif á hár vegna þess hve frumur í hársekkjum skipta sér ört hafa þau einnig áhrif á neglur á tám og fingrum.

Hugsanlega má sjá línu á nöglum sem stendur í beinu sambandi við framvindu lyfjameðferðarinnar. Línan er ekki varanleg og vex fram með nöglinni, yfirleitt á um það bil hálfu ári. Hugsanlega má jafnvel sjá margar línur og dældir sem endurspegla umferðir í lyfjagjöf.

Neglur geta mislitast og fengið á sig bletti. Þær geta einnig orðið brothættari en áður þannig að þær ná ekki að vaxa í fyrri lengd og brotna auðveldlegar.

Húðin umhverfis neglurnar getur þornað og jafnvel sprungið og naglaböndin trosnað. Ekki rífa í lausa naglabandaenda. Klipptu þá varlega af með HREINUM naglaskærum.

Nögl getur einnig losnað frá naglastæði. Þetta ástand gengur eins og annað til baka en þú þarft að vera mjög varkár af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi er nöglin viðkvæmari en ella og gæti dottið af. Í öðru lagi getur það gerst þegar nögl situr ekki þétt á naglstæði, að þar skapist gróðrarstía fyrir bakteríur. Gættu ítrasta hreinlætis til að komast hjá sýkingu.

Að hirða vel um neglur er fyrsta stigs forvörn gegn sogæðabólgu, ástandi sem skapast þegar sogæðavökvi safnast saman í mjúkum vefjum handleggjar og veldur því að hann bólgnar. Hafi eitlar verið fjarlægðir úr handarkrika (í tengslum við fleygskurð eða brjóstnám), þarftu að vera sérlega varkár ef nögl skemmist, t.d. þannig að þú færð annögl (lausan húðflipa við naglrönd), skerð þig eða brennir á höndum eða fingrum. Allt getur þetta leitt til sýkingar.


Heilræði um naglhirðu

  • Klipptu neglurnar stuttar. Skemmdir eru minna áberandi á stuttum nöglum en löngum.

  • Ekki klippa eða skera burt naglabönd. Notaðu naglabandaeyði í kremformi eða geli og ýttu þeim varlega niður.

  • Ekki naga á þér neglurnar eða naglaböndin, sérstaklega ekki þeim megin sem veika brjóstið er. Eigir þú erfitt með að láta vera að naga, getur verið gott ráð að ganga með þunna bómullarhanska innanhúss til að hjálpa þér að losna við ávanann.

  • Nuddaðu naglabandakremi á naglaböndin daglega til þess að koma í veg fyrir að þau þorni, springi eða myndi annögl eða notaðu naglabandaolíu á þau. Olían er borin á eins og naglalakk.

  • Notaðu hanska við húsverk og gúmmíhanska við uppþvott og annað svo að þú þurfir ekki að dífa höndunum í vatn með efnum í eða óhreinindum. Mikið sull í vatni getur framkallað sveppasýkingu í naglstæði.

  • Notaðu naglalakk til að styrkja neglurnar og verja þær umhverfinu (og gera þær fallegri). Séu neglurnar mjög þurrar eða lausar gæti verið ráðlegt að nota naglanæringu í stað naglalakks.

  • Þurrar neglur geta orðið stökkari og viðkvæmari en ella á meðan á lyfjameðferð stendur. Þú skalt því nota naglalakkseyðir sem ekki inniheldur aceton. Hann þurrkar síður upp nöglina.

  • Ekki nota akrílneglur eða annars konar gervineglur. Þær geta auðveldlega laðað að sér bakteríur sem geta framkallað sýkingu.

  • Látir þú snyrta á þér neglurnar á stofu, skaltu taka með þér þín eigin áhöld jafnvel þótt allt bendi til að hreinlætis sé gætt á stofunni.

  • Fáðu ráð hjá hand- eða fótsnyrtifræðingi og frekari upplýsingar um hvað þú getur gert sjálf til að halda nöglunum heilbrigðum og sterkum.

  • Láttu lækni þinn vita samstundis verðir þú vör við bólgu á byrjunarstigi eða sýkingu.

  • *Springi húðin umhverfis neglurnar er áhrifaríkast að kaupa s.k. fljótandi plástur, vökva sem límir sárið saman. Svona sprungur geta orðið mjög þrálátar og því skaltu bregðast fljótt við ef þú sérð að það er að myndast sprunga við nögl.

  • *Þegar húð á höndum er mjög þurr er gott að bera feitt krem eða F-plús áburð á hendurnar, setja upp þunna bómullarhanska og sofa með þá.

  • *Annað ráð við þurri húð á höndum er að setja heitt vatn í skál og slurk af olíu, t.d. ólífuolíu eða F-plús áburði og vera í handarbaði í tíu til fimmtán mínútur. Þurrka síðan hendurnar vel og bera á þær góðan, heilnæman handáburð.

*Málsgreinar merktar stjörnu eru innskot þýðanda.

ÞB