Slæður, vefjarhettir, hattar og farði

Þú getur lært að binda slæður um höfuðið á margvíslega sniðuga vegu. Þú getur líka sett barðastóran hatt ofan á slæðu og þá er öruggt að ekkert bendir til að höfuðbúnaðurinn eigi að fela hármissi.

Vefjarhettir eru flottir og hylja allt höfuðið. Vefjarhöttur situr ekki bara ofan á höfðinu heldur hylur allt höfuðið og rammar inn andlitið. Efnisvalið ákvarðar síðan hvort túrbaninn er sparilegur eða hversdagslegur. Ólíkt slæðum og klútum þarf ekki að vefja hann um höfuðið og binda – þú dregur hann bara yfir höfuðið (eins og sundhettu). Þá verður þér ekki heldur kalt á höfðinu. *Hver man ekki eftir forsetafrúnni okkar heitinni, Guðrúnu Katrínu, hversu glæsileg hún var með vefjarhött á höfðinu.

Vefjarhöttur getur fallið þétt að höfðinu allan hringinn eða verið með uppásnúningi að framanverðu og svo eru þeir líka til efnismeiri og þá með fellingum. Auðvelt er að setja þá á sig og taka þá af, flesta má þvo og þeir eru tiltölulega ódýrir. *Sama máli gegnir um svokölluð "buff" sem fást í sportvöruverslunum. Það eru strokkar sem auðvelt er að draga yfir höfuðið og þeir eru nógu síðir til að láta þá liggja í fellingum. Svo má setja saman fleiri en eitt buff, nota annað sem grunn, hitt upprúllað eins og ennisband. Einnig er hægt að setja þá slétta á höfuðið og nota afgangslengdina til að útbúa eins konar tagl með glaðlegu teygjuskrauti. Útivistarfólk notar buffin sem hettur, ennisbönd eða um hálsinn. Þau eru heppileg til að hafa undir slæðu, bæði til að halda hita á höfðinu og halda slæðunni kyrri.

Hattar og húfur

Hekluðu húfurnar sem skreyttar eru með perlum eða pallíettum eru sérlega skemmtileg höfuðföt. Þær eru yfirleitt handgerðar og stærðin miðuð við hárlaust höfuð. *Söngkonan og dagskrárgerðarkonan Anna Pálína Árnadóttir gekk m.a. með svona húfur sem móðir hennar bjó til handa henni. Þær hafa stundum legið frammi til sýnis og sölu á göngudeild LSH við Hringbraut. Þú getur spurt um þær í afgreiðslunni hafir þú áhuga.

Þegar Jórunn missti hárið keypti hún sér margar töffaralegar húfur með stóru deri og var aldrei tvo daga í röð með sams konar derhúfu í vinnunni. Eftir fyrsta daginn gerðist það að vinnufélagar hennar mættu allir til vinnu með húfur með skyggni og gengu með þær þar til hún fékk hárið á ný.

Þetta er tækifæri þitt í lífinu til að vera dálítið villt. Hvort sem þú kýst að ganga með stráhatt eða charlestonkoll, skaltu láta eftir þér að herma eftir gömlu kvikmyndastjörnunum sem alltaf voru með glæsileg höfuðföt. Þú sérð ekki eftir því að kaupa nokkra hatta sem þér finnst klæða þig vel. Njóttu þess að vera eins og kvikmyndastjarna frá fimmta áratugnum eða persóna í kvikmynd eftir einhverri af sögum Agötu Christie.

Farði

Hverfi augabrúnir og augnhárin, finnst þér þú hugsanlega þurfa að nota farða til að fá svip á andlitið jafnvel þótt þú sért því ekki vön að mála þig. Fyrir þessu er áratuga hefð. Greta Garbo, fræg og fögur, rakaði t.d. af sér augabrúnirnar og teiknaði fagurlaga mjóa boga yfir augunum sem voru óaðskiljanlegur hluti af ímynd hennar.

Hér eru nokkur heilræði:

  • Byrjaðu á að fletta í gegnum nokkur góð tískublöð til að fá hugmyndir.

  • Æfðu handtökin og þreifaðu þig áfram fyrir framan spegil þar til þú finnur línur sem þér líkar.

  • Teiknaðu með mjúkum, léttum strokum meðfram augabrúnastæðinu með blýöntum af mismunandi litum til að gera línurnar eðlilegri útlits.

  • *Hafi augabrúnirnar aðeins gisnað en ekki dottið alveg af er tilvalið að dreifa brúnum eða brúngráum augnskugga á augabrúnirnar til uppfyllingar. Gættu þess aðeins að nota ekki of dökkan lit.

  • Notaðu augnskugga til að bæta upp augnháramissinn og prófaðu að draga mjóa línu á augnlokin til að skerpa augun.

  • Saknir þú þess sárlega að hafa ekki augnhár, prófaðu þá fölsk augnhár. Þú getur valið nett og lítt áberandi augnhár eða löng og mikil augnhár sem hægt er að blaka eins og þær eru frægar fyrir leikkonan Liza Minnelli og söngkonan Dolly Parton.

  • Forðastu að fá þér varanlegt húðflúr á augnlokið eða á augabrúnastæðið. Blekið sem notað er í þannig húðflúr kanna að innihalda málmkennd mólekúl sem geta brugðist við segulmögnun. Það getur gert MRI tölvusneiðmyndatöku erfiðari seinna meir. Hins vegar er óhætt að fá sér húðflúr á snyrtistofu sem er að öllu leyti úr náttúrlegum efnum (henna). Það hverfur smátt og smátt á tveimur til þremur árum.

  • Þegar hörundsliturinn breytist skaltu um fram allt breyta um lit á meikinu eða litaða dagkreminu þannig að hann fari vel við húðblæinn og litinn á hárkollunni.

  • Setjir þú á þig fölsk augnahár (t.d. við hátíðleg tækifæri) er ráð að draga línu með blautum “eye-liner” ofan á límið svo að það sjáist ekki.

Kannski ertu tilbúin að kosta á þig andlitssnyrtingu. Á snyrtistofum eru iðulega snyrtivörur til sölu, þar með taldar litavörur, og förðunarfræðingur á staðnum. Þá hefurðu tækifæri til að kaupa snyrtivörurnar að förðun lokinni og hefur lært handbrögðin. Iðulega er líka boðið upp á ókeypis förðun í snyrtivöruverslunum, stórmörkuðum og víðar. Kynntu þér hvað er í boði. Þú gætir þurft að kaupa snyrtivörur á staðnum, en það getur verið ómaksins og útgjaldanna virði. Snyrtistofur eru til sem aðeins nota náttúrlegar snyrtivörur, án aukaefna.

*Málsgreinar merktar stjörnu eru innskot þýðanda.

ÞB