Ráð við kyndeyfð: Sleipiefni

Svan er bandarískur hjúkrunar- og kynlífsfræðingur og hjálpar konum að fást við allskonar atriði sem tengjast kynlífi. Hún hefur sjálf lifað það að fá brjóstakrabbamein. Þegar hún er beðin um ráð handa konum sem farið hafa í meðferð við brjóstakrabbameini segir hún: “Astroglide og meira Astroglide.” Í leiðbeiningunum stendur að það eigi að bera það á lim karlmannsins, en það er um að gera að setja það líka í leggöngin og MIKIÐ AF ÞVÍ.”

“Að vera hál er af hinu góða,” segir læknirinn Dr. Margaret Deansley, sem gengið hefur í gegnum meðferð við brjóstakrabbameini. Maður verður að læra að nota “smurningu”, hvort sem það er lífrænt ræktuð sesamolía, Astroglide, K-Y Jelly eða eitthvert annað sleipiefni sem mikið úrval er af í lyfjabúðum.

Margar konur kjósa Astroglide af því að það smyrst vel og endist lengur en aðrar tegundir. Noti maki þinn smokk, máttu aðeins notað sleipiefni sem er vatnsleysanlegt. Sleipiefni sem gerð eru með olíubasa (vaselíni) geta eyðilagt smokka (auk þess sem vaselín ætti bara alls ekki að koma neins staðar nálægt líkamanum – allra síst í leggöngin).

Sumar konur telja að best sé að nota jógúrt (náttúrlega og án ávaxta!) – eitthvað sem þú þarft ekki að vera feimin við að kaupa og er auk þess ÓDÝRT. “Ég veit samt ekki hvernig mér liði með að setja jógúrt upp í leggöngin að kvöldi og fá mér svo jógúrt í morgunmat,” er haft eftir einni sem fór í brjóstnám. Ólífuolía virkar líka og auðvelt að nálgast hana, en má þó ekki nota með smokk fremur en önnur sleipiefni sem framleidd eru á olíugrunni.

Replens er rakagjafi sem hægt er að fá án lyfseðils og hjálpar leggangaveggjunum að halda í sér vökva. Þar af leiðandi hefur hann þau áhrif að vefurinn þykknar og getur betur staðist núning við samfarir. Replens er smurt inn í leggöngin þrisvar í viku fyrir svefn í nokkrar vikur. Replens getur gert samfarir þolanlegar, þægilegar og jafnvel unaðslegar. Í könnun sem gerð var urðu 80% kvenna varar við töluverða bót á einkennum sínum með því að nota Replens. Hins vegar getur það tekið marga mánuði að skila verulegum árangri og þú þarft að halda áfram að nota það til þess að viðhalda áhrifunum. Auk þess er það dýrt.

Æfðu þig í að nota hvers kyns sleipiefni kinnroða– og vandræðalaust eins og ekkert sé sjálfsagðara. Svona geturðu farið að því:

  • Byrjaðu á að nota það við forleikinn með því að bera það ríkulega á ytri skapabörm og snípinn og inn í leggöngin ekkert síður en á lim eða þann líkamshluta makans sem fer inn í leggöngin. Þú kannt að þurfa að bæta á síðar meðan á samförum stendur.

  • Finnist þér óþægilegt að nota hendurnar (eða hendur rekkjunautarins) til að setja sleipiefni inn í leggöngin og það hjálpar þér ekki að nota þunna gúmmihanska, veldu þá eitthvert efni sem kemur í staut sem hægt er að setja inn í leggöngin. 

  • Val þitt kann að ráðast af því hvernig efnið er viðkomu, lyktinni af því eða bragðinu. Hafðu það tilbúið í svefnherberginu, á baðherberginu eða hvar sem líkur eru á því að þú þurfir á því að halda.

  • Reyndu að nota sleipiefni á sama hátt og þú notar handáburð: oft og reglulega.


ÞB