Ráð við kyndeyfð: Örvun

Í stuttu máli

Bækur á ensku sem kunna að koma að gagni:

Sexuality and Fertility After Cancer, by Leslie R. Schover, Ph.D.

Living in the Postmastectomy Body: Learning to Live in and Love Your Body Again, by Rebecca Zuckweiler

Seven Weeks to Better Sex, by Domeena Renshaw, M.D.

Hjálpartæki:

www.evesgarden.com

Undirbúningur:

Áður en þú reynir að hafa samfarir er mikilvægt að þér líði vel, þú sért afslöppuð og því næst örvuð kynferðislega. Þín eigin þátttaka og virkni í forleiknum skiptir miklu máli.  Láttu vel að maka þínum með gælum af ýmsum toga. Sumir kynlífsráðgjafar leggja það til að pör læri að einbeita sér að því að hafa það þægilegt og leggi áherslu á forleikinn en fresti því að hafa samfarir þar til einhvern tíma síðar. Á þann hátt tekst pörunum að koma sér upp árangursríkri aðferð við forleikinn – einkum forleik þar sem kynfærin koma við sögu – sem hluta af kynlífshegðun sinni.

Forleikur er konunni mjög mikilvægur í því skyni að örva hana nægilega, einkum þó þær konur sem finnst sárt að hafa samfarir. Þá framleiðir skeiðin (leggöngin) náttúrleg sleipiefni, skeiðarveggirnir slakna, víkka og lengjast og það verður síður sárt að fá liminn inn. Kona er tilbúin til samfara þegar þessar breytingar hafa átt sér stað á sama hátt og karl er reiðubúinn þegar honum er risið hold.

Viagra kann að gagnast konum sem eiga erfitt með að örvast kynferðislega. Strangt til tekið er viagra ekki ástarlyf, en það getur hjálpað til við það sem jafnast á við ris karlmannsins með því að senda blóð til snípsins, skapanna (ytri kynfæranna) og skeiðarinnar (legganganna). Það getur orðið til þess að gera samfarirnar þægilegri og ánægjulegri. (Eigir þú ekki í neinum erfiðleikum með að fá fullnægingu, skaltu ekki búast við að þær magnist neitt við lyfið.) Búast má við að eftir nokkur ár verði ljóst hvaða áhrif viagra hefur á kynlíf kvenna. Spurðu lækni þinn út í þetta ef þú heldur að það geti gagnast þér.

Líði þér þannig að þér finnst þú ekki sérlega aðlaðandi eða eggjandi, getur það haft áhrif á og hindrað kynferðislega örvun eða virkað þannig að þú vilt geta lokið samförum af eins fljótt og auðið er. Ein leið til að sigrast á því vandamáli er að þú ímyndir þér að þú lítir út eins og þig gæti dreymt um, hvort sem það er eins og einhver glæsileg kvikmyndastjarna eða persóna úr rómantískri ástarsögu. Hugræn örvun er ekki síður árangursrík en líkamleg.

Örvun er einnig hægt að öðlast eða auka með kvikmyndum eða hjálpartækjum kynlífsins . Jafnvel íhaldsamasta fólk getur fengið jákvæða örvun með því móti. Auk tímaritanna sem eiga að vera utan seilingar í bókabúðum eru einnig til virðulegar handbækur um kynlíf sem liggja frammi og enginn þarf að vera feiminn við að kaupa. Einnig er hægt er að finna á netinu bækur og annað sem auðvelt er að panta. Hér er mælt með myndbandi eftir Lonnie Barbach sem heitir Cabin Fever. Því er sérstaklega ætlað til að uppfylla þessar þarfir og er allt í senn rómantískt, ástríkt og kvenlegt. Eftir sama höfund er einnig bók sem heitir Erotic Interlude sem hefur hjálpað mörgum sjúklingum.


Um hvað ertu að hugsa?

Áríðandi er að þú gerir þér grein fyrir hvað er í gangi í kollinum á þér við samfarir. Leitar einhver kynþokkafull mynd eða frásögn fram í hugann til að koma þér í rétta gírinn eða er hugurinn fullur af kvíða fyrir sársaukanum sem þú óttast eða áhyggjum af ógreiddum reikningum? Skiptu um rás í höfðinu: Hættu að hlusta á “Hér stóð bær” og skiptu yfir á “Ég veit þú kemur”.

Haltu dagbók yfir líðan þína yfir daginn. Hvenær finnst þér þú hafa mesta orku? Hvenær dregur af þér og þú verður úrill? Hvenær hugsarðu um kynlíf? Geturðu fundið eitthvert mynstur þannig að þú getir sagt fyrir hvenær líklegast er að þú sért tilbúin að taka þér tíma milli rekkjuvoðanna? Hvað um að þið látið ykkur hverfa um stund síðdegis? Eða takið ykkur tíma í morgunsárið? Sé dagsbirta eitthvað sem truflar þig, dregurðu bara gluggatjöldin fyrir.

Ekki treysta á að þið fáið tækifæri til að fara saman í leyfi til að hefja kynlíf ykkar á ný. Einn af kynlífsráðgjöfunum segir að ekki sé hægt að hugsa sér fljótlegri leið til að eyðileggja orlofið. Léttið á þrýstingnum og farið ykkur hægt. Betra er að hugsa sér einhvers konar örleyfi. Þá er tekið smáhlé frá daglegri rútínu með því til dæmis að loka svefnherbergisdyrunum tveimur tímum fyrr en venjulega og hengja skylti á hurðarhúninn með orðunum TRUFLIÐ EKKI.

Sé ekki unnt að koma þér til mun maka þínum finnast hann/hún að minnsta kosti að einhverju leyti bera ábyrgð á því og það mun hafa truflandi áhrif á samlíf ykkar. Staðreyndin er sú að það hefur iðulega meiri áhrif á makann að finna að konan örvast ekki frekar en að það vanti á hana brjóstið eða það sé öðruvísi í laginu en það var áður.

ÞB