Að missa kynhvötina

Bagalegasta breytingin á kynlífi þínu er líklega sú ef kynhvötin hverfur. Þú hefur þegar misst hárið, brjóstin eru breytt eða horfin, þú hefur þyngst, þú hefur enga orku, ert þreytt, þér er flökurt og þú finnur til verkja þar sem þú hefur aldrei áður fundið til. Engin furða þótt þú hafir ekki áhuga á kynlífi.

Hugsanlegt er að hvatir þínar hafi breyst vegna sársauka í leggöngum sem afleiðing af lyfjameðferð, einkum á það við um ­beinmergsskipti. Sumar tegundir lyfjameðferðar geta tímabundið framkallað sár á slímhúð (í munni, hálsi, leggöngum og/eða endaþarmi). Líkamlegar breytingar geta einnig verið afleiðing af ótímabærum tíðahvörfum framkölluðum með lyfjum eða af tamoxifen andhormónameðferð eða af því að þú varðst að hætta að taka inn hormóna við tíðahvarfaeinkennum. Þegar þar við bætist sálrænt álag, er eðlilegt að þér finnist að kynlíf muni aldrei framar veita þér nokkra ánægju.

Ráðleggingar læknis eða vinkvenna sem hafa lent í því sama geta komið að gagni, en takmarkanir á kynlífi eru yfirleitt óhjákvæmilegar. Hins vegar má gera ráð fyrir að allt lagist þetta með tíð og tíma.

Þunglyndi og kynhvöt

Þunglyndi er algeng afleiðing bæði sjúkdómsgreiningar og læknismeðferð við brjóstakrabbameini og hvort tveggja hefur bein áhrif á kynlífsáhuga þinn. Þjáist þú af þunglyndi kann kynlíf að vera það síðasta sem þig langar í. (Þú getur jafnvel þróað með þér hreinustu óbeit á kynlífi). Næmur elskhugi skynjar þetta og dregur sig í hlé. Þegar þú svo hefur náð þér sýnir makinn hugsanlega engan áhuga á kynlífi og þú gerir þar með ráð fyrir að það sé vegna þess að honum finnist þú ekki lengur aðlaðandi.

Eigir þú við þunglyndi að stríða og tekst ekki að rífa þig upp úr því, þarftu á hjálp að halda. Íhugaðu hvort gæti hentað þér betur að fara til sálfræðings eða í stuðningshóp. Trúlega hefurðu heyrt um ágæti nýrra geðlyfja en þú þarft að fara varlega í þau. Sum þunglyndislyf framkalla kyndeyfð, þar á meðal eru Prozac® (efnafræðilegt heiti: fluoxetine) og Zoloft® (efnafræðiheiti: sertraline). Lyfjaskammtinn þarf að ákveða af varúð og stýra honum af þar til bærum aðila í heilbrigðisstétt (venjulega geðlækni). Réttur skammtur er mikilvægur og oft getur tekið tíma að finna þann skammt sem hentar. Mörg þessara lyfja skila heldur ekki árangri fyrr en eftir þrjár vikur eða meira þannig að þú finnir einhvern mun.

Þunglyndi er of íþyngjandi ástand og slæmt fyrir heilsuna að öðru leyti til að hunsa það, svo þú skalt fyrir alla muni leita hjálpar. Sumt getur tíminn einn EKKI læknað.

Hormónar og kynhvöt

Þú hefur hugsanlega orðið vör við að sífellt erfiðara verður að koma þér til og örva nægilega og ennþá erfiðara fyrir þig að fá fullnægingu. “Það tekur óratíma að fá eitthvað í gang,” eru ekki óalgeng ummæli. Þessi deyfðarlega svörun – ef hún rís þá undir því nafni – er umkvörtunarefni flestra. Þú þarft að vera ófeimin við lækni þinn svo að hann eða hún geti komið með tillögur um einhverjar læknisfræðilegar lausnir sem kynnu að duga. Missir kynlöngunar og kynorku getur verið bein afleiðing af minna östrógeni, progesteróni eða testosteróni í líkamanum sem brjóstakrabbameinsmeðferðin hefur framkallað.

Sé kynlífið vandamál, hentar þér ef til vill að reyna að draga úr mikilvægi fullnægingar, að minnsta kosti um tíma. Prófaðu að einbeita þér að því að upplifa ánægju af að snertast, kyssast og með því að nota hugmyndaflugið fremur en að upplifa beina samfarafullnægingu á meðan þú ert að ná þér. Með því að draga úr mikilvægi þess að fá fullnægingu í leggöng við samfarir geturðu beinlínis stuðlað að því að það gerist fyrr en varir.

Fyrir konur sem höfðu lítinn áhuga á eða fá tækifæri til að njóta kynlífs áður en þetta bar að höndum, þarf ekki að vera mikið vandamál að missa kynhvötina. Sé það vandamál, skaltu tala við lækninn um hvort hægt sé að mæla hormónabúskapinn. Kynhvöt kvenna er að vissu marki háð hormóninum testósterón (sem er aðalkarlhormóninn), framleiddur í eggjastokkum og nýrnahettunum. Örlítill skammtur dregur langt og sé þetta lagað, gæti það orðið til að endurvekja áhuga þinn á kynlífi.

Sé testósterónmagn í blóði innan eðlilegra marka (20-60 nanógrömm á desilíter), er ólíklegt að þú hafir gagn af að fá testósterón. Raunar er það svo að of mikið testósterón getur framkallað bólur, pirring og ýmis karlmannseinkenni svo sem hárvöxt í andliti og dýpri rödd. Auk þess er ekki vitað með vissu hvort óhætt er að gefa þeim konum testósterón sem hafa greinst með brjóstakrabbamein.

Sársauki, ógleði og kynlíf

Sársaukafullar samfarir geta eyðilagt áhuga þinn á kynlífi hraðar en nokkuð annað. Sár í leggöngum sem geta myndast við sumar tegundir lyfjameðferðar (t.d. 5-fluorouracil) eru aðalástæða þess háttar sársauka. Sárin geta einkum verið slæm hjá konum sem farið hafa í mergskipti, en þau hverfa þegar meðferðinni lýkur. Hjá konum með leggangaherpes getur sjúkdómurinn blossað upp sem afleiðing af streitu og veikluðu ónæmiskerfi. Sterar og sýklalyf geta framkallað gersýkingu í munni og leggöngum. Verkjalyf, einkum kvalastillandi deyfilyf eða svefnlyf, geta einnig dregið úr kynhvöt.

Tíðahvörf, hvort sem þau eru af eðlilegum ástæðum eða framkölluð með lyfjum, geta valdið því að leggangaveggir styttast og þynnast. Þurrkur í leggöngum (skortur á eðlilegum smurningi) er einnig fylgifiskur tíðahvarfa. Allt þetta getur stuðlað að sársauka við samfarir.

Ógleði með lyfjagjöf getur drepið niður áhuga þinn á hverju sem er, ekki síst kynlífi. Sum lyf sem gefin eru við ógleði draga auk þess úr löngun til kynlífs.

ÞB