Kynlíf og nánd

Hjá mörgum konum valda krabbameinsgreining og krabbameinsmeðferð mikilli röskun á kynlífi. Ástæðurnar eru margvíslegar, en fyrst ber að nefna það sem liggur í augum uppi – breytt ytra útlit, þreytu, ógleði, verki vegna meðferðarinnar, breytta sjálfsmynd, tæmdar orkubirgðir og tilfinningalegt rót framkallað af sjálfri greiningunni. Þar að auki er margt annað sem hugsanlega þarf að takast á við sem konur og makar þeirra hafa ef til vill ekki hugmynd um.

Það getur engu að síður skipt sköpum fyrir bata að viðhalda nánd í sambandinu, bæði meðan á eldrauninni stendur, sjálfri meðferðinni og ekki síður eftir á. Einhleypar konur sem langar til að stofna til náinna kynna hafa hugsanlega einnig áhyggjur af því hvaða áhrif brjóstakrabbameinið kann að hafa á möguleika þeirra og hvernig og hvenær sé rétt að segja tilvonandi elskhuga frá veikindunum.

Kynlífsráðgjöf er veitt  á LSH, Landspítala- Háskólasjúkrahúsi.

Hægt er að lesa meira um þetta efni í bókinni Living Beyond Breast Cancer eftir Marisa Weiss, M.D. og Ellen Weiss.


ÞB