Umhirða húðarinnar

Í stuttu máli

Það er fernt sem skiptir mestu máli í umhirðu húðarinnar:

 • Að hreinsa hana.
 • Að losa hana við dauðar frumur (með kremi eða burstun).
 • Að gefa henni raka.
 • Að verja hana (fyrir sól, veðri og mengun).

Á sama tíma og þú þarft að kljást við ömurlegan hármissi getur hugsast að þú sért líka miður þín yfir því hvernig húðin er orðin af meðferðinni, þurr og flagnandi.

Krabbameinslyf og húðhirða

Lyfjameðferð kann að hafa áhrif á eðlilegan raka húðarinnar af því að hún dregur úr framleiðslu fitukirtlanna. Þú getur létt undir með húðinni með því að bera oftar á þig rakagefandi krem eða nota krem með meiri raka en þú varst vön að nota fyrir meðferð. Á daginn skaltu nota áburð sem ver hörund þitt gegn áhrifum sólar og útfjólublárra geisla. Notaðu náttúrlega sápu án aukaefna og forðastu að nota sterka sápu.

Geislameðferð og húðvernd

Geislun á brjósti hefur í för með sér breytingar á húðinni:

 • Húðlitur allra breytist hver sem hann er frá náttúrunnar hendi: Ljóst hörund verður rautt, blakkt hörund verður blakkara eða grátt. Venjulega kemur þetta fram í litlum blettum eða á smáum svæðum. Geislun getur framkallað kláða, sviða og eymsl í húðinni. Hugsanlega flagnar húðin af eins og við sólbruna og skilur eftir bletti.

 • Sértu með stór brjóst eða í meðferð eftir brjóstnám, er hugsanlegt að vætli eða vessi úr svæðinu og myndist eins konar vessabólur, en venjulega takmarkast slíkt við ákveðna bletti eða svæði.

 • Venjulega grær húðin fljótt og að fullu. Roðinn hverfur fyrst. Sé hörund þitt ljóst, geta liðið nokkrar vikur áður en það fær aftur á sig eðlilegan lit.

 • Venjulegar freknur eða fæðingarblettir geta dökknað til muna við að verða fyrir geislun. Yfirleitt eru þessir blettir góðkynja en dökkna af völdum meðferðarinnar. Eftir að geislameðferð lýkur lýsast þeir yfirleitt aftur og verða eins og fyrr og sumir hverfa alveg.

Margs kyns húðvörur og lyf geta orðið þér að liði á meðan á meðferð stendur. Þar á meðal telst hreinn alóe vera áburður. (*Ekki er verra ef þú kemst í plöntuna sjálfa. Þá geturðu rist eitt og eitt blað eftir endilöngu og borið rakagefandi vökvann beint á húðina). Fleiri góð rakagefandi og græðandi krem eru til t.d. frá Apótekaranum og Urtasmiðjunni (Sóla) og eru þau unnin úr íslenskum jurtum og aukaefnalaus.

Á einhverjum tíma kanntu að hafa þörf fyrir einhverja tegund steraáburðar, t.d. 1% hydrokortison krem. Sumum konum gagnast ekkert minna en sterakrem af styrk sem þarf lyfseðil til að afgreiða. Spurðu lækni þinn hvort hann telji þörf á að þú leitir til húðsjúkdómafræðings.


Lyfjameðferð og sólskin

Húð sem hefur hlotið geislameðferð á fremur á hættu að þróa húðkrabbamein síðar meir. Því er mjög mikilvægt að gera sérstakar ráðstafanir til að vernda húð geislaða svæðisins fyrir sólargeislum.

Líklegt er að sá hluti brjóstanna sem liggur næst skorunni (þar sem brjóstin koma saman) lendi á meðferðarsvæðinu. Það er einmitt svæði sem sól nær að skína á þegar þú ert í sundfötum. Því skaltu gæta þess vandlega að nota rakakrem og húðkrem með að minnsta kosti 30 í sólvörn.

Farir þú í lyfjameðferð með flúorárasíl (5-FU), veitirðu því ef til vill athygli að þú verður miklu fljótari að taka lit. Þá er áríðandi að þú gerir enn frekari ráðstafanir til að verjast sól (á ensku).


Húð og sólvörn

Mestur sá skaði sem húðin verður fyrir með aldrinum tengist því að hún er of mikið og of lengi óvarin í sól . Sama má segja um húðkrabbamein – sólargeislar eru algengasta orsök þess. Húðkrabbamein er sú tegund krabbameins sem oftast finnst hjá fólki nú til dags. Það er t.d. ekki að ástæðulausu sem fólk hefur verið varað við að nota sólarlampa í óhófi.

Það tekur útfjólubláa geisla sólarinnar aðeins stundarfjórðung að skemma húðina jafnvel þótt það geti liðið hálfur sólarhringur áður en hún fer að sýna merki um sólbruna.

Alvarlegur sólbruni, einkum á æsku- og unglingsárum, getur aukið til muna hættu á að fá alvarlegt húðkrabbamein – illkynja sortuæxli - síðar á ævinni. Brjóstakrabbamein eykur samt ekki líkur á að þú fáir húðkrabbamein.

Þú þarft að verja húðina í hvert sinn sem þú ferð út fyrir dyr, jafnvel þótt skýjað sé og engin bein sól. Notaðu dagkrem með innbyggðri sólarvörn. Sólvarnarstuðullinn segir þér hversu lengi þú getir verið í sól án þess að brenna. Byrjir þú t.d. að brenna eftir 20 mínútur í sól, mun sólvarnarkrem með stuðulinn 2 verja húð þína í 40 mínútur. Sólvörn með stuðulinn 15 mun verja húðina í fimm klukkustundir (15 sinnum 20 = 300 mínútur).

Kannanir sýna að sólvarnaráburður með stuðulinn 30 gefur ljómandi vörn gegn skaðlegum útfjólubláum geislum. Hærri stuðull gefur ekki frekari vörn.

Þeir sem nota sólarvörn bera oft ekki á sig nema helming þess magns sem mælt er með. Það þýðir að þeir fá helmingi minni vörn en hefðu þeir fylgt forskriftinni. Með öðrum orðum: Notir þú helminginn af sólarvörn með stuðlinum 30, færðu jafngildi sólvarnar með stuðulinn 15.

Ekki láta varirnar verða útundan. Í þeim eru aðeins fáir fitu- og svitakirtlar og ekkert melanín (melanín framkallar brúna litinn á hörundið til að verja húðina sólskini). Þær eru því óvarðar gegn útfjólubláum geislum sem ræna þær rakanum. Í stað þess að nota varasalva sem inniheldur kamfóru, mentól eða fenól skaltu nota áburð sem heldur rakanum inni og veitir sólarvörn. Góður varalitur (án skaðlegra aukaefna) gerir einnig gagn.

Ýmis ráð til að varðveita heilbrigða húð og útlit

 • Temdu þér að sofa á bakinu, helst með hátt undir höfðinu. Það dregur úr þrotanum sem ber fyrir augu flestra okkar þegar við lítum í spegil að morgni dags.

 • Ekki reykja. Hiti og reykur frá sjálfri sígarettunni þrengir háræðar og veldur hrukkum. Ofnotkun á vöðvunum sem eru notaðir til að draga að sér reyk framkallar einnig fjöldann allan af hrukkum. Svo eru reykingar, eins og þú örugglega veist, áhættuþáttur krabbameins, fyrir utan svo margt annað sem mælir gegn þessari skaðlegu en löglegu neysluvöru.

 • Ekki nota neitt á andlitið sem inniheldur alkóhól. Það þurrkar húðina of mikið, jafnvel þótt hún sé feit fyrir.

 • Ekki þvo þér í framan oftar en tvisvar á dag nema þú hafir verið í líkamsrækt. Þá skaltu gæta þess að skola framan úr þér allan svita sem gæti annars þurrkað húðina um leið og hann gufar upp.

*Upplýsingar um innihald snyrtivara má m.a. finna (á ensku) inni á vefnum cosmeticsdatabase.com.

*Ekki gleyma að mataræðinu. Allt sem þú borðar og drekkur, hvíld, svefn, hreyfing og ýmislegt fleira hefur áhrif á húðina innanfrá.

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB